© Mats Wibe Lund

Suðurnes

Krabbameinsfélag Suðurnesja var stofnað 15. nóvember 1953 og eru félagsmenn um 950 talsins. Félagið heldur úti stuðninginshópnum Sunnan 5. Félagið veitir stuðning og fræðslu til krabbameinsgreindra og aðstandenda þeirra. Skrifstofan að Smiðjuvöllum 8 er opin á mánudögum og miðvikudögum kl. 12-16. Formaður félagsins er Hannes Friðriksson og starfsmaður Sigríður Erlingsdóttir.

Starfsemi 2018-2019

Starfið hefur gengið vel og er með hefðbundnum hætti. Rekstrarformið er í föstum skorðum á líðandi ári.

Í þjónustumiðstöðinni er opið tvisvar í viku og koma margir til að ræða sín mál við forstöðumann og við þá sem hafa reynslu af krabbameinum ásamt öðrum málum sem viðkemur því ferli. Haldnir eru fræðslufundir mánaðarlega þar sem fræðsla tengd krabbameinum er í fyrirrúmi. Starfsmaður sinnir skrifstofustörfum fyrir félagið og veitir skjólstæðingum allar þær upplýsingar sem þeir óska eftir, í samvinnu við Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélags Íslands. Starfsmaður annast einnig kynningu á starfi félagsins, skipuleggur námskeið og vinnur að öflun nýrra félagsmanna.

Undirbúningur fyrir Bleikan október hófst í maí og lögð var lokahönd á hann í ágúst og september. Í ár var ljósmyndasýningin Bleik og var hún staðsett í bókasafni/Ráðhúsi Reykjanesbæjar og var hún vel sótt. Petrína Sigurðardóttir tók þátt í sýningunni fyrir okkar svæði og var heiðruð með bleiku slaufunni. Í tilefni af Bleikum október þá héldum við bókakvöld þar sem Marta Eiríksdóttir kom og las úr bók sinni. Við enduðum mánuðinn með bleikri messu í Ytri-Njarðvíkurkirkju sem var mjög vel sótt eða yfir 160 manns komu og áttu góða stund.

Mottumars gekk ekki síður en við tókum einnig þátt í ljósmyndasýningunni Meiri menn og gekk hún vonum framar. Sveinn Björnsson tók þátt í henni fyrir okkar svæði og sagði sína reynslusögu. Við afhjúpuðum einnig vefgáttina Karlaklefinn.is. og komum henni á framfæri út mánuðinn. Matti Osvald hélt fræðslukvöld tengt karlmönnum og krabbameinum og var það vel sótt. Blá messa var haldin að þessu sinni í Útskálakirkju í Suðurnesjabæ.

Lokað var í júlí vegna sumarfrí starfsmanns og opnað aftur í ágúst.

Stjórn Krabbameinsfélags Suðurnesja finnur fyrir skilningi á því sem verið er að gera og mikla velvild í garð félagsins í samfélaginu sem m.a. lýsir sér í því að margir einstaklingar og félagasamtök ánafna til félagsins peningum sem fara í starfið og styrki til krabbameinsgreinda. Við tökum sérstaklega fram að einn velgjörðarmann, hann Sigurð Wium Árnason sem kom færandi hendi þann 30. október og færði félaginu tvær milljónir að gjöf til minningar um konu hans, Auði Bertu og son þeirra, Svein Wium en bæði létust úr krabbameini fyrir mörgum árum. Þetta er annað sinn sem Sigurður gefur félaginu svona stóra gjöf. Stofnaður var minningarsjóður tileinkaður Auði og Sveini og er sjóðurinn tileinkaður þeim sem eiga sárt um að binda og þurfa aðstoð í ferlinu að greinast með krabbamein.

Krabbameinsfélag Suðurnesja afhenti nýtt ómskoðunartæki til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja en tækið leysir af hólmi eldra tæki sem komið var á þrítugsaldurinn og kvensjúkdómalæknar á HSS hafa haft til afnota. Greiningartækið er notað til að greina meinsemdir í innri kynfærum kvenna og til að fylgjast með fósturmyndum og fósturþroska á meðgöngu. Krabbameinsfélag Suðurnesja hafði frumkvæðið að þessari gjöf með stuðningi frá Lions – og Lionessuklúbbi Suðurnesja, Oddfellowstúkunnar og Rótarýklúbb Keflavíkur undir formerkinu „margt smátt gerir eitt stórt“. Nýja ómskoðunartækið er að andvirði nærri fjögurra miljóna króna.

Ein af fjáröflunarleiðum Krabbameinsfélags Suðurnesja er sala á minningarkortum. Árgjaldið fyrir félagsmenn er 3.000 kr.

Svala Berglind Robertson hjúkrunarfræðingur með sérnám í krabbameins- og líknarhjúkrun og sálgæslu er með viðtöl við krabbameinsgreinda og aðstandendur hjá Krabbameinsfélagi Suðurnesja og er hægt að bóka tíma hjá félaginu í síma 421-6363.

Om-setrið býður þeim sem greinst hafa með krabbamein og eru að byggja sig upp í jógatíma tvisar í viku en þetta er samstarf á milli Krabbameinsfélags Suðurnesja og Om-setursins og er þetta skjólstæðingum að kostnaðarlausu.

Lögfræðistofa Suðurnesja býður upp á ókeypis lögfræðiþjónustu fyrir okkar skjólstæðinga.

Prestaköll á Suðurnesjum veita sálgæslu í tengslum við erfiðleika og áföll í lífi fólks.

Við hófum samstarf við heimahjúkrun HSS sem tók að sér að fara með fræðsluefni til krabbameinsgreindra í fyrstu heimsókn og láta vita af okkur.

Fleiri eru að sækja í styrki hjá okkur og aðstoð eftir greiningu. Reynt er eftir bestu getu að koma til móts við þarfir hvers og eins.

Fyrir hönd Krabbameinsfélags Suðurnesja,
Sigríður Erlingsdóttir forstöðumaður


Var efnið hjálplegt?