Þegar foreldri deyr

Ráðgjöf og stuðningur fyrir skóla og heilsugæslu. 

Þegar foreldri deyr þurfa börn langvarandi stuðning. Börn eru mismunandi og þurfa því mismunandi stuðning, þó margt sé sameiginlegt. Leiðbeiningar varðandi stuðning við börn í sorg má nálgast hér. 

Samkvæmt Aðalnámsskrá skulu leik- og grunnskólar hafa sérstaka áfallaáætlun sem hugsuð er sem vinnuáætlun um hver gerir hvað, í hvaða röð og hvernig til að geta á sem faglegastan hátt brugðist við skyndilegum áföllum nemenda líkt og þegar foreldri deyr.

Miðlægt ráðgjafar og stuðningsteymi hefur verið stofnað innan vébanda Krabbameinsfélagsins þar sem starfa sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar og félagsráðgjafar. Gert er ráð fyrir að ráðgjöfin fari aðallega fram í gegnum síma, fjarviðtöl og tölvupóst. Þó er gert ráð fyrir að unnt verði að bregðast við óskum um að fá aðila frá teyminu til að heimsækja vettvang faglegs stuðningsnets barns, sé þess óskað. Með faglegu stuðningsneti barna er átt við kennara, skólahjúkrunarfræðinga, æskulýðsfulltrúa, presta, félagsráðgjafa, sálfræðinga og aðra fagaðila sem mæta börnunum og aðstandendum þeirra í samfélagslegu samhengi.   

Krabbameinsfélagið veitir ráðgjöf og stuðning til fagfólks skóla og heilsugæslu sem starfar með börnum eftir andlát foreldra. Ráðgjafarþjónusta er að Skógarhlíð 8 í Reykjavík og er opin virka daga frá kl. 9-16. Símaráðgjöf er á opnunartíma í síma 800 4040. Einnig er hægt að senda fyrirspurnir á radgjof@krabb.is.


 


Krabbameinsfélagið veitir skólum og heilsugæslu faglegan stuðning í síma 800 4040