Birna Þórisdóttir 26. mar. 2020

Covid-19: Næring og matvæli

Birna Þórisdóttir sérfræðingur í fræðslu og forvörnum hjá Krabbameinsfélaginu fjallar um næringu og matvæli í ljósi aðstæðna af völdum Covid-19.

Getur ákveðinn matur eða fæðubótarefni styrkt ónæmiskerfið?

Það er enginn matur eða fæðubótarefni sem getur komið í veg fyrir að fólk smitist af Covid-19.

Mörg vítamín og steinefni taka þátt í starfsemi ónæmiskerfisins, t.d. járn, selen, sínk, A-vítamín, C-vítamín, D-vítamín og mörg B-vítamín. Ef ráðleggingum um mataræði er fylgt og tekið er D-vítamín (15-20 μg á dag, sem samsvarar 600-800 IU) ættu flestir að fá nóg af öllum vítamínum og steinefnum og stuðla að því að ónæmiskerfið starfi eins og best verður á kosið. Stundum er þörf á fleiri fæðubótarefnum sem sérstaklega hefur verið mælt með, og þá ber að fylgja þeim ráðum.

Í ráðleggingunum um mataræði er lögð áhersla á mat úr jurtaríkinu sem er trefjaríkur frá náttúrunnar hendi, svo sem grænmeti, ávexti, ber, hnetur, fræ, heilkornavörur, baunir og linsur, og einnig feitan og magran fisk. Í ráðleggingunum er svigrúm fyrir hóflega neyslu á mjólkurvörum og kjöti. Vatn er besti svaladrykkurinn.

Eldra eða veikt fólk er ráðlagt að fylgja ofangreindum ráðleggingum um mataræði en þó með aðeins öðrum áherslum. Orkuþörfin minnkar oft með aldrinum en þörfin fyrir vítamín og steinefni minnkar hins vegar ekki og þörfin fyrir prótein eykst. Þetta gerir það að verkum að sérstaklega er mikilvægt að vanda mataræðið. 

Sjá nánar í: 

Hvað get ég gert ef ég glími við vannæringu, lystarleysi eða þyngdartap?

Vannæring getur skert getu líkamans til að takast á við sýkingar. Lystarleysi, þyngdartap og vannæring geta verið afleiðingar krabbameins, krabbameinsmeðferðar eða aukaverkana/fylgikvilla.

Vannæring er ástand sem tekur tíma að lagfæra og þarfnast aðkomu fagfólks. Mikilvægt er að grípa strax inn í ef grunur er um vannæringu eða að í hana stefni. Ef lystarleysi er viðvarandi og þyngdartap mikið þarf að gera einstaklingsbundnar ráðstafanir til að uppfylla næringarþörf og koma í veg fyrir vannæringu. Í bæklingnum Einkenni vannæringar hjá eldra fólki og hvað er til ráða eru mörg góð ráð sem eiga við að mestu óháð aldri.

Hægt er að gera marga einfalda en mikilvæga hluti til að bæta næringarástand með því að:

  • Borða oft en lítið í einu.
  • Borða heita máltíð tvisvar á dag.
  • Borða stærstu máltíðina þegar matarlystin er sem mest, hvenær dags sem það er. Leggja áherslu á próteinríka fæðu, t.d. fisk, kjöt, kjúkling, baunir, mjólk, ost og egg, í þessari máltíð.
  • Oft er matarlystin mest í upphafi máltíðar og því gott að byrja á próteinríku fæðunni.
  • Eiga tilbúnar litlar máltíðir til að nota sem millimál. Nota feitar mjólkurvörur, olíur, smjör, feita osta, hnetusmjör, kæfu, majones salöt og pestó á brauð. Próteinríkar vörur eins og skyr, próteindrykkir, egg eða eggjakökur henta vel á milli mála. Næringardrykkir sem eru orku- og næringarþéttir er hægt að fá og ef ákveðnum skilyrðum er fullnægt greiða Sjúkratryggingar Íslands hlut í þeim drykkjum samkvæmt beiðni frá lækni.
  • Drekka nóg af vökva yfir daginn, líka þegar matarlystin er lítil. Velja eins og hægt er drykki sem innihalda orku og næringu, t.d. safa, boost, mjólkurdrykki og próteindrykki.
  • Borða snarl fyrir svefninn.
  • Eiga til fjölbreyttan mat á heimilinu, bæði hollan mat og líka uppáhalds mat og orkuríkan mat og drykki.
  • Undirbúa mat þannig að auðvelt sé að njóta hans, t.d. þvo og skera niður ávexti á morgnanna. Versla mat í umbúðum sem auðvelt er að neyta, t.d. þægilegt að opna.
  • Áferð fæðunnar þarf að vera þannig að það sé auðvelt að tyggja og kyngja.
  • Hreyfing og ferskt loft getur aukið matarlyst, sömuleiðis það að borða með öðrum. Það er hægt að nýta tæknina og borða með vini eða ættingja sem er á öðrum stað í gegnum spjaldtölvu, síma eða tölvu.
  • Hafa matinn áhugaverðan með því að prófa nýjar uppskriftir eða krydd. Nota fallegan borðbúnað, jafnvel setja dúk á borðið og draga fram sparistellið.
  • Hægt er að panta matvörur frá matvöruverslunum og veitingastöðum og fá heimsent.
  • Þessa dagana getur tekið nokkra daga að fá matvörur heimsendar og því mikilvægt að sýna fyrirhyggju þegar matur er pantaður á netinu og gera það ekki á síðustu stundu.

Í bæklingnum Einkenni vannæringar hjá eldra fólki og hvað er til ráða eru fleiri góð ráð og mjög góð tafla með einföldum leiðum til að auka prótein og orku í máltíðum. Þessi ráð eiga við óháð aldri.

Einnig er vert að skoða: 

Er hætta á því að matvæli geti borið smit?

Ekkert bendir til þess að kórónaveiran berist með matvælum skv. áliti Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA). COVID-19 er ekki matarborinn sjúkdómur. Þeir sem eru í einangrun ættu þó ekki að útbúa mat fyrir aðra. 

Getur veiran borist með ferskum ávöxtum og grænmeti?

Veiran þrífst ekki í ávöxtum og grænmeti, né öðrum matvælum. Hins vegar gæti hún setið á yfirborði eftir úðasmit (hnerra eða hósta frá sýktum einstaklingi) en ekki er vitað hversu lengi. Mjög ólíklegt er þó að hún nái að berast milli landa með ávöxtum og grænmeti. Matvælastofnun hvetur neytendur, nú sem áður, til að skola vel ávexti og grænmeti fyrir neyslu. Einnig er mikilvægt að þvo sér vandlega um hendurnar áður en maður meðhöndlar matvæli svo sem ávexti og grænmeti. 

Getur veiran borist með umbúðum matvæla?

Það er mjög ólíklegt að menn smitist af kórónaveirunni við snertingu matvælaumbúða. Handþvottur eftir verslunarferð er góð venja. Fylgið leiðbeiningum landlæknis um handþvott og smitvarnir

Getur veiran borist með innkaupavögnum og körfum í verslunum?

Það er ólíklegt að innkaupavagnar og körfur beri smit. Ef sýktur einstaklingur hóstar eða hnerrar á vagninn eða körfuna eða hreinsar ekki hendur eftir að hafa hóstað og hnerrað í þær gæti smit borist frá yfirborði á hendur annars viðskiptavinar. Ef leiðbeiningum landlæknis um handhreinsun fyrir og eftir verslunarferð er fylgt er hætta á að smitast vegna mengunar slíkra yfirborða lítil. 


Fleiri nýir pistlar

15. des. 2023 : Jólamolar Krabba­meins­félagsins 2023

Njótum hátíðanna, hlúum að okkur og höfum það notalegt. Hér finnur þú slökun og hugleiðslu, gagnleg og góð ráð um hvernig hægt er að njóta jólakræsinganna á skynsaman máta og hvatningu til að búa til jólahreyfihefðir með fjölskyldu og vinum.

Lesa meira

14. des. 2023 : Bleikasta slaufan sló í gegn

Lovísa Halldórsdóttir Olesen og Unnur Eir Björnsdóttir, hönnuðir Bleiku slaufunni 2023, afhentu Krabbameinsfélaginu 13.475.000 krónur sem söfnuðust með sölu á Sparislaufunni.

Lesa meira

5. júl. 2023 : Fylgstu með brjóstunum og þekktu einkennin

Því fyrr sem brjóstakrabbamein finnst, því líkegri er góður árangur af meðferð. Fylgstu vel með brjóstum og handarkrikum. Skoðaðu og þreifaðu reglulega.

Lesa meira

5. júl. 2023 : Ekki láta blekkjast á ,,sólarlausum” og köldum sumardögum

Ímyndaðu þér sumardag á Íslandi. Veðrið getur verið ýmiskonar ekki satt? Ef úti er bongóblíða, heiðskír himinn og glampandi sól leiðirðu hugann kannski nokkuð sjálfkrafa að sólarvörnum; berð á þig sólkrem og notar flíkur og höfuðfat til að verja þig. (Ef þetta er ekki lýsandi fyrir þig á sólardögum hvetjum við þig til að kynna þér mikilvægi sólarvarna!).

Lesa meira

3. júl. 2023 : Góð ráð við grillið

Fátt er skemmtilegra en að grilla með fjölskyldu eða góðum vinum í góðu veðri. Ef rétt er að málum staðið getur grillmatur verið mjög hollur en til að tryggja að svo sé þarf að vanda til undirbúnings, meðhöndlunar hráefnis og framreiðslu.

Lesa meira