© Mats Wibe Lund

Eldri starfsemi

Starfsemi 2016

Aðalfundurinn var haldinn í Rauðakrosshúsinu í Búðardal. Á aðalfundinn ætlaði að koma Þórður Ingólfsson læknir og flytja erindi um krabbamein og fyrirbyggjandi aðgerðir. Því miður þurfti hann að fara í útkall á sama tíma svo fyrirlesturinn féll niður. Við höldum aðalfundina til skiptis í Reykhólahreppi og Dalabyggð. Við kynnum þar ýmsa fræðslubæklinga og myndbönd sem Krabbameinsfélagið gefur út. Einn stjórnarfundur var haldinn á árinu og nokkrir símafundir. Þrúður Kristjánsdóttir mætti á aðalfund Krabbameinsfélags Íslands sem haldinn var 14. maí 2016.

Við dreifðum auglýsingu inn á hvert heimili á svæðinu þar sem við kynntum íbúðir fyrir krabbameins-sjúklinga og aðstandendur sem Krabbameinsfélag Íslands á í Reykjavík og jafnframt að við greiðum dvalarkostnað þeirra sem þar dvelja af okkar félagssvæði þegar þeir þurfa á að halda vegna krabbameinsmeðferðar eða rannsókna í Reykjavík. Greidd var húsaleiga í viku fyrir einn aðila á árinu. Einnig greiðum við fyrir fólk sem þarf að vera á sjúkrahóteli Landspítala. 

Við lofuðum 50.000 kr. styrk til hvors grunnskóla á svæðinu til að standa fyrir námskeiði um forvarnir gegn reykingum eða annarri tóbaksnotkun. Af því hefur þó ekki orðið ennþá. Reykhólakirkja var lýst upp með bleiku ljósi í október í fjórða skipti. Þá var einnig Mjólkurstöðin í Búðardal lýst upp með bleikum ljósum og er það í sjötta skipti sem það er gert.

Til fjáröflunar seljum við jólakort, minningarkort, bleiku slaufuna og ýmsan varning við ýmis tækifæri. Minningarkortin eru jafnframt til sölu í Arion banka í Búðardal og einnig hjá stjórnarmeðlimum. Við seljum vörurnar í Handverkshúsinu Bolla í Búðardal, og í Markaðnum í Króksfjarðarnesi sem Handverksfélagið Assa rekur á sumrin. Á árlegum jólamarkaði í Króksfjarðarnesi í nóvember voru jólakort frá okkur, vörur, og ýmsir jólamunir einnig til sölu. Þá hefur verslunin Hólakaup á Reykhólum selt ýmsa muni fyrir okkur á árinu. Enginn starfsmaður er á launum hjá félaginu. Félagsgjald er 2.000 kr. Eitt kvenfélag er styrktaraðili.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir 

Starfsemi 2015

Aðalfundurinn árið 2015 var haldinn 13. ágúst í Króksfjarðarnesi. Á fundinn mætti Sigrún Lillie Magnúsdóttir frá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélags Íslands og sagði frá starfinu, sem er alltaf að aukast. Hún sagði frá mörgum nýjungum og frá ýmsum rannsóknum á krabbameini. Var henni þakkað fyrir frábært erindi. Við höldum aðalfundina til skiptis í Reykhólahreppi, Saurbæ og Búðardal. Við kynnum þar ýmis fræðslurit sem Krabbameinsfélagið gefur út.

Einn stjórnarfundur var haldinn á árinu og nokkrir símafundir, en stjórnin heldur aðallega símafundi vegna fjarlægðar á milli stjórnarmanna. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir mætti á aðalfund Krabbameinsfélags Íslands sem haldinn var í maí 2015 og sat einnig formannafund Krabbameinsfélagsins sem haldinn var í Hannesarholti í Reykjavík í október 2015.

Við höfum nokkrum sinnum sent auglýsingu inn á hvert heimili á svæðinu þar sem við kynnum íbúðir fyrir krabbameinssjúklinga og aðstandendur sem Krabbameinsfélagið á í Reykjavík og jafnframt að við greiðum dvalarkostnað þeirra sem þar dvelja af okkar félagssvæði þegar þeir þurfa á að halda vegna krabbameins¬með¬ferðar í Reykjavík. Einnig greiðum við fyrir fólk sem þarf að vera á sjúkrahóteli Landspítalans. Við lögðum 100.000 kr. í stofnframlag í Vísindasjóð Krabbameinsfélags Íslands.

Reykhólakirkja var lýst upp með bleiku ljósi í október og var það í þriðja skipti sem það er gert. Þá var einnig Mjólkurstöðin í Búðardal lýst upp með bleikum ljósum og er það í sjötta skipti sem það er gert. Einu sinni hefur Saurbæjarkirkja verið lýst upp.

Að öðru leyti er starfið aðallega fólgið í sölu á ýmsum varningi. Á árinu seldum við eins og venjulega jólakort félagsins, minningarkort, bleiku slaufuna og skeggnæluna við ýmis tækifæri. Minningarkortin eru jafnframt til sölu í Arion banka í Búðardal og einnig hjá stjórnarmönnum. Síðasta sumar voru spil, málbönd og vara¬salvi einnig selt í Handverkshúsinu Bolla í Búðardal og í Markaðnum í Króksfjarðarnesi sem Handverks¬félagið Assa rekur. Á jólamarkaðnum í Króksfjarðarnesi voru jólakort frá okkur og ýmsir jólamunir einnig til sölu. Þá hefur verslunin Hólakaup á Reykhólum selt ýmsa muni fyrir okkur á árinu. Enginn starfsmaður er launaður hjá félaginu.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.

Starfsemi 2014

Aðalfundurinn árið 2014 var haldinn 12. maí í Tjarnarlundi í Saurbæ. Við höldum aðalfundina til skiptis í byggðarlögunum þremur. Þar dreifðum við ýmsum fræðslubæklingum Krabbameinsfélagsins og kynntum þá. Einn stjórnarfundur var haldinn á árinu og nokkrir símafundir, en stjórnin heldur aðallega símafundi vegna fjarlægðar á milli stjórnarmanna. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir mætti á aðalfund Krabbameinsfélags Íslands sem haldinn var 10. maí 2014. Enginn mætti á formannafund Krabbameinsfélagsins haustið 2014. Enginn starfsmaður er launaður hjá félaginu og vinna stjórnarmenn það sem gera þarf í sjálfboðavinnu.

Við höfum árlega sent auglýsingu inn á hvert heimili á svæðinu þar sem við kynnum íbúðir fyrir krabbameinssjúklinga og aðstandendur sem Krabbameinsfélagið á í Reykjavík og jafnframt að við greiðum dvalarkostnað þeirra sem þar dvelja af okkar félagssvæði þegar þeir þurfa á að halda vegna krabbameinsmeðferðar í Reykjavík. Einnig greiðum við fyrir fólk sem þarf að vera á sjúkrahóteli Landsspítala. Við höfum lofað styrk til Heilsugæslunnar í Búðardal vegna kaupa á ýmsum tækjum til krabbameinsskoðunar sem keypt voru á árinu, en upphæð liggur ekki fyrir. 

Á árinu seldum við jólakort félagsins, minningarkort, bleiku slaufuna og skeggnæluna við ýmis tækifæri. Bleika slaufan selst alltaf vel en það sama er ekki hægt að segja um skeggnæluna. Minningarkortin eru jafnframt til sölu í Arion banka í Búðardal og einnig hjá stjórnarmeðlimum. Síðasta sumar voru spil, málbönd og varasalvi einnig selt í Handverkshúsinu Bolla í Búðardal og í Markaðnum í Króksfjarðarnesi sem Handverksfélagið Assa rekur á sumrin. Þá var einnig gengið í hús í Reykhólasveit og seld nokkur málbönd. Á jólamarkaðnum í Króksfjarðarnesi í nóvember voru jólakort frá okkur, vörur, og ýmsir jólamunir einnig til sölu, og stóð formaður vaktina við söluna í tvo daga.

Reykhólakirkja var lýst upp með bleiku ljósi í október og var það í annað sinn sem það er gert. Þá var einnig Mjólkurstöðin í Búðardal lýst upp með bleikum ljósum og er það í fimmta skipti sem það er gert. Starfsfólk Mjólkurstöðvarinnar tekur það að sér.  

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir 


Var efnið hjálplegt?