© Mats Wibe Lund

Skagafjörður

Krabbameinsfélag Skagafjarðar var stofnað 12. júní 1996 og eru félagsmenn um 500 talsins. Þjónustuskrifstofa er á Heilbrigðisstofuninni á Sauðárkróki. Starfsmaður er María Reykdal og formaður félagsins er Dalla Þórðardóttir. Stuðningshópur félagsins heitir Dugur. 

Starfsemi 2018

Á starfsárinu var boðið upp á ýmis námskeið. Ber þar fyrst að nefna það námskeið, sem hvað lengst hefur verið við lýði, en það er dvöl á Löngumýri um hásumar fyrir ekkjur og ekkla krabbameinssjúkra. Þau sem heimsótt hafa Löngumýri vita hve móttökur þar eru hlýjar og viðmót allt og andrúmsloft einstakt. Því er það ekki furða að fólk sem einu sinni hefur kynnst staðnum, leitast við að heimsækja hann aftur og aftur.

Krabbameinsfélagið styrkti fólk til að sækja sundnámskeið, sem haldin voru bæði fyrir og eftir jól.

Í febrúarmánuði var yfirskrift námskeiðsins Einbeiting og minni. Í aprílmánuði stendur félagið fyrir tveimur námskeiðum, María Reykdal kennir á HAM námskeiði og í lok mánaðar er á Löngumýri rætt um þreytu. Þau eru mörg sem kvarta undan síþreytu, minnisleysi og einbeitingarskorti í kjölfar lyfjainngjafar og meðferðar.

Starfsmaður félagsins hefur stýrt og haft umsjón með samverustundum fyrir bæði sjúka og aðstandendur þeirra, þar sem fólk getur rætt um breytta stöðu í tilverunni og leitað stuðnings. Mikil nauðsyn er að þessu starfi og að hafa vettvang fyrir fólk til að ræða við þau sem eru í svipuðum aðstæðum.

Sem fyrr nýtur félagið skilnings og stuðnings samfélagsins. Í haust komu boð frá Verslunarmannafélagi Skagafjarðar, sem safnað hafði fjármunum til styrktar félaginu og var framlagi veitt móttaka á fundi. Á liðnum árum hafa nemendur Varmahlíðaraskóla oftar en einu sinni safnað umtalsverðu fé með því að hlaupa ákveðna vegalengd og í vor er leið lögðu nemendur í Árskóla á Sauðárkróki fram söfnunarfé til að styrkja starfið. Það var ánægjulegt að sækja útskriftarathöfn í skólanum á fallegu vorkvöldi og finna hlýhug starfsmanna og nemenda, enda er það svo að sífellt eru fleiri að greinast og nær allar fjölskyldur eiga einhvern í nærhópi, sem glímir við þann vágest, sem krabbamein er.

Nýlega hélt Samband skagfirskra kvenna, SSK, aðalfund sinn og þar var Krabbameinsfélagi Skagafjarðar afhentur ágóði af árlegri vinnuvöku kvenfélaganna. SSK lætur afrakstur vinnuvökunnar renna til einhvers góðs málefnis og er þetta ekki í fyrsta sinn sem Krabbameinsfélagið fær að njóta hans.

Þörfin fyrir styrktarfé er sístæð og ómetanlegt að eiga slíka hauka í horni.

María Reykdal, starfsmaður, er til ráðgjafar og viðtala á skrifstofutíma og oft endranær.

Aðalfundur félagsins árið 2019 verður fyrir miðjan maímánuð.

Dalla Þórðardóttir.


Var efnið hjálplegt?