Námskeið

Kynntu þér námskeið og fasta viðburði sem boðið er upp á hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins.

Í Ráðgjafarþjónustunni er boðið upp á ýmis námskeið sem snúa að sálfélagslegri endurhæfingu fyrir fólk með krabbamein og aðstandendur þeirra.

Fastir viðburðir hjá Ráðgjafarþjónustunni


Opnir fjartímar í slökun 

 Boðið er uppá opna fjartíma í hugleiðslu/slökun í streymi:

Slökun og vellíðan

Jóga Nidra, opnir tímar 

Námskeiðið er í pásu sökum Covid

Boðið er upp á opna tíma í Jóga Nidra hugleiðslu alla þriðjudaga frá kl. 15:00-15:45. Tímarnir eru ætlaðir þeim sem hafa greinst með krabbamein og aðstandendum.

Jóga Nidra er meðal annars öflug leið til að kyrra hugann, losa um streitu og auka vellíðan.

Hefur þú þörf fyrir stuðning eða spjall

 Hjá Ráðgjafarþjónustunni starfa hjúkrunarfræðingar, félagsráðgjafar, sálfræðingur og kynlífsráðgjafi. Boðið er upp á viðtöl fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra.


Það getur verið gott að setjast niður og ræða málin. Við erum tilbúin að hlusta og liðsinna þér. Þú getur pantað tíma í síma 800-4040 eða í gegnum netfangið radgjof@krabb.is. Einnig er hægt að koma við án þess að gera boð á undan sér.

Viðtöl eru fólki að kostnaðarlausu.

Kynlífsráðgjöf

 Boðið er upp á kynlífs- og pararáðgjöf í Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins.

Ráðgjöfin er ætluð þeim sem hafa greinst með krabbamein og/eða aðstandendum. Jafnt pör sem einstaklingar geta nýtt sér ráðgjöfina. Tilgangurinn er að vinna að bættu kynheilbrigði og að takast á við breytingar í kjölfar veikinda.

Hefur þú misst ástvin úr krabbameini?

 Ráðgjafarþjónustan býður upp á viðtöl til stuðnings þeim sem hafa misst ástvin úr krabbameini.

Hjá Ráðgjafarþjónustunni starfa hjúkrunarfræðingar, félagsráðgjafar og sálfræðingur. Það getur verið gott að setjast niður og ræða málin. Við erum tilbúin að hlusta og liðsinna þér.

Þú getur pantað tíma á netfanginu radgjof@radgjof.is eða í síma 800-4040. Einnig er hægt að koma við án þess að gera boð á undan sér.

Viðtöl eru fólki að kostnaðarlausu.

Námskeið hjá Ráðgjafarþjónustunni 

Námskeið í núvitund – núvitund og samkennd

Á námskeiðinu er tvinnað saman aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar og sálfræði austrænnar visku. Markmiðið er að öðlast meiri hugarró og njóta betur líðandi stundar.

Leiðbeinandi er Margrét Bárðardóttir sálfræðingur. Kynntu þér næstu námskeið með því að smella hér.

Hugræn atferlismeðferð 

Á námskeiðinu er tækni hugrænnar atferlismeðferðar kynnt og kennd. Fjallað er um hvernig hugsanir hafa áhrif á tilfinningar og líkamlega líðan fólks. Tilgangurinn er að vinna gegn andlegri vanlíðan og er námskeiðið hugsað fyrir fólk sem hefur greinst með krabbamein og fyrir aðstandendur. Námskeiðið er í fjögur skipti.

Hugræn atferlismeðferð (HAM) auðveldar fólki að aðlagast nýjum og breyttum aðstæðum í lífinu. Greining krabbameins hefur oft lamandi áhrif á fólk og flestir krabbameinssjúklingar og aðstandendur þeirra kvíða þeirri óvissu sem í vændum er. Á námskeiðunum hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins fá þátttakendur aðstoð við að vinna með íþyngjandi hugsanir og tilfinningar og að aðlagast breyttum aðstæðum eftir greiningu krabbameins. Þátttakendum gefst kostur á að kynnast lífsviðhorfum fólks sem er í svipuðum aðstæðum og skoða hvort þeir geti sjálfir brugðist við aðstæðum sínum á annan og auðveldari hátt en þeir eru vanir að gera. Aukin þekking og umræða sem skapast á HAM námskeiðunum er til þess fallin að minnka kvíða þátttakenda og auka þannig lífsgæði þeirra.

Leiðbeinandi er Gunnjóna Una Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi. Kynntu þér næstu námskeið með því að smella hér.

Hugræn atferlismeðferð við svefnleysi

Átt þú erfitt með að festa svefn á kvöldin? Vaknar þú upp á nóttunni og átt erfitt með að sofna á ný? Finnur þú fyrir þreytu og orkuleysi á daginn? Notar þú svefnlyf að staðaldri? Ef svo er, gæti verið að þú glímir við langvarandi svefnleysi sem árangursríkt er að meðhöndla með hugrænni atferlismeðferð. Námskeiðið er í fimm skipti.

Leiðbeinandi er Erla Björnsdóttir sálfræðingur. Kynntu þér næstu námskeið með því að smella hér.

Gott útlit - betri líðan

Markmið námskeiðsins er að bæta líðan kvenna í krabbameinsmeðferð.  Á námskeiðinu er farið í grundvallaratriði í umhirðu húðar og veittar leiðbeiningar um förðun. Þessi námskeið eru haldin síðasta þriðjudag hvers mánaðar frá janúar til apríl og ágúst til nóvember. 

Leiðbeinandi er Kristjana Rúnarsdóttir sérfræðingur frá Lancome. Kynntu þér næstu námskeið með því að smella hér.

Ertu með sogæðabjúg á handlegg?

Markmið námskeiðsins er að auka þekkingu og færni til að bregðast við sogæðabjúg. Stórum hluta tímans er varið í verklega kennslu þar sem m.a. er lögð áhersla á sjálfsnudd og æfingar. Námskeiðið er í þrjú skipti.

Leiðbeinendur er Marjolein Roodbergen og María Björk Ólafsdóttir, sjúkraþjálfarar.

Kynntu þér næstu námskeið með því að smella hér.

Þreyta – hvað er til ráða?

Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins heldur reglulega námskeið um þreytu. Námskeiðið er ætlað þeim sem finna fyrir þreytu í kjölfar krabbameinsgeiningar eða meðferðar. Fjallað verður um mögulegar orsakir þreytu og hvað er til ráða.

Leiðbeinendur eru: Þorri Snæbjörnsson sálfræðingur, Íris Eva Hauksdóttir sjúkraþjálfari, Rannveig Björnsdóttir næringarfræðingur og Sigrún Jóna G. Eydal iðjuþjálfi.

Námskeið í Jóga Nidra djúpslökun

Á námskeiðinu er lögð áhersla á hugleiðslu og djúpslökun með aðferðum Jóga Nidra þar sem þú liggur undir teppi. Einnig kemur tónheilun við sögu.

Ávinningurinn getur verið jákvæð og víðtæk áhrif á líkamlega og andlega líðan

Námskeiðið er vikulega í fjögur skipti. Þátttökugjald er 2000 kr. 

Leiðbeinandi er: Þórey Viðarsdóttir, jógakennari.

Einbeiting og minni

Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa áhyggjur af minni sínu í kjölfar veikinda en einnig þeim sem vilja fræðast um minnið og læra að nýta sér mismunandi minnistækni. Námskeiðið er í tvö skipti. Leiðbeinandi: Þorri Snæbjörnsson.

Konur og kynheilbrigði

Á námskeiðinu er veitt fræðsla um kynheilbrigði í kjölfar krabbameinsmeðferðar. Auk fræðslu er markmiðið að efla kynheilbrigði með núvitund og hugrænni atferlismeðferð. Námskeiðið er í 3 skipti.

Leiðbeinandi: Áslaug Kristjánsdóttir, hjúkrunar og kynfræðingur.

Fysio flow

Sérstök aðferð þar sem áhersla er lögð á að hreyfa bandvefi líkamans með rólegum teygjum og æfingum.  Hentar meðal annars vel þeim sem glíma við verki, streitu og stífleika. Námskeiðið er í sex skipti og þátttökugjald 2000 kr.

Leiðbeinandi: Heiðbjört Tíbrá Kjartansdóttir, sjúkraþjálfi.

Núvitund fyrir ungmenni

Námskeið í núvitund sem byggist á Mindfulness-based Cognitive Therapy (MBCT) og er ætlað fyrir aðstandendur á aldrinum 16-22 ára sem hafa misst náin ástvin. Markmiðið er að öðlast meiri hugarró og njóta betur líðandi stundar.

Leiðbeinandi er Edda Margrét Guðmundsdóttir sálfræðingur. 

Mín leið að lokinni meðferð við brjóstakrabbameini

Mín leið að lokinni meðfeðr við brjóstakrabbameini er samvinnuverkefni milli Krabbameinsfélags Íslands og Landspítalans.

Námskeiðið er ætlað konum sem greinst hafa með með brjóstakrabbamein og lokið meðferð. Námskeiðið stendur konum til boða, óháð því hvaða meðferð þær gengust undir eða hversu umfangsmikil meðferðin var. Æskilegt er að ekki séu liðin meira en tvö ár frá meðferðarlokum.

Megintilgangur námskeiðsins er að þátttakendur hitti aðra í svipuðum sporum ásamt því að fá stuðning og fræðslu um ýmislegt sem konur eru að upplifa að lokinni krabbameinsmeðferð. Á námskeiðinu er farið í gegnum helstu fylgikvilla meðferða, upplýsingar eru veittar um þá stuðningsþjónustu sem í boði er, hvatt er til heilbrigðs lífsstíls og valdeflingar og dregið úr einangrun með jafningjastuðningi.

Námskeiðið er í fjögur skipti, þrjár klukkustundir í senn og fer fram á 1. hæð í húsi Krabbameinsfélagsins að Skógarhlíð 8. Mikilvægt er að mæta í alla fjóra námskeiðshlutana.

Kynningarefni: Kynningarbæklingur um námskeiðið


Var efnið hjálplegt?