Námskeið

Kynntu þér námskeið og fasta viðburðir sem boðið er upp á hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins.

Í Ráðgjafarþjónustunni er boðið upp á ýmis námskeið sem snúa að sálfélagslegri endurhæfingu fyrir fólk með krabbamein og aðstandendur þeirra.

Fastir viðburðir hjá Ráðgjafarþjónustunni 2018

Góðir hálsar: Rabbfundir

Rabbfundir hjá Góðum hálsum fara fram fyrsta miðvikudag í hverjum mánuði.

Samtal um réttindi fólks með krabbamein

Kynning á  réttindum og úrræðum fyrir fólk með krabbamein og aðstandendur þeirra. Alla miðvikudaga kl. 13:00-13:30. Umsjón hefur Gunnjóna Una Guðmundsdóttir félagsráðgjafi.

Hádegisfyrirlestrar

Tvisvar í mánuði er boðið upp á hádegisfyrirlestur.  Um er að ræða heilsueflandi og uppbyggilegt efni sem snýr að fræðslu og forvörnum ásamt öðru efni sem nýtist fólki í ólíkum aðstæðum.

Fyrirlestrarnir eru á miðvikudögum kl. 12:10-12:50 og eru auglýstir sérstaklega á vef Krabbameinsfélagsins.

Örráðstefnur

Örráðstefnur eru haldnar í mars og október.

Hópslökun

Opnir tímar í djúpslökun eru alla þriðjudaga kl. 11:30-12:00. Leiðbeinendur eru Auður E. Jóhannsdóttir og Gunnjóna Una Guðmundsdóttir, ásamt gestaleiðbeinendum.

Námskeið hjá Ráðgjafarþjónustunni 2018

Námskeið í núvitund – frá streitu til sáttar

Þessi námskeið hafa verið í boði hjá Ráðgjafarþjónustunni frá árinu 2011 og eru alltaf fullsetin.

Á námskeiðinu er tvinnað saman aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar og sálfræði austrænnar visku. Markmiðið er að öðlast meiri hugarró og njóta betur líðandi stundar.

Leiðbeinandi er Margrét Bárðardóttir sálfræðingur. Kynntu þér næstu námskeið með því að smella hér .

Hugræn atferlismeðferð 

Á námskeiðinu er tækni hugrænnar atferlismeðferðar kynnt og kennd. Fjallað er um hvernig hugsanir hafa áhrif á tilfinningar og líkamlega líðan fólks. Tilgangurinn er að vinna gegn andlegri vanlíðan og er námskeiðið hugsað fyrir fólk sem hefur greinst með krabbamein og fyrir aðstandendur. Námskeiðið er í fjögur skipti.

Hugræn atferlismeðferð (HAM) auðveldar fólki að aðlagast nýjum og breyttum aðstæðum í lífinu. Greining krabbameins hefur oft lamandi áhrif á fólk og flestir krabbameinssjúklingar og aðstandendur þeirra kvíða þeirri óvissu sem í vændum er. Á námskeiðunum hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins fá þátttakendur aðstoð við að vinna með íþyngjandi hugsanir og tilfinningar og að aðlagast breyttum aðstæðum eftir greiningu krabbameins. Þátttakendum gefst kostur á að kynnast lífsviðhorfum fólks sem er í svipuðum aðstæðum og skoða hvort þeir geti sjálfir brugðist við aðstæðum sínum á annan og auðveldari hátt en þeir eru vanir að gera. Aukin þekking og umræða sem skapast á HAM námskeiðunum er til þess fallin að minnka kvíða þátttakenda og auka þannig lífsgæði þeirra.

Leiðbeinandi er Gunnjóna Una Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi. Kynntu þér næstu námskeið með því að smella hér.

Hugræn atferlismeðferð við svefntruflunum.

Átt þú erfitt með að festa svefn á kvöldin? Vaknar þú upp á nóttunni og átt erfitt með að sofna á ný? Finnur þú fyrir þreytu og orkuleysi á daginn? Notar þú svefnlyf að staðaldri? Ef svo er, gæti verið að þú glímir við langvarandi svefnleysi sem árangursríkt er að meðhöndla með hugrænni atferlismeðferð. Námskeiðið er í fimm skipti.

Leiðbeinandi er Erla Björnsdóttir sálfræðingur. Kynntu þér næstu námskeið með því að smella hér.

Gott útlit - betri líðan

Markmið námskeiðsins er að bæta líðan kvenna í krabbameinsmeðferð.  Á námskeiðinu er farið í grundvallaratriði í umhirðu húðar ásamt því að leiðbeint er um förðun. Þessi námskeið eru haldin síðasta þriðjudag hvers mánaðar frá janúar til apríl og ágúst til nóvembers.

Leiðbeinandi er Kristjana Rúnarsdóttir sérfræðingur frá Lancome. Kynntu þér næstu námskeið með því að smella hér.

Ertu með sogæðabjúg á handlegg?

Markmið námskeiðsins er að auka þekkingu og færni til að bregðast við sogæðabjúg. Stórum hluta tímans er varið í verklega kennslu þar sem m.a. er lögð áhersla á sjálfsnudd og æfingar. Námskeiðið er í þrjú skipti.

Leiðbeinendur er Marjolein Roodbergen og María Björk Ólafsdóttir, sjúkraþjálfarar.

Kynntu þér næstu námskeið með því að smella hér.

Að skrifa og skapa

Á þessu námskeiði eru veittar leiðbeiningar um það hvernig hægt er að virkja sköpunargáfuna, nýta reynsluna og skrifa sér til gamans.

Leiðbeinandi er Anna Heiða Pálsdóttir, Ph D bókmenntafræðingur Kynntu þér næstu námskeið með því að smella hér.

Vísnagerð

Á námskeiðinu er farið yfir helstu reglur um vísnagerð og þátttakendum leiðbeint við að setja saman sínar eigin vísur.

Leiðbeinandi er Ragnar Ingi Aðalsteinsson.

Stuðningshópur fyrir ekkjur og ekkla

Stuðningshópurinn er í samstarfi við Nýja Dögun - samtök um sorg og sorgarviðbrögð.  Um er að ræða sex  hópatíma þar sem faglegur stuðningur og jafningjastuðningur mætast.

Fáðu nánari upplýsingar hjá ráðgjafa Ráðgjafarþjónustunnar (netfang: radgjof@krabb.is) í síma 800 4040.

Námskeið fyrir heilbrigðisstarfsfólk

Tjáskiptanámskeið – Að flytja slæmar fréttir

Námskeiðið er byggt á viðurkenndum og árangursríkum kennsluaðferðum sem miða að því  að efla og styðja við heilbrigðisstarfsfólk í starfi og hefur verið þróað og innleitt á Íslandi í samvinnu við EC4H – Effective Communication for Health í Skotlandi.

Þessi námskeið hafa verið í boði fyrir lækna og hjúkrunarfræðinga á krabbameinssviði Landspítalans.


Nánari upplýsingar gefur Sigrún í síma 800 4040 (sigrunli@krabb.is). 

Leiðbeinendur eru dr. Erna Haraldsdóttir, Jón Eyjólfur Jónsson öldrunarlæknir og Sigrún Lillie Magnúsdóttir hjúkrunarfræðingur og forstöðumaður Ráðgjafarþjónustunnar.

Slökun fyrir heilbrigðisstarfsfólk

Hópatímar í slökun með dáleiðslu ívafi.

Leiðbeinandi er Lilja Jónasdóttir hjúkrunarfræðingur.


Var efnið hjálplegt?