© Mats Wibe Lund

Suðurnes

Krabbameinsfélag Suðurnesja var stofnað 15. nóvember 1953 og eru félagsmenn um 950 talsins. Félagið heldur úti stuðninginshópnum Sunnan 5. Félagið veitir stuðning og fræðslu til krabbameinsgreindra og aðstandenda þeirra. Skrifstofan að Smiðjuvöllum 8 er opin á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 12-16. Formaður félagsins er Hannes Friðriksson og starfsmaður Sigríður Erlingsdóttir.

Starfsemi 2016-2017

Starfið hjá félaginu hefur verið með hefðbundnum hætti og gengið vel. Rekstrarformið er í föstum skorðum og hefur líðandi ár verið okkur hagfellt og skilað góðum árangri. Við teljum okkur hafa náð góðum árangri í að kynna félagið og starf þess. Fleiri þekkja félagið og vita fyrir hverju við stöndum. Félagsmönnum hefur fjölgað og fleiri taka þátt í starfi félagsins. 
Á undanförnum árum höfum við upplifað meiri áhuga á að styrkja og styðja við rekstur félagsins. Það er ánægjuleg þróun og segir til um að við erum ofarlega i huga margra.

Í október sl. fengum við í heimsókn til okkar einstakan velgjörðamann Sigurð Wium Árnason sem kominn var til að gefa félaginu tvær milljónir til minningar um konu sína Auði Bertu Sveinsdóttur og son þeirra Svein Wium sem bæði létust úr krabbameini. Við erum Sigurði einstaklega þakklát fyrir þessa rausnarlegu gjöf.

Á árinu hafa verið veittir styrkir til sjúklinga vegna mikils kostnaðar vegna veikinda þeirra. Nýlega færði Krabbameinsfélag Suðurnesja Heilbrigðisstofnun Suðurnesja að gjöf sérúrbúin aðgerðarstól til lyfjagjafa fyrir krabbameinssjúklinga. 
Á aðalfundi var ákveðið að hækka árgjaldið úr 2.500 kr. í 3.000 kr. Árgjaldið hafði ekki hækkað í átta ár. 

Alla daga sem opið er í þjónustumiðstöðinni mæta einhverjir til að hitta aðra og spjalla. Við höfum gert ýmislegt, unnið handavinnu, búið til skartgripi og pantað af netinu skartgripi til að selja og svo auðvitað sultur sem við seljum. Það hjálpast allir að og þetta er mjög skemmtilegt. 
Fljótlega eftir sumarfrí byrjaði undirbúningur fyrir bleikan október. Ákveðið var að Petrína Sigurðardóttir fengi næluna okkar í október og af því tilefni var haldin veisla henni til heiðurs. Fjölmenni var og mikil ánægja með þetta. Fyrstu helgina í október var mætt í Nettó og afraksturinn seldur. Þetta er mjög gaman. Við fengum svokallað „brjóstavesti“ lánað frá Krabbameinsfélaginu en það er vesti með brjóstum sem hægt er að finna hnúta í. 

Við höfum farið saman á ráðstefnur og fundi í Reykjavík um krabbameinsmál og á kaffihús eða út að borða, okkur til gamans. Reynt hefur verið að halda hópnum saman og gera eitthvað skemmtilegt. 

Í nóvember var svo fyrirlestur með Ásdísi grasalækni um mataræði og krabbamein. Hann var vel sóttur. Í vetur höfum við farið með veggspjald í fyrirtæki á Suðurnesjum. Á því voru leiðbeiningar á mörgum tungumálum sem höfðuðu til kvenna um hvert og hvernig þær ættu að komast í krabbameinsleit.

Þeim hefur fjölgað sem koma til okkar okkur og mikið hefur verið um fyrirspurnir frá sjúklingum. Starfið hefur gengið vel í vetur. 

Sigríður Ingibjörnsdóttir. 


Var efnið hjálplegt?