Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 26. sep. 2020

Við erum tilbúin að mæta nýjum áskorunum með nýjum leiðum

  • Halla Þorvaldsdóttir er framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

„Nýjar áskoranir – nýjar leiðir” var yfirskrift blaðs Krabbameinsfélagins sem kom út um síðustu áramót. 

Þessi orð endurspegla vel veruleika þeirra sem takast á við krabbamein og standa frammi fyrir nýjum áskorunum. Félagið hefur þau í hávegum í fjölbreyttu starfi sínu. Orðin eiga sannarlega líka við stöðuna í heiminum eftir að öllu var skyndilega kollvarpað og Covid-19 tímar tóku við. 

Óteljandi rannsóknir á fjölmörgum hliðum Covid-19 faraldursins og áhrifum hans eru þegar farnar í gang í heiminum. Þar með talið á tengslum Covid-19 og krabbameina. Áhrifin eru fjölbreytileg, bæði jákvæð og neikvæð, til skemmri og lengri tíma.

Krafa okkar hjá Krabbameinsfélaginu er að það sama gildi um krabbamein, forvarnir, greiningu og meðferð á Íslandi. Að hér á landi bjóðist þjónusta eins og best gerist í heiminum. Einn af hverjum þremur Íslendingum fær krabbamein á lífsleiðinni. Það er staðreynd. Krabbamein kollvarpa lífi einstaklinga og fjölskyldna þeirra. Alla daga. Allt árið um kring. Krabbamein eru ekki tímabundinn faraldur heldur hluti af daglegu lífi okkar. Við getum náð enn betri árangri og eigum ekki að gefa neinn afslátt í því samhengi. Til þess þarf að láta verkin tala. 

Betur má ef duga skal 

Íslensku krabbameinsáætlunina sem samþykkt var á síðasta ári þarf að virkja sem allra fyrst. Setja þarf skýr markmið og hvika hvergi frá kröfum um að þeim verði náð, meðal annars með því að tryggja nauðsynlegt fjármagn. Þrátt fyrir fyrirheit stjórnvalda og mikinn undirbúning í samvinnu við Krabbameinsfélagið liggur ekki fyrir hvenær heilbrigðisyfirvöld ætli að hefja skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi. Aðbúnaður sjúklinga í meðferð á dag- og göngudeild er bágborinn. Þetta er óviðunandi. 

Leyfum árangri okkar í Covid-19 faraldrinum að blása okkur metnaði í brjóst og setjum okkur alvörumarkmið. 

Krabbameinsfélagið fylgist með áhrifum faraldursins á krabbamein meðal annars í samstarfi við norrænu systurfélögin og evrópsku krabbameinsfélögin.  

Hér á landi, eins og annars staðar, veldur tímabundið hlé á ákveðnum þáttum í heilbrigðisþjónustunni nokkrum áhyggjum enda getur það haft þau áhrif að krabbamein greinast seinna en ella. Almennt gildir að því fyrr sem krabbamein og/eða forstig þeirra greinast því meiri eru batahorfur. Mikilvægt er að fylgjast með þjónustu og nýtingu hennar, bera hana saman við fyrri ár og reyna að vinna upp áhrif af lokun þjónustu líkt og gert er á Leitarstöð Krabbameinsf.élagsins með lengri afgreiðslutíma. Líkt og annars staðar hefur greining og meðferð illkynja sjúkdóma forgang í heilbrigðiskerfinu þrátt fyrir Covid-19. 

Krabbameinsfélagið þreytist ekki á að minna fólk á mikilvægi þess að þekkja einkenni krabbameina og að fólk leiti til heilsugæslunnar eftir aðstoð eða eftir þeim leiðum sem færar eru á hverjum tíma. Sömuleiðis að þeir sem eru veikir veigri sér ekki við að sækja sér nauðsynlega þjónustu. 

Í Covid-19 hafa orðið hraðar framfarir í nýtingu rafrænna heilbrigðislausna, til dæmis í samskiptum. Mikilvægt er að fylgjast með þeim árangri og nýta áfram það sem vel reynist. Krabbameinsf.élagið hefur sem dæmi stóraukið þjónustu við sjúklinga og aðstandendur með aukinni símaþjónustu og rafrænum samskiptalausnum og enn meira er í farvatninu. 

Auknar sóttvarnir eru ekki bara vörn gegn veirunni skæðu heldur varna einnig öðrum sýkingum. Það er sannarlega til bóta fyrir fólk með krabbamein sem oft er mjög viðkvæmt og býr í raun einatt langtímum saman við þær aðstæður sem Covid-19 hefur nú skapað öllu samfélaginu. 

Faraldurinn hefur haft þau óhjákvæmilegu áhrif að margir halda sig meira til hlés en áður. Af því leiðir að fólk sækir sér minni þjónustu, meðal annars heilbrigðisþjónustu. Það á minna samneyti við aðra, bæði sína nánustu og í gegnum félagsstarf eins og stuðningshópa, sjúklingasamtök o.s.frv. 

Covid-19 reynir sannarlega á þrautseigju og seiglu fólks. Ráðgjafar Krabbameinsf.élagsins finna fyrir frekari vanlíðan og streitu þeirra sem leita eftir ráðgjöf og stuðningi. Veikindaferli tekur alltaf á, bæði sjúklinga og aðstandendur. Ekki síst þegar hömlur eru settar á að aðstandendur geti fylgt sjúklingum í meðferð og heimsóknir eru takmarkaðar. Allt er þetta eðlilegt en getur tekið á. Þá eru ónefndir þeir sem misst hafa sína nánustu í faraldrinum og urðu að hlíta miklum hömlum um samveru á dýrmætum stundum. Við hjá Krabbameinsfélaginu erum til staðar og reiðubúin að vera til aðstoðar við að draga úr streitu, kvíða eða annarri vanlíðan. Við hvetjum fólk eindregið til að nýta sér þjónustu félagsins með því að koma, hringja eða vera í sambandi í gegnum netið. 

Nýir tímar - nýjar áskoranir 

Um næstu áramót verða miklar breytingar hjá Krabbameinsfélaginu þegar skimun fyrir krabbameinum færist til opinberra stofnana, Landspítala og heilsugæslunnar. Okkur er mikið í mun að tryggja að sá góði árangur sem starf Krabbameinsfélagsins við skimanir fyrir krabbameinum hér á landi hefur skilað haldist. Héðan í frá sem hingað til er félagið málsvari þeirra sem greinast með krabbamein. Við munum fylgja því eftir að sú þjónusta sem nauðsynleg er til að ná góðum árangri í baráttunni gegn krabbameinum sé í samræmi við það sem best gerist. 

Þegar skimanir fyrir krabbameinum færast til opinberra stofnana verður mögulegt að efla aðra starfsemi félagsins enn frekar. Aukin áhersla verður á aðrar forvarnir, úttektir og rannsóknir, stuðning við sjúklinga og aðstandendur auk málsvarahlutverksins. 

Ótal verkefni blasa við ef markmiðið að Ísland sé í fremstu röð varðandi krabbamein á að nást. Það mun ekki gerast án mikillar aðkomu Krabbameinsf.élagsins og hinna fjölmörgu stuðningsaðila þess. 

Við erum tilbúin að mæta nýjum áskorunum með nýjum leiðum.

Greinin birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins veturinn 2020-2021.


Fleiri nýjar fréttir

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

25. maí 2023 : Bjóðum Brakkasamtökin velkomin í hópinn

Á aðalfundi Krabbameinsfélagsins var staðfest ákvörðun stjórnar um aðild Brakkasamtakanna að Krabbameinsfélagi Íslands. Krabbameinsfélagið fagnar ákvörðun aðalfundarins og býður Brakkasamtökin velkomin í hópinn.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?