Börn og unglingar í sorg

Börn syrgja í lotum, en þess á milli leita þau eftir huggun og öryggi. Börn í sorg þarfnast stuðnings og umönnunar yfir lengri tíma. Hér eru nokkur lykilatriði sem hafa þarf í huga.

Börn syrgja á mismunandi hátt

Börn syrgja í lotum, en þess á milli leita þau eftir huggun og öryggi. Börn í sorg þarfnast stuðnings og umönnunar yfir lengri tíma.

Hvað einkennir sorg barna á mismunandi aldursstigum og hvernig er best að bregðast við?

Meðal þess sem hefur áhrif á það hvernig börn syrgja er:

  • Aldur, kyn, persónuleiki og hvar þau eru stödd í þroskaferlinu.
  • Hvernig þau hafa áður höndlað streitu og tilfinningar.
  • Hvernig samband þau höfðu við þann sem þau syrgja.
  • Hvort þau hafi áður upplifað missi eða dauðsfall nákomins.
  • Fjölskylduaðstæður.
  • Hvernig aðrir nákomnir höndla sína sorg.
  • Aðgengi að stuðningi í nærumhverfi þeirra.

Stundum kann að virðast sem börn og unglingar séu ósnortin af fráfalli nákomins einstaklings, þau halda áfram að leika sér og gera það sem þau eru vön að gera. Þess vegna geta þeir fullorðnu talið að missirinn hafi ekki áhrif á börnin og að þau skilji jafnvel ekki hvað hafi gerst.

Það er þó ekki raunin. Börn syrgja gjarnan í lotum. Þess á milli leita þau huggunar og öryggis í leik og daglegu amstri. Þau þarfnast athygli og stuðnings yfir lengri tíma. Algengt er að sorgin taki sig upp, jafnvel löngu síðar, þá gjarnan í tengslum við ákveðna atburði eins og jól eða afmæli.

Ungabörn og smábörn (0-2 ára)

 

Mjög ung börn hafa hvorki skilning á því hvað dauðinn er/eðli dauðans né möguleika á að tjá sig með orðum hvernig þeim líður. Það er þó ljóst að þau geta upplifað missi og aðskilnað. 

Einnig skynja þau kvíða og óró fólks í nánasta umhverfi sínu.

 

Algeng viðbrögð mjög ungra barna í sorg eru meðal annars:

  • Að leita að þeim sem er látinn.
  • Að sýna merki um óróleika, eru uppstökk.
  • Að gráta meira.
  • Að ríghalda í aðra nákomna og vilja láta halda meira á sér.
  • Að draga sig inn í skel, verða óvirkari, þöglari og sýna minni viðbrögð.
  • Hugsanlegt þyngdartap/-stöðnun.
  • Að sýna merki um taugaóstyrk, óöryggi og kvíðni.
  • Að sýna merki um vansæld og pirring.

Hvernig er hægt að hjálpa þeim?

  • Halda daglegum venjum eins og kostur er.
  • Halda á þeim og gæla meira við þau.
  • Tala við þau með rólegri rödd og vera róleg í fasi.
  • Gefa þeim tuskudýr og/eða tau-bleðil sem þau geta hjúfrað sig að.

Leikskólabörn (2-5 ára)

 

Á þessu þroskastigi hafa börn ekki forsendur til að skilja að dauðinn er endanlegur. Þau geta t.d. talið að fólk geti lifnað við og/eða jafnvel að þau sjálf geti valdið dauða einhvers (svokölluð töfrahugsun). 

Þau skilja samt aðskilnað og finna til óöryggis og hræðslu þegar breytingar verða í umhverfi og daglegu amstri. Þessi börn þurfa mikla umhyggju, hlýju og staðfestingu á að þau séu örugg og að eftir þeim verði litið.

Algeng viðbrögð hjá þessum aldurshópi eru:

 

  • Að leita að þeim sem er dáinn.
  • Að dreyma manneskjuna sem lést og finna fyrir nærveru hennar.
  • Hræðsla og kvíði.
  • Að ríghalda í þá aðila sem þau treysta.
  • Óróleiki, streita og vansæld.
  • Að vera uppstökk og pirruð, aukin tíðni reiðikasta.
  • Að verða hlédræg, þögul og sýna minni viðbrögð við umhverfinu.
  • Breyttar matarvenjur.
  • Svefntruflanir.
  • Pissa undir og kúka á sig.
  • Að leita aftur á fyrri þroskastig; t.d. fara aftur að skríða, vilja fá pela.

Hvernig er best að hjálpa þeim?

  • Viðhaldið daglegum venjum eins og kostur er.
  • Segðu við þau að þú vitir að þau séu döpur og hjálpið þeim við að æfa sig að koma orðum á tilfinningar, kennið þeim gjarna ný orð yfir tilfinningar.
  • Látið þau finna og segið þeim að þau séu örugg og hverjir það séu sem líta eftir þeim.
  • Verið eins lítið í burtu frá þeim og kostur er.
  • Hughreystið þau með faðmlögum, hugheystandi orðum, gælum og með því að haldast í hendur.
  • Talið við þau af yfirvegun með hughreystandi rödd og verið róleg í fasi.
  • Útskýrið dauðann sem hluta af lífinu, svo að þau öðlist smám saman dýpri skilning á honum. Notið gjarnan dæmi úr náttúrunni eins og plöntur og dýr sem fæðast, vaxa og deyja.
  • Leyfið þeim gjarna að velja tuskudýr teppi eða taubút til að hjúfra sig að.
  • Ýtið undir leik og sköpun. Börn nýta oft leik til að vinna úr því sem hefur gerst. Til dæmis leikir í sandkassa, með dúkkum, leikbrúðum, litum og málningu.

Skólabörn (6-9 ára)

 

Börn á aldrinum 6-9 ára eru ennþá að leitast við að skilja dauðann og hafa stundum ruglingslegar hugmyndir um það hvað dauðinn er. Þau halda stundum að dauðinn sé tímabundinn eða að hinn látni hafi ennþá virk skynfæri og geti upplifað kulda, hungur og fundið fyrir tilfinningum eins og einmannaleika.

Þau velta gjarnan fyrir sér hlutum á borð við hvar hinn látni sé núna og hvað hafi orðið um líkama hins látna. Það er afar mikilvægt að útskýra dauðann fyrir þeim.

Algeng viðbrögð hjá þessum aldurhópi eru:

  • Að leita að hinum dána.
  • Dreyma um hinn látna og/eða finna fyrir tilvist þess látna.
  • Að kenna sjálfum sér um dauða hins látna.
  • Einbeitingarleysi og gleymska.
  • Kvíði og aukinn ótti t.a.m. við myrkrið og áhyggjur vegna öryggis annarra.
  • Sækjast eftir nærveru annarra og eiga erfitt með að sleppa þeim.
  • Ríghalda í þann aðila sem þau treysta.
  • Draga sig inn í skel og bregðast ekki við umhverfinu.
  • Sýna merki um streitu og vilja ekki fara í skólann.
  • Upplifa skömm; finnast þau vera öðruvísi; reyna að fela missinn fyrir öðrum.
  • Líkamleg einkenni t.d. magaverkur, höfuðverkur og annar sársauki.
  • Reiðiköst, mótþrói, andfélagslega hegðun og/eða árásargirni.
  • Breytingar í mataræði og/eða svefnvenjum.
  • Geta farið að pissa undir, þó þau hafi ekki gert það lengi.

Hvernig er best að hjálpa þeim?

  • Minna þau stöðugt á að þau séu í öruggum höndum fólks sem þykir vænt um þau.
  • Halda daglegum venjum, eins og kostur er.
  • Segið þeim að þú vitir að þau sé sorgmædd. Notið sem fjölbreyttastan orðaforða til að tjá þá tilfinningu að vera sorgmædd og finna fyrir depurð.
  • Verið með þeim og farið ekki frá þeim, eins og kostur er.
  • Leyfið þeim að spyrja erfiðra spurninga og svarið heiðarlega.
  • Sýnið hlýju með faðmlögum og handabandi.
  • Talið við þau í lágstemmdum yfirveguðum tón.
  • Útskýrið dauðann sem eðlilegan hluta lífsins. Þannig læra þau smám saman að skilja dauðann. Notið hliðstæður úr náttúrunni eins og fæðingu, vöxt og dauða blóma og dýra.
  • Leyfið þeim að hjálpa til við undirbúning jarðarfarar og minningarstunda.
  • Hjálpið þeim við að finna tuskudýr eða bleðil sem þau geta hjúfrað sig að.
  • Örvið leikgleði og skapandi viðfangsefni t.a.m. að leika sér með sand, dúkkur, teikningar og liti. Börnum er tamt að nota leiki til að vinna úr því sem hefur gerst.

Skólabörn (10-12 ára)

 

Börn á aldrinum (10-12 ára) hafa svipaðar þarfir og yngri börnin, en það er mikilvægt að hafa hugfast að börn á þessum aldri skilja að dauðinn er endanlegur. Ástvinurinn kemur ekki til baka. Þau eru líka meðvitaðri um viðbrögð fullorðinna og annarra í nærumhverfi þeirra.

Algeng viðbrögð hjá þessum aldurhópi eru:

  • Kvíði gagnvart öryggi sinna nánustu og sínu eigin öryggi.
  • Reyna oft að gera sitt ýtrasta til að þóknast fullorðnum, sem getur orðið til þess að þau ýti eigin sorg til hliðar og staðni í sorgarúrvinnslu sinni.
  • Upplifa sterkar tilfinningar, á borð við reiði, sektarkennd og höfnun.
  • Þau eru gjörn á að vilja taka á sig auka ábyrgð til að hlífa fullorðnum og reyna þóknast þeim.
  • Geta upplifað skammartilfinningu, fundist þau vera öðruvísi en jafnaldrar þeirra og hafa tilhneigingu til að fela missinn og sorgina.
  • Hafa tilhneigingu til að rýna í það sem hefur gerst og spyrja í þaula. Þau hugsa mikið um það sem gerðist og dreyma gjarna um það á nóttunni.

Hvernig er best að hjálpa þeim?

  • Börn á þessum aldri þurfa allan þann stuðning sem yngri börn þurfa, en auk þess eftirfarandi:
  • Tíma til að tala við fullorðna sem þau treysta, þegar þau leitast eftir því sjálf.
  • Hughreystingu bæði í orðum, faðmlögum og klappi á bakið.
  • Það er mikilvægt að vera hreinskilinn og sýna tilfinningar, þegar talað er um það sem gerðist. Sýna samkennd gagnvart sorginni t.d. „ég sé að þér líður illa og það er í lagi að syrgja“.
  • Hughreysting t.d. „ég verð hér þegar þú þarft á mér að halda“.
  • Forðist að gera kröfu á að barnið hagi sér eins og fullorðnir, leyfið þeim að syrgja á sinn máta.

Unglingar (13-18 ára)

 

Börn á aldrinum 13-18 ára gera sér grein fyrir því að dauðinn er hluti af lífshlaupinu, en mörg hafa aldrei upplifað áður dauða nákominna. Viðbrögð táninga við dauða nákomins geta sveiflast á milli viðbragða sem einkenna yngri börn annars vegar og viðbragða sem eru líkari viðbrögðum fullorðinna. Táningar vilja oft halla sér meira að vinum sínum en fjölskyldu.

Þau eiga erfitt með að höndla sterk tilfinningaleg viðbrögð fullorðinna í nærumhverfi sínu. Þau vilja gjarnan að það líti út fyrir að þau geti höndlað sorgina, þó þau engist af sorg innra með sér. Þau reyna stundum að forðast sorgina og það sem vekur upp tilfinningar sem tengjast henni. Dauði nákomins getur leyst úr læðingi áhættuhegðun sem deyfir tilfinningarnar t.a.m. aukna áfengisneyslu, notkun ávana og fíkniefna, áhættukynlíf og annað sem hefur hættu í för með sér.

Algeng viðbrögð hjá þessum aldurhópi eru:

  • Gleymska og eftirtektarleysi.
  • Erfiðleikar með einbeitingu m.a. í skólanum.
  • Vanlíðan í skólanum, breytingar á námsmati og vilja ekki fara í skólann.
  • Finnast eins og sterk viðbrögð séu að bera þau ofurliði t.d. reiði, sektarkennd og ótti.
  • Eiga erfitt með að tjá sterkar tilfinningar.
  • Oft mótsagnakenndar tilfinningar.
  • Kenna sjáfum sér um dauðsfallið.
  • Kvíði og aukin óró vegna öryggis nákominna og eigin öryggis.
  • Velta mikið fyrir sér spurningum um dauðann.
  • Dreymir gjarnan þann sem dó og finna fyrir návist viðkomandi.
  • Hafa aukna þörf til að vera í návist fjölskyldu og vina.
  • Draga sig þess á milli inn í skel og vilja vera ein.
  • Fá magaverk, finna fyrir höfuðverk og öðrum líkamlegum sársauka.
  • Stuttur þráður, mótþrói, andfélagsleg hegðun og stundum árásargirni.
  • Taka óþarfa áhættur til að forðast vanlíðan eða til að „finna að séu enn á lífi“ t.d. aukin áfengisneysla, neysla ólöglegra skynbreytiefna, áhættukynlíf og hættuleg meðferð ökutækja.
  • Breytingar á mataræði og svefnvenjum.
  • Pissa í rúmið á nóttunni.
  • Segja brandara (jafnvel kaldhæðna) til að fela sorg og kvíða.
  • Láta eins og þetta komi þeim ekki við og þeim sé alveg sama.
  • Taka gjarnan ábyrgð eins og þau séu fullorðin og reyna að þóknast öðrum.
  • Erfiðleikar með tilfinningatengsl og óþægindi í samskiptum við aðra.
  • Upplifun af skömm og að finnast þau vera öðruvísi en aðrir.
  • Reyna að fela missinn og sorgina.
  • Einmanakennd.
  • Breytingar á sjálfsímynd og minna sjálfstraust.
  • Sjálfsvígshugsanir í sumum tilfellum.
  • Sorgin getur þróast í þunglyndi.

Hvernig er best að hjálpa þeim?

  • Verið hreinskiptin og leyfið þeim að taka þátt í öllu ferlinu.
  • Verið tilbúin til að hlusta og reiðubúin til að gefa þeim tíma til að ræða þau mál sem brenna á þeim.
  • Staðfestið þær tilfinningar sem þau tjá t.d. sorg, ótta og reiði.
  • Deilið gjarna með ykkur af sambærilegri reynslu sem þið hafið gengið í gegnum.
  • Minnið þau stöðugt á að þau séu í tryggum höndum og að séð verði um þau.
  • Nafngreinið gjarnan þá einstaklinga sem þið vitið að eru reiðubúnir til að sinna þeim og elska.
  • Reynið að halda daglegum venjum og viðfangsefnum óbreyttum eins og kostur er.
  • Talið við þau um sorgina og að það sé eðlilegt að fólk bregðist við á mismunandi hátt.
  • Forðist að gera kröfu á að þau hegði sér eins og fullorðnir einstaklingar. Leyfið þeim að vera unglingar og að bregðast við á þann hátt sem hæfir þeirra þroskastigi.
  • Veltið gjarna upp hugmyndum varðandi útrás fyrir erfiðar tilfinningar t.d. íþróttir, tónlist, myndlist, að skrifa ljóð og sögur eða halda dagbók. En leyfið þeim sjálfum að finna sína leið.
  • Gefið þeim ráðrúm fyrir spurningar og svarið af hreinskilni. Sýnið þeim blíðu og huggun t.d. með faðmlögum, haldast í hendur og klappi á bakið og með því að sýna í verki að þú hafir áhuga á því sem þau eru að gera m.a. annars með því að hrósa þeim þegar það á við.
  • Talið við þau á rólegum nótum og reynið að vera róleg í fasi gagnvart þeim.
  • Ræðið við þau um dauðann og reynið að svara þeim spurningum sem þau hafa, eins og kostur er. Leyfið þeim sjálfum að koma með sínar skýringar og hugsanir um dauðann.
  • Leyfið þeim að taka þátt í undirbúningi athafna eins og jarðarfarar, kistulagningar og minningarstundar um hinn látna.

Hafið hugfast

Börn og unglingar í sorg þurfa langtímastuðning. Það er ekki óvanalegt að sorgin skjóti upp kollinum seinna, jafnvel löngu seinna. Þetta gerist gjarnan á tímamótum í lífinu t.d. við áramót og jól, á afmælisdegi hins látna eða einhverjar aðrar aðstæður þar sem hinn látni hefði verið sjálfsagður þátttakandi, svo sem í tengslum við útskriftir og aðrar fjölskyldutengdar athafnir.


Fullorðnir í nærumhverfi barna í sorg þurfa líka stuðning

17-Facebook-shutterstock_766847608-1

Ef þú hefur sérstakar áhyggjur af sterkum viðbrögðum eins og þunglyndi og sjálfskaðahegðun er ráð að leita til sérfræðiaðila t.d. á heilsugæslustöð.

Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins hefur sérhæft sig í þessum málum og veitir ráðgjöf og stuðning notendum að kostnaðarlausu alla virka daga frá kl. 9:00 - 16:00 í síma 800 4040.  Einnig er hægt að senda fyrirspurnir á netfangið  radgjof@krabb.is.

Ráðgjafarþjónustan miðlar fræðslu og styður fagfólk í nærumhverfi barnsins m.a. starfsfólki skóla og frístundaheimila, lækna, sálfræðinga, hjúkrunarfræðinga og félagsráðgjafa í nærumhverfi barnsins.



Efnið er að stórum hluta þýtt úr ensku með leyfi höfunda:

Sjá einnig:


Krabbameinsfélagið veitir skólum og heilsugæslu faglegan stuðning í síma 800 4040