Krabbamein í ristli og endaþarmi

Taktu prófið

Kannaðu þekkingu þína á ýmsum þáttum varðandi krabbamein í ristli og endaþarmi. 


 


1Nær eingöngu karlar fá ristil- og endaþarmskrabbamein.

Rétta svarið er: "Rangt"

Bæði konur og karlar geta fengið krabbamein í ristil og endaþarm.


 


2Krabbamein í ristli og endaþarmi eru frekar sjaldgæf krabbamein.

Rétta svarið er: "Rangt"

Á Íslandi er þetta annað algengasta krabbamein karla og þriðja algengasta krabbamein kvenna. Ein af hverjum 20 manneskjum á Íslandi fær krabbamein í ristil eða endaþarm á lífsleiðinni.


 


3Ristillinn er sá hluti meltingarvegar sem færir matinn frá munni niður í maga.

Rétta svarið er: "Rangt"

Ristill og endaþarmur eru síðustu hlutar meltingarvegarins. Í ristlinum fer fram frásog á vatni og steinefnum og þar mótast hægðirnar. Þær safnast svo í endaþarm. Ristillinn er um 1-1,5 metri að lengd og endaþarmurinn um 15 sentimetrar.


 


4Ristil- og endaþarmskrabbamein er önnur algengasta dánarorsök af völdum krabbameina á Íslandi.

Rétta svarið er: "Rétt"

Á hverju ári deyja að meðaltali tæplega 70 einstaklingar á Íslandi vegna krabbameins í ristli eða endaþarmi. Einungis lungnakrabbamein dregur fleiri til dauða. 


 


5Ristil- og endaþarmskrabbamein er eitt þriggja krabbameina sem alþjóðlegar stofnanir mæla með að skimað sé fyrir.

Rétta svarið er: "Rétt"

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) og fleiri aðilar mæla með því að skimað sé fyrir þremur krabbameinum: ristil- og endaþarmskrabbameini, leghálskrabbameini og brjóstakrabbameini.


 


6Langur tími líður frá því að forstig krabbameins í ristli og endaþarmi myndast og þar til það þróast yfir í krabbamein.

Rétta svarið er: "Rétt"

Í flestum tilvikum myndast krabbamein í ristli og endaþarmi í svokölluðum sepum sem geta myndast hvar sem er í slímhúð ristils og endaþarms. Frá því slíkur sepi myndast og þar til hann þróast yfir í krabbamein geta liðið 10-15 ár.


 


7Sýnt hefur verið fram verulegan árangur af skipulagðri skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi.

Rétta svarið er: "Rétt"

Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á gagnsemi skimunar fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi. Bæði fækkar nýjum tilfellum auk þess sem dregur úr dauðsföllum þar sem mein greinast fyrr. 

Því fyrr sem mein greinist aukast einnig líkur á minna íþyngjandi meðferð. 


8Áhætta á krabbameini í ristli og endaþarmi minnkar með hækkandi aldri.

Rétta svarið er: "Rangt"

Eins og með flest krabbamein þá aukast líkurnar með hækkandi aldri. Mælt er með að fólk á aldrinum 50-75 ára ræði við sinn heimilislækni eða meltingarlækni um leit að krabbameini í ristli og endaþarmi.


9Regluleg hreyfing dregur úr líkum á krabbameinum í ristli og endaþarmi.

Rétta svarið er: "Rétt"

Auk reglulegrar hreyfingar má einnig draga úr líkunum með því að:

 • borða mikið af ávöxtum, grænmeti og trefjaríkum mat
 • forðast að vera í mikilli ofþyngd
 • takmarka neyslu á rauðu kjöti
 • sleppa eða takmarka neyslu á unnum kjötvörum
 • sleppa eða takmarka áfengisneyslu
 • reykja ekki

10Blóð í hægðum getur verið vísbending um krabbamein í ristli og endaþarmi.

Rétta svarið er: "Rétt"

Auk blóðs í eða á hægðum geta eftirfarandi einkenni vakið grun um krabbamein í ristli eða endaþarmi, þó þau geti einnig stafað af öðru:

 • langvarandi kviðverkir og magakrampar
 • viðvarandi breytingar á hægðum (til dæmis niðurgangur sem varir lengur en tvær vikur)
 • blóðleysi af óþekktri orsök
 • óútskýrt þyngdartap
 • óvenjuleg þreyta eða þrekleysi

Þeir sem finna til einhverra þessara einkenna ættu að leita til læknis.


11Hérlendis er ekki boðið upp á skipulagða skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi.

Rétta svarið er: "Rétt"

Skipulögð skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi hefur verið á dagskrá stjórnvalda frá aldamótum en  ekki verið hrint í framkvæmd. Alþjóðastofnanir mæla með skimuninni og Íslendingar eru eftirbátar allra Norðurlandanna og margra Evrópulanda. 


12Frændi minn fór í ristilskimun um daginn – gera það ekki allir þegar þeir verða fimmtugir?

Rétta svarið er: "Rangt"

Margir, þó ekki allir, eru meðvitaðir um að það skiptir máli að láta leita að vísbendingum um krabbamein í ristli og endaþarmi og óska sjálfir eftir ristilspeglun uppúr fimmtugu. Fyrir samfélagið í heild sinni er þó gagnlegast að skimunin sé skipulögð og öllum í ákveðnum aldurshópi boðið til skimunar. 


13Áætlanir eru um að hefja skipulagða skimun hérlendis fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi.

Rétta svarið er: "Rétt"

Um langt árabil hefur staðið til að hefja slíka skimun. Krabbameinsfélagið vann að undirbúningi á árunum 2016 og 2017 og var tilbúið að hefja framkvæmd í upphafi árs 2018 en stjórnvöld frestuðu því. Sumarið 2021 var Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins svo falið að undirbúa verkefnið og er enn unnið að því. Vonandi hefst skimunin sem allra fyrst. Landlæknir mælir með skimun og alþjóðastofnanir líka.


14Áætlun um skipulagða skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi hérlendis miðast við að fólki á aldursbilinu 60-70 ára verði boðin þátttaka í skimunina.

Rétta svarið er: "Rangt"

Í samræmi við ráðleggingar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) leggur fagráð um skimanir til að einstaklingum á aldrinum 50-74 ára verði boðin þátttaka í skipulagðri skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi.


15Lífshorfur þeirra sem greinast með krabbamein í ristli eða endaþarmi hafa farið batnandi.

Rétta svarið er: "Rétt"

Almennt hafa lífshorfur farið batnandi. Í dag lifa 70% þeirra sem greinast með krabbamein í ristli eða endaþarmi í 5 ár eða lengur. Því fyrr sem meinið greinist því betra.


16Krabbamein í ristli og endaþarmi geta verið ættgeng.

Rétta svarið er: "Rétt"

Um 10-15% krabbameinstilfella í ristli og endaþarmi eru talin ættgeng. Ef nákominn ættingi (foreldrar, systkini eða börn) hefur greinst með krabbameinið er rétt að leita til læknis og spyrjast fyrir um hugsanlega erfðaráðgjöf og skimun fyrir krabbameininu.Var efnið hjálplegt?