• Skógarhlíð

Um Krabba­meins­félagið

Krabbameinsfélag Íslands var stofnað 27. júní 1951. Aðildarfélög eru um 30, bæði svæðafélög um land allt og stuðningshópar sjúklinga.

Krabbameinsfélag Íslands var stofnað 27. júní 1951. Aðildarfélög eru um 30, bæði svæðafélög um land allt og stuðningshópar sjúklinga. Aðalfundur, sem haldinn er árlega, kýs sjö manna stjórn sem kemur saman að jafnaði mánaðarlega til funda. Velta Krabbameinsfélags Íslands er rúmlega 800 milljónir króna á ári. Starfsmenn eru um 56 í um 43 stöðum. Helstu tekjustofnar eru gjöld fyrir veitta þjónustu, ríkisframlag og ekki síst stuðningur almennings.

Krabbameinsskráin tók til starfa 1954. Safnað er upplýsingum um alla sem greindir eru með krabbamein. Úrvinnsla gagna miðar að því að afla þekkingar á orsökum og eðli krabbameins og er grunnur að faraldsfræðirannsóknum. Hafin er skráning á stigun krabbameins, sem eykur notagildi efniviðarins fyrir klínískt starf og mun nýtast vel í rannsóknum.

Krabbameinsfélagið beitir sér fyrir margvíslegum réttindum og hagsmunum sjúklinga, m.a. með því að beina upplýsingum og athugasemdum til stjórnvalda, veita umsagnir um mál og taka þátt í opinberri umræðu um málefni þessa hóps. Unnið hefur verið að gerð íslenskrar krabbameinsáætlunar í velferðarráðuneytinu, en við hana eru bundnar miklar vonir.

Fræðsla og útgáfa eru stór þáttur í forvarnastarfi Krabbameinsfélagsins. Félagið hefur á síðustu árum lagt vaxandi áherslu á vefsíðu félagsins, og það verður gert áfram, en þar er mikill fróðleikur um krabbamein. Krabbameinsfélag Reykjavíkur hefur tekið að sér fræðslu um krabbamein í nafni heildarsamtakanna á grundvelli samnings þar að lútandi.

Krabbameinsfélag Íslands hefur lagt ómælda fjármuni til margvíslegra rannsókna á sviði krabbameins, m.a.með rekstri rannsóknastofu og söfnun og varðveislu lífsýna. Stofnaður hefur verið Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands og er stofnféð rúmar 250 miljónir króna. Vísindaráð Krabbameinsfélagsins leggur mat á umsóknir og verður úthlutað úr sjóðnum einu sinni á ári.

Stuðningur við sjúklinga og aðstandendur þeirra er eitt af forgangsverkefnum Krabbameinsfélagsins. Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins tók til starfa árið 2007 og er ætluð þeim sem greinast með krabbamein og aðstandendum og vinnur náið með stuðningshópum félagsins. Þar eru starfandi m.a. hjúkrunarfræðingar og félagsráðgjafi. Ýmis námskeið eru haldin fyrir sjúklinga og aðstandendur, og einnig fyrir starfsfólk heilbrigðisþjónustu sem sinnir þessum hópi sjúklinga. Krabbameinsfélagið á átta íbúðir, ásamt öðrum, þar sem krabbameinssjúklingar af landsbyggðinni geta dvalið með fjölskyldu sinni meðan á meðferð stendur.

Nokkur svæðafélög hafa ráðið starfsmenn og opnað þjónustuskrifstofur. Þessar skrifstofur eru á Akranesi, á Ísafirði, á Akureyri, á Reyðarfirði, á Egilsstöðum, í Vestmannaeyjum, á Selfossi og í Reykjanesbæ. Ráðgjafarþjónustan er faglegt bakland fyrir þjónustuskrifstofurnar.

Krabbameinsfélagið hefur síðan árið 2000 skipulagt árveknis- og fjáröflunarátak um brjóstakrabbamein í október undir merkjum „Bleiku slaufunnar“. Síðustu ár hefur marsmánuður verið helgaður átakinu „Karlmenn og krabbamein“. Mælingar á árangri þessara átaksverkefna sýna að þau ná athygli og hafa áhrif.

Skrifstofa félagsins sinnir stjórnun, þjónar áðurnefndum starfsdeildum og annast almenna afgreiðslu


Var efnið hjálplegt?