Að greinast aftur með krabbamein

Það að greinast aftur með krabbamein hefur verið skilgreint sem endurkoma krabbameins eftir að meðferð er lokið og ákveðinn tími hefur liðið þar sem einstaklingurinn var, samkvæmt eftirliti og rannsóknum, laus við sjúkdóminn. 

Sama gerð af krabbameini gæti greinst á sama stað og upphaflega eða á öðrum stað í líkamanum. Því miður er sá möguleiki einnig fyrir hendi að einstaklingur geti greinst aftur á lífsleiðinni með nýtt krabbamein á öðrum stað í líkamanum. Í því tilviki væri ekki um endurkomu vegna krabbameinsins sem greindist upphaflega að ræða.  Jafnvel þó að krabbameinið hafi dreifst á annan stað í líkamanum þarf það ekki alltaf að þýða að krabbameinið sé ólæknanlegt. Jafnvel þótt svo sé, er oft möguleiki á að halda sjúkdómnum niðri í mánuði eða jafnvel mörg ár. 

Sálræn viðbrögð

Það er flestum mikið reiðarslag að greinast aftur með krabbamein. Bæði fyrir einstaklinginn sjálfan og þá sem honum eru nákomnir.

Allar þær tilfinningar sem blossuðu upp þegar þú greindist fyrst geta gert vart við sig aftur, og jafnvel af meiri krafti í þetta skiptið.  Þú gætir fundið fyrir vonbrigðum eða reiði í garð líkama þíns, almættisins eða heilbrigðisstarfsfólks. Allt eru þetta fullkomlega eðlileg viðbrögð við áfalli sem þessu sem mikilvægt er að gera sér grein fyrir og vinna með.

Algengar tilfinningar sem fylgja áfallinu við að greinast aftur með krabbamein

 • Reiði
 • Sorg
 • Dofi
 • Vonleysi
 • Vonbrigði
 • Sjálfsásökun
 • Tilfinning um einsemd
 • Depurð
 • Kvíði

Nokkur ráð


 • Það er mikilvægt fyrir þig að geta átt samtal við lækninn þinn ef þú hefur efasemdir eða vangaveltur varðandi meðferðina eða annað í ferlinu frá því að þú greindist, sem þú þarft að fá útskýringar á.  
 • Það gæti reynst gagnlegt að tala við einhvern nákominn um tilfinningar þínar og líðan. Það að geta orðað líðan sína upphátt og opinskátt getur gert meira gagn en þú heldur.
 • Að ræða við einhvern sem hefur greinst aftur með krabbamein og skilur hvað þú ert að fara í gegnum, getur reynst mikilvægur stuðningur og dregið úr tilfinningu um einsemd í aðstæðum þínum.
 • Það gæti einnig reynst hjálplegt að tala við ráðgjafa ( hjúkrunarfræðing, félagsráðgjafa, sálfræðing, prest eða aðra).
 • Farðu í huganum yfir þau bjargráð sem hafa hjálpað þér á erfiðum tímum og reyndu meðvitað að nýta þér þau. 
 • Reyndu að einblína á það sem þú getur haft stjórn á, þrátt fyrir allt. https://www.krabb.is/radgjof-studningur/thad-sem-thu-getur-sjalfur-gert/
 • Minntu þig á að reynslan og þekkingin sem þú hefur, eftir þína fyrri reynslu af því að greinast með krabbamein, gæti komið þér að gagni núna tengt því sem koma skal og hvers má vænta.
 • Ef sálræn líðan þín er slæm til lengri tíma og hefur áhrif á þitt daglega líf er ráðlegt að þú leitir þér aðstoðar.

Hér er hægt að horfa á upptöku frá örráðstefnu sem haldin var 2011 á vegum Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins, og ber heitið „ Að greinast aftur og aftur – Að lifa með krabbameini“.


Mögulegar ástæður þess að krabbamein greinist aftur

Endurkoma krabbameins þýðir ekki að meðferðin sem þú fékkst þegar krabbameinið greindist í fysta skiptið hafi verið röng eða að þú hafir gert eitthvað rangt.

Það sem gæti hafa gerst er:

 • Að eftir skurðaðgerð gætu þyrpingar af krabbameinsfrumum hafa orðið eftir sem ekki var hægt að greina með rannsóknum við eftirlit eftir aðgerðina eða eftir að meðferð lauk. Með tímanum verða þær krabbameinsfrumur nógu stórar til að valda einkennum eða til að hægt sé að greina þær.
 • Að krabbameinið hafi ekki svarað meðferð að fullu. Krabbameinslyf eða geislameðferð gætu hafa drepið flestar krabbameinsfrumurnar en ekki náð að vinna á þeim öllum eða að frumurnar gætu hafa stökkbreytt sér meðan á meðferð stóð og þannig myndað þol gegn meðferðinni.
 • Að greinst hafi nýtt krabbamein á öðrum stað í líkamanum óháð krabbameininu sem greindist upphaflega. Í þessu tilviki væri því ekki um endurkomu vegna krabbameinsins sem greindist upphaflega að ræða.

Hvernig lýsir endurkoma krabbameins sér?

 • Greinist á sama stað og krabbameinið greindist upphaflega.
 • Greinist í eitlum eða aðlægum vef nálægt upphaflega staðnum.
 • Greinist í fjarlægum vef í öðrum líkamshluta en krabbameinið greindist upphaflega.

Meðferð við endurkomu krabbameins

Læknirinn þinn mun ræða við þig um mismunandi möguleika til meðferðar og fara yfir hversu góðan árangur hver og einn þeirra er líklegur til að gefa þér.

Vertu viss um að þú skiljir vel markmiðið með þeirri meðferð sem þú þyggur. Er markmið meðferðar að  halda niðri krabbameininu, lækna krabbameinið eða að draga úr verkjum og óþægindum ( einkennum) vegna krabbameinsins?

Ákvörðun um val á meðferð er tekin með hliðsjón af tegund krabbameins, þeim tíma sem leið þar til krabbamein greindist aftur, hvar það greindist, almennri heilsu og ástandi þínu og þínum persónulegu óskum og lífsgildum. 

Hvar get ég fengið aðstoð og ráðgjöf?

Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins býður upp á viðtöl við ráðgjafa sem veita ráðgjöf og sálrænan stuðning til þeirra sem hafa greinst með krabbamein og aðstandenda þeirra. Einnig er boðið upp á fjölbreytt námskeið, fræðslu og opna tíma í slökun. 

Hafir þú greinst aftur með krabbamein er mikilvægt að leita allra leiða til að styrkja þig í þessum aðstæðum. Við hjá Ráðgjafarþjónustunni viljum aðstoða þig við að finna þær leiðir og erum ávalt tilbúin að hlusta á það sem liggur þér á hjarta. Til að panta tíma er hægt að hringja í síma 800 4040 eða senda tölvupóst á radgjof@krabb.is. Einnig er hægt að koma við hjá okkur án þess að gera boð á undan sér. 

Hér er hægt að finna nánari upplýsingar um Ráðgjafarþjónustuna https://www.krabb.is/radgjof-studningur/hvad-er-i-bodi/um-radgjafarthjonustuna/

Tekið saman af Lóu Björk Ólafsdóttur, hjúkrunarfræðing. Þýtt og staðfært af vefsíðunni www.cancer.net


Var efnið hjálplegt?