Réttindi þeirra sem greinast með krabbamein

Upplýsingar um fjármál, félagsleg réttindi og endurhæfingu

Ýmis úrræði eru fyrir hendi í samfélaginu fyrir þá sem greinast með krabbamein og aðra sjúkdóma. Fólk stendur þó oft misjafnlega að vígi hvað áunnin réttindi varðar. 

Krabbameinsfélagið hefur tekið saman upplýsingar um helstu úrræði sem í boði eru fyrir krabbameinssjúklinga hjá Tryggingastofnun ríkisins, Sjúkratryggingum Íslands (SÍ), félagsþjónustu sveitarfélaga, stéttarfélögum og lífeyrissjóðum. 

Þessari samantekt er ætlað að hjálpa fólki að fá yfirsýn yfir úrræði sem það getur hugsanlega nýtt sér í erfiðum aðstæðum. 

Tekjur í veikindum 

Krabbamein getur raskað mörgum þáttum í lífi fólks. Margir þurfa til að mynda að vera frá vinnu til styttri eða lengri tíma. Lengd þess tímabils fer eftir því til hvaða inngripa þarf að grípa. Sjá nánar hér fyrir neðan. Athygli er vakin á að ljúka þarf réttindum í hverju skrefi áður en farið er á næsta.

Hvernig verður þetta með vinnuna?

Þeir sem þurfa á aðgerð að halda þurfa oft veikindaleyfi frá vinnu í einhverjar vikur eða mánuði til að jafna sig. Þinn læknir ætti að geta sagt til um hversu langan tíma áætlað er að þú þurfir að vera frá vinnu.

Þeir sem fara í krabbameinslyfjameðferð eða geislameðferð þurfa oft að vera frá vinnu í lengri tíma, einhverja mánuði upp í ár eða lengur. Það er misjafnt hvaða aukaverkanir þarf að takast á við af meðferðinni og sjúkdómnum og því misjafnt hversu mikið eða lengi fólk þarf að vera frá vinnu.

Það er mörgum dýrmætt að halda áfram góðum tengslum við sinn vinnustað þrátt fyrir að þurfa veikindaleyfi frá störfum. Fyrir einhverja getur möguleikinn á að vera áfram í vinnu hreinlega skipt sköpum, þrátt fyrir greiningu krabbameins. Þá skiptir máli hvers eðlis vinnan er og hvort möguleiki er á sveigjanleika. Í tilvikum þar sem auðvelt er að vinna heiman frá, draga úr verkefnum og haga vinnunni eftir persónulegum þörfum kjósa því sumir að halda áfram sinni vinnu, eftir því sem heilsan leyfir. Fyrir flesta er þó nægt verkefni að takast á við lífið í krabbameinsmeðferð enda mikilvægt að hlúa vel að sér í þeim aðstæðum.

Krabbameinsfélagið hefur tekið saman upplýsingar um helstu úrræði sem í boði eru fyrir krabbameinssjúklinga hjá Tryggingastofnun ríkisins, Sjúkratryggingum Íslands (SÍ), félagsþjónustu sveitarfélaga, stéttarfélögum og lífeyrissjóðum. Þessari samantekt er ætlað að hjálpa fólki að fá yfirsýn yfir úrræði sem það getur hugsanlega nýtt sér í erfiðum aðstæðum.

Veikindaréttur - fyrsta skref

Varst þú að greinast með krabbamein og þarft að fá veikindaleyfi frá vinnu?

Réttur til launa í veikindum:

Það fyrsta sem þarf að gera er að tala við yfirmann eða launafulltrúa og kanna hve langur veikindaréttur er á vinnustaðnum. Áunnin réttindi til launa í veikindum miðast oftast við kjarasamninga og hve lengi viðkomandi hefur unnið á sama vinnustað eða sambærilegum vinnustöðum.

Áður en veikindaréttur þinn klárast þarf að huga að næsta skrefi.

Sjúkradagpeningar - annað skref 

Sé veikindaréttur á vinnustaðnum fullnýttur og viðkomandi ekki vinnufær er næsta skref að sækja um:

a) Sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóði frá viðkomandi stéttarfélagi áður en veikindaréttur á vinnustað klárast. Sjúkradagpeningar eru yfirleitt um 80% af þeim launum sem viðkomandi hafði frá sínum launagreiðanda, það er þó ekki algilt. Það er misjafnt hve lengi stéttarfélögin greiða úr sjúkrasjóði og því er best að hafa samband við stéttarfélagið og fá upplýsingar um þinn rétt, hvar hægt er að nálgast umsóknina og hvaða gögn þurfa að fylgja með.

Auk þessa er sótt um:

b) Sjúkradagpeninga hjá Sjúkratryggingum Íslands sem greiddir eru samhliða sjúkradagpeningum frá stéttarfélagi. Sjúkradagpeninga má greiða í allt að 52 vikur á hverjum 24 mánuðum.

Hér getur þú nálgast umsóknina og frekari upplýsingar um upphæðir sem greiddar eru.

https://www.sjukra.is/heilbrigdisthjonusta/sjukradagpeningar/

Áður en réttur þinn í sjúkrasjóði (sjúkradagpeningar) klárast þarf að huga að næsta skrefi.

Endurhæfingarlífeyrir - þriðja skref

Endurhæfingarlífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins:

Áður en réttur til að taka út sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóði klárast þarf að sækja um endurhæfingarlífeyri ef þú þarft áfram að vera frá vinnu. Gott er að sækja tímanlega um endurhæfingarlífeyri, eða um einum og hálfum mánuði áður en sjúkradagpeningar falla niður.

Meginskilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris er að umsækjandi sé óvinnufær vegna sjúkdóma og taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði. Þegar einstaklingur hefur fengið endurhæfingarlífeyri í 18 mánuði er heimilt að framlengja greiðslutímabilinu um allt að 18 mánuði til viðbótar, þannig að greiðsla sé að hámarki í 36 mánuði, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

Hér er að finna nánari upplýsingar um endurhæfingarlífeyri og eins ef sótt er um framlengingu á greiðslutímabilinu og þau gögn sem þurfa að fylgja með þegar sótt er um. https://www.tr.is/endurhaefing/endurhaefingarlifeyrir

Einnig er hægt að sækja um:

Örorkulífeyri frá viðkomandi lífeyrissjóði sem er þá greiddur samhliða endurhæfingarlífeyri.

 Áður en réttur þinn til endurhæfingarlífeyris klárast þarf að huga að næsta skrefi.

Örorkulífeyrir - fjórða skref

Ef ljóst er að viðkomandi eigi ekki afturkvæmt í vinnu þarf að sækja um

a) Örorkulífeyri til lífeyrissjóðs sem greitt hefur verið í. Umsóknareyðublöð er yfirleitt hægt að nálgast á heimasíðu lífeyrissjóðsins.

b) Örorkulífeyri til Tryggingastofnunar ríkisins. Hér má finna nánari upplýsingar um umsóknarferlið https://www.tr.is/ororka/ororkulifeyrir

Gott er að hafa í huga að gera þarf tvær aðskildar umsóknir og skila læknisvottorði á báða staði.

Ert þú elli eða örorkulífeyrisþegi?

Þeir sem þegar fá greiddan elli- eða örorkulífeyri þegar veikindi ber að eiga ekki rétt á sjúkradagpeningum. Þeir sem hafa skertan grunnlífeyri geta þó átt rétt á þeim.

Ert þú sjálfstæður atvinnurekandi?

Sjálfstæðir atvinnurekendur eiga rétt á sjúkradagpeningum úr sjúkrasjóði síns stéttarfélags eins og um launþega sé að ræða, svo framarlega sem greitt hefur verið til stéttarfélagsins. Ef sjálfstætt starfandi einstaklingur hefur ekki verið í stéttarfélagi og greitt í sjúkrasjóð er sótt beint um endurhæfingarlífeyri.

Ert þú á atvinnuleysisbótum?

Þeir sem eru á atvinnuleysisbótum eiga rétt á sjúkradagpeningum úr sjúkrasjóði sé greitt stéttarfélagsgjald af atvinnuleysisbótum. Ef ekki þá er sótt um endurhæfingarlífeyri.


Ert þú maki eða aðstandandi?


Maka- og umönnunarbætur Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að greiða maka eða öðrum sem halda heimili með elli-, örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Við slíkar aðstæður þarf sjúklingur að vera lífeyrisþegi hjá TR en umönnunaraðili má ekki vera lífeyrisþegi og þarf að hafa sama lögheimili og sjúklingurinn. Umönnunaraðilinn þarf einnig að hafa minnkað við sig vinnu og lækkað í tekjum. Bæturnar geta numið 167.554 kr. á mánuði.

https://www.tr.is/ororka/maka-og-umonnunarbaetur

Sjúkradagpeningar fyrir maka: Mörg stéttarfélög greiða sjúkradagpeninga til félagsmanna sem eiga maka sem glímir við alvarleg veikindi. Oft eru þá greidd 80% af launum í 90 daga. Best er að hafa samband við stéttarfélagið og kanna sinn rétt.

Nánari upplýsingar um réttindi og annað sem gott er að hafa í huga:

  • Lífeyrisgáttin - yfirsýn yfir réttindi þín. Við vekjum athygli á lífeyrisgáttinni sem hjálpar þér að fá yfirsýn yfir réttindi þín. Í Lífeyrisgáttinni getur þú nálgast öll þau réttindi sem þú hefur unnið þér inn á starfsævinni (á eingöngu við samtryggingarsjóði, ekki séreignarsjóði). Sjá nánar hér.
  • Það er alltaf gott að hafa samband við sitt stéttarfélag og kanna möguleg önnur réttindi þar.
  • Vert er að kanna rétt sinn hjá sínu tryggingafélagi. Sé viðkomandi með sjúkdómatryggingu hjá tryggingafélagi þarf að kanna sinn bótarétt þar.
  • Endurgreiðsla á miklum læknis-, lyfja og þjálfunarkostnaði. Hægt er að sækja um endurgreiðslu frá Sjúkratryggingum Íslands vegna mikils læknis, lyfja og þjálfunarkostnaðar ef heildartekjur eru undir ákveðnum viðmiðunarmörkum. Hér er hægt að finna frekari upplýsingar og umsókn um endurgreiðslu. 
  • Einnig er rétt að hafa samband við stéttarfélagið og kanna hvort hægt sé að sækja um einhverja endurgreiðslu þessara þátta þar.
  • Sum tryggingafélög greiða einnig bætur vegna legudaga á sjúkrahúsi.

Upplýsingarnar í heild sinni er að finna í skjalinu Réttindi þeirra sem greinast með krabbamein - upplýsingar um fjármál, félagsleg réttindi og endurhæfingu. (Uppfært 1. febrúar 2024.).

  • Vekjum athygli á að hægt er að smella á upplýsingar í efnisyfirliti til að fara beint í það sem leitað er að.

Rettindi-mynd-vefsidu

Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins hefur starfað síðan 2007 og er þar veitt ókeypis þjónusta, svo sem upplýsingar, ráðgjöf, stuðningur, viðtöl og fræðsla fyrir krabbameinssjúklinga og aðstandendur þeirra.

Beinn sími Ráðgjafarþjónustunnar er 800 4040 og netfangið er radgjof@krabb.is.


Var efnið hjálplegt?