Kolbrún Silja Ásgeirsdóttir 2. júl. 2020

Tólf velunnarar segja af hverju þeir styrkja Krabbameinsfélagið

Velunnarar vilja leggja sitt af mörkum í baráttunni við krabbamein.


Gerast velunnari Velunnarar Krabbameinsfélagsins eru þau sem kjósa að styðja við baráttuna gegn krabbameini með mánaðarlegu framlagi og styrkja þannig rannsóknir, fræðslu og forvarnir og endurgjaldslausa ráðgjöf og stuðing til krabbameinsgreindra og aðstandenda þeirra.

Ástæðurnar fyrir því að fólk gerist velunnarar eru fjölbreyttar. Sumir greindust sjálfir með krabbamein á meðan aðrir þekkja einhvern nákominn sem hefur barist við sjúkdóminn.

Hér má sjá tólf sögur velunnara sem útskýra af hverju þau ákváðu að styrkja Krabbameinsfélagið með reglulegum framlögum. Smelltu hér ef þú vilt gerast velunnari eða kynna þér mikilvægi þeirra betur.

1. Krabbamein snertir alla

„Ég vil styðja við það frábæra starf sem Krabbameinsfélagið vinnur. Krabbamein snertir alla á einn eða annan hátt einhverntímann á lífsleiðinni og þá er gott að geta leitað til ykkar eftir stuðning og fræðslu. Sjálf hef ég greinst tvisvar og er þakklát fyrir það að hafa ykkur. Hef nýtt mér stuðning, fræðslu, námskeið og fór í frábæra ferð með Kastað til bata. 

Takk fyrir ykkar góða starf.“

2. Borga þetta með glöðu geði

Ég er velunnari krabbameinsfélagsins af samfélagsástæðum. Borga þetta með glöðu geði og veit að margt smátt gerir gagn.

3. Gott að eiga góða að

„Það er mikið um krabbamein í ættinni minni. Hef misst nær alla mína nánustu úr krabbameini - og geri alveg eins sjálf ráð fyrir að glíma við krabbamein einhvern tímann.... Þá er gott að eiga góða að.“

4. Það litla sem ég get gert, það geri ég

„Allt of margir sem eru mér nákomnir hafa fallið fyrir krabbanum. Bæði nánir ættingjar og vinir. Bara að frétta af einhverjum sem hefur greinst er nóg til þess að vilja gera eitthvað. Ekki mikið sem ég get gert en það litla sem ég get gert, það geri ég.“

5. Styrki félög sem hafa reynst mér vel

„Það eru mörg málefni sem ég myndi vilja styðja fjárhagslega en þarf að velja úr. Ég ákvað að styrkja fyrst og fremst þau félög sem hafa reynst mér og mínum nánustu vel og þið eruð í þeim hópi. 

6. Eingöngu að styrkja gott málefni

Ég er svo heppin að enginn nákominn mér hefur greinst með krabbamein svo ég er eingöngu að styrkja gott málefni.

7. Ómetanlegt starf

„Ég er velunnari, bæði af persónulegum ástæðum og af samfélagslegri skyldu. Það hafa nánir ættingjar og vinir fengið krabbamein og sumir dáið, aðrir náð bata. 

Mikilvægt er að styðja við krabbameinssjúklinga og aðstandendur þeirra. Áfallið er mikið. Krabbamein skilur alltaf eftir sig spor (andleg og líkamleg heilsa bíður hnekki, fólk missir vinnu, fjárhagurinn fær að finna fyrir því o.s.frv.) og því er einnig mikilvægt að styðja við sjúklinga í bata og sem unnið hafa bug á krabbameini. 

Að krabbameinssjúklingar og aðstandendur þeirra hafi félög eins og Krabbameinsfélag Íslands og Krabbameinsfélög um land er ómetanlegt. Rannsóknir á krabbameini er grunnurinn að baráttunni gegn þessu sjúkdómi og því mikilvægt að styðja við slíka starfsemi.“

8. Mikil ánægja að geta styrkt baráttuna

„Ég kynntist því góða starfi sem unnið er í baráttunni gegn krabbameini á meðan kona mín barðist við sín veikindi. Hún lést á síðasta ári. Mér er mikil ánægja að geta á þennan hátt styrkt þessa baráttu og mun halda því áfram um ókomna tíð.“

9. Rann því blóðið til skyldunar

„Ég er velunnari vegna þess að amma mín, mamma og móðursystir fengu allar brjóstakrabbamein. Mér rann því blóðið til skyldunar að styðja við bakið á ykkur og er mér það mjög ljúft.“

10. Veit hversu mikilvægt starfið ykkar er

„Ég hef sjálf barist við krabbamein síðustu fimm ár og er enn að, svo ég veit hversu mikilvægt starfið ykkar er. Ég kynntist því strax í fyrstu meðferð hversu miklu þið hafið komið í gegn sem við sem greinumst njótum góðs af strax frá fyrsta degi. Svo hef ég kynnst daglegri starfssemi betur og betur og hún er mjög dýrmæt.“

11. Velunnari af samfélagslegum ástæðum

Ég er velunnari Krabbameinsfélagsins af samfélagslegum ástæðum. Málefnið er afskaplega mikilvægt og rannsóknir eru kostnaðarsamar. Ég vil leggja mitt af mörkum til að framþróun verði í krabbameinsrannsóknum og styrkja það góða starf sem unnið er á þessu sviði.

12. Ég vil gera allt sem ég get

Ég missti móður mína fyrir þremur árum en hún lést úr lungnakrabbameini. Ég vil gera allt sem ég get til að aðrir þurfi ekki að ganga í gegnum slík veikindi og missi.

Velunnarar eru ómetanlegt bakland Krabbameinsfélagsins allan ársins hring. Kynntu þér framlag velunnara hér.


Fleiri nýjar fréttir

5. des. 2023 : Aðstoð við að velja mat sem eykur heilbrigði og vellíðan

Við þurfum hjálp! Ákall til matvælaframleiðenda og sölu- og markaðsaðila matvæla. Mörg fyrirtæki standa sig vel þegar kemur að markaðssetningu á mat og drykkjarvöru. Sum fyrirtæki sem bjóða upp á heilsueflandi mat en einnig mat- og drykkjarvörur sem geta haft neikvæð áhrif á heilsu hlífa til dæmis börnum við markaðssetningu á slíkum vörum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Kírópraktorstöðin styrkir Bleiku slaufuna

Kírópraktorstöðin afhenti á dögunum 500.000 krónur til Krabbameinsfélagsins. Upphæðin er afrakstur af einstaklega vel heppnuðu Konukvöldi sem þau stóðu fyrir í tilefni af Bleikum október. Krabbameinsfélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn, sem kemur að góðum notum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Ný rannsókn styður við einstaklingssniðna meðferð

Ný íslensk rannsókn sem birtist í dag í npj Breast Cancer og var unnin í samstarfi Krabbameinsfélagsins við meinafræðideild og krabbameinslækningadeild Landspítala, og við Háskóla Íslands. 

Lesa meira

2. des. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira

1. des. 2023 : Minningarorð um Jón Þorgeir Hallgrímsson

Jón Þorgeir Hallgrímsson, læknir, fyrrverandi formaður Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags Reykjavíkur lést þann 21. nóvember sl., 92 ára að aldri. Jóns Þorgeirs er minnst hjá Krabbameinsfélaginu með mikilli virðingu og þakklæti. Aðstandendum vottar félagið innilega samúð. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?