Framkvæmum hugmynd Landspítala

Landspítali á hugmynd um framtíðarlausn. 

Landspítali hefur mótað hugmynd um framtíðarlausn á vanda dagdeildarinnar. Samkvæmt þeirri hugmynd er hægt að leysa úr brýnum vanda á aðeins þremur árum.

Krabbameinsfélagið er tilbúið að leggja verulegt fjármagn til að bylta aðstöðu deildarinnar að því gefnu að stjórnvöld leggist á árarnar með félaginu og setji verkefnið í forgang. Deildin hefur fyrir löngu sprengt utan af sér húsnæðið. Brýnt er að hefja framkvæmdir.

Vilji stjórnar Krabbameinsfélagsins stendur til þess að koma að uppbyggingu deildarinnar með myndarlegum hætti, náist samstarf við stjórnvöld um byggingu deildarinnar.  

Krabbameinsfélagið styður hugmyndir Landspítala um viðbyggingu við K-byggingu sem yrði bylting á aðstöðu dagdeildarinnar.

Krabbameinsfélagið hefur átt náið samstarf við Landspítala og kynnt málið fyrir heilbrigðisráðherra, fjármálaráðherra, velferðarnefnd Alþingis og formanni stýrihóps um nýjan Landspítala. 

Staðreyndir:

  • Árið 2040 verður 35% blóðlækninga og 53% lyflækninga krabbameina sinnt á dag- og göngudeildum.
  • Til ársins 2040 mun komum á dag- og göngudeildir lyflækninga krabbameina fjölga um 50% og komum vegna blóðlækninga um 42%.
  • Aðstaðan í dag er óboðleg fyrir sjúklinga, starfsfólk og aðstandendur og stendur þjónustu fyrir þrifum.
  • 20% sjúklinga telur sig ekki geta rætt við starfsfólk í næði samkvæmt niðurstöðum úr Áttavitanum, nýrri rannsókn Krabbameinsfélagsins.
  • Starfsfólki er ókleift að uppfylla krabbameinsáætlun í núverandi aðstöðu og sóttvarnir eru mjög erfiðar.

Vandinn er mjög aðkallandi og hann verður að leysa - við getum leyst hann!


Leysum málið – lausnin er til!