Jafn­réttis­áætlun Krabba­meins­félags Íslands 2021-2024

Með jafnréttisáætlun uppfyllir Krabbameinsfélag Íslands skyldur sínar samkvæmt lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Áætlunin er jafnframt liður í því að gera félagið að góðum, áhugaverðum og framsæknum vinnustað þar sem jafnræði fólks er í fyrirrúmi. Jafnréttisáætlunin er víðtæk og nær ekki eingöngu til jafnræðis kynja heldur ber einnig að skoða með tilliti til jafnræðis út frá öðrum þáttum, s.s. uppruna, kynþætti, trúarbrögðum, efnahag, ætterni og tengslum.

Taka skal mið af jafnréttisáætluninni í öllu starfi félagsins. Allt starfsfólk félagsins ber sameiginlega ábyrgð á að í starfi sé ætíð gætt að jafnræði.

Jafnréttisáætlunin er endurskoðuð á þriggja ára fresti, næst í desember 2024, eða eftir þörfum. Framkvæmdastjóri félagsins ber ábyrgð á áætluninni og framkvæmd hennar. Áætlunin er staðfest af stjórn félagsins.

Á hverju ári skal fylgjast með hvort markmið áætlunarinnar hafi náðst.

Jafnréttisáætlun félagsins er kynnt öllu starfsfólki og aðgengileg á heimasíðu félagsins.

Launajafnrétti

Starfsfólk Krabbameinsfélagsins skal njóta sambærilegra kjara fyrir sambærileg eða jafnverðmæt störf. Launaákvarðanir skulu byggja á málefnalegum rökum.

Auglýsingar um laus störf og ráðningar

Auglýsingar um laus störf skulu vera kynlausar, nema þegar undantekningar krefjast annars og í þeim skal vera hvatning til fólks af öllum kynjum að sækja um. Innan félagsins skal unnið að því að jafna hlut kynja, m.a. þannig að umsækjandi af því kyni sem hallar á, gangi fyrir við ráðningu, ef viðkomandi er að öðru leyti jafnhæfur eða hæfari en aðrir umsækjendur. Sama skal gilda varðandi nema í starfsþjálfun og breytingar á starfssviði, möguleika til stöðuhækkana osfrv.

Starfsþróun og símenntun

Starfsfólk, óháð kyni, starfi eða stöðu, skal hvatt til að nýta tækifæri til símenntunar og starfsþróunar, í samráði við yfirmenn.

Samræming fjölskyldulífs og vinnu

Til að auðvelda starfsfólki Krabbameinsfélagsins að samræma vinnu og fjölskyldulíf skal það, óháð kyni, starfi eða stöðu skal eiga kost á sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða öðrum sveigjanleika, þegar því er viðkomið vegna starfsemi félagsins. Það á meðal annars við tímabundnar breytingar á starfshlutfalli þegar fjölskylduaðstæður krefjast þess og endurkomu til vinnu í kjölfar fæðingarorlofs eða alvarlegra veikinda.

Fæðingar- og foreldraorlof

Fólk í fæðingar- og foreldraorlofi skal njóta sömu möguleika til stöðuhækkana, launabreytinga og viðlíka.

Kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni og einelti

Hvers kyns áreitni, kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni eða af öðrum toga, svo og einelti er ekki liðin innan Krabbameinsfélagsins. Ef slík mál koma upp skal taka mið af reglugerð nr 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum í meðferð máls. 

Framkvæmdaáætlun:

Á hverju ári skal gera könnun í tengslum við jafnréttisáætlunina.

Launajafnrétti

Markmiðið er að starfsfólk njóti sambærilegra kjara fyrir jafn verðmæt störf. 

Aðgerð  Tímasetning Ábyrgð
Vinna skal launagreiningu, þar sem meðal annars er metinn óútskýrður launamunur ef einhver er. September ár hvert.Fjármálastjóri.
Á árinu 2022 verður unnið að undirbúningi fyrir jafnlaunastaðfestingu / jafnlaunavottun.  September ár hvert.  Fjármálastjóri.

Auglýsingar um laus störf og ráðningar

Markmiðið er að jafna hlut kynja í starfsmannahópi félagsins. Miða skal við að í öllum auglýsingum sé fólk af öllum kynjum hvatt til að sækja um og leyfi framkvæmdastjóra þarf til að víkja frá því í undantekningartilvikum. 

Aðgerð Tímasetning Ábyrgð 
Yfirfara atvinnuauglýsingar út frá ofangreindu.  Skal gera í hvert sinn.  Framkvæmdastjóri.  
Greina skal samsetningu starfsmannahópsins í heild og eftir deildum, út frá kynjahlutföllum.  September ár hvert.  Framkvæmdastjóri. 

Starfsþróun og símenntun

Markmiðið er að allt starfsfólk hafi tækifæri til að afla sér símenntunar eða fræðslu.

 
Aðgerð Tímasetning Ábyrgð 
Fylgjast skal með hve stórt hlutfall starfsfólks, með tilliti til kyns, er sammála því að það hafi tækifæri til símenntunar og sömuleiðis hvort starfsfólk hefur nýtt tækifæri til þess.  September ár hvert. Framkvæmdastjóri.  

Samræming fjölskyldulífs og vinnu

Markmiðið er að starfsfólk upplifi að það geti samræmt fjölskyldulíf og vinnu.

Aðgerð Tímasetning Ábyrgð 
Kanna skal hvert hlutfall starfsmanna upplifir að það geti samræmt fjölskyldulíf og vinnu.September ár hvert. Framkvæmdastjóri.  

Fæðingar- og foreldraorlof

Markmiðið er að fólk í fæðingar- og foreldraorlofi njóti sömu möguleika til starfsþróunar og aðrir.

Aðgerð Tímasetning Ábyrgð 
Með samanburði við starfsmannahópinn í heild verður kannað hvort fólk í fæðingar- og foreldraorlofi njóti sömu möguleika og aðrir.  September ár hvert.  Framkvæmdastjóri.  

Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni og einelti

Markmiðið er að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni og einelti, meðal annars með fræðslu um samskipti og góða liðsheild.

Aðgerð Tímasetning Ábyrgð 
Á hverju ári verður kerfisbundið fylgst með upplifun starfsfólks af kynbundnu ofbeldi, kynbundinni og kynferðislegri áreitni eða einelti.  September ár hvert.Framkvæmdastjóri.  
Reglubundin fræðsla.  Fyrir lok nóvember ár hvert.  Framkvæmdastjóri.  

Samþykkt á stjórnarfundi 14. desember 2021.






Var efnið hjálplegt?