Anna Margrét Björnsdóttir 27. jún. 2023

„Það má hlæja þótt lífið sé að henda í okkur verkefnum“

  • Hópmynd 2023
    Hópmynd 2023

Verkefnið „Kastað til bata“ fór fram í fjórtánda skipti dagana 4. til 6. júní farið var í Langá á Mýrum. Auður Elísabet Jóhannsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ráðgjafi hjá Krabbameinsfélaginu, hefur stýrt verkefninu fyrir hönd félagsins í áratug og ræddi við okkur um töfrana sem felast í þessum ferðum.

„Kastað til bata“ er endurhæfingarverkefni á vegum Brjóstaheilla – Samhjálpar kvenna, Krabbameinsfélagsins og styrktaraðila. Verkefnið gengur út á að bjóða konum sem gengið hafa í gegnum meðferð við brjóstakrabbameini að kynna sér fluguveiði. Ávinningurinn af verkefninu er margvíslegur, m.a. fyrir andlega heilsu, en fluguveiði reynir líka á brjóstvöðvana og upphandleggi og er því góð líkamleg endurhæfing fyrir þennan hóp.

„Í gegnum starf mitt bæði á kvennadeild LSH og hjá Krabbameinsfélaginu hef ég hitt mjög margar konur sem eiga þessa reynslu að baki. Flestar hafa tilhneigingu til að fara í gegnum ferlið á hnefanum, en svo þegar allt er búið þá er eins og þyrmi yfir margar þeirra. Þær fá eiginlega hálfgert spennufall,“ segir Auður.

„Stundum er þetta líka ekki bara krabbameinið sem þær eru að kljást við, heldur blandast önnur lífsins verkefni saman við. Okkar markmið er að minna þær á að þótt þetta sé alvarlegt ferli þá má ekki gleyma brosinu og hlátrinum. Það má hlæja þótt lífið sé að henda í okkur verkefnum.“

Untitled-design-1-

Kvennakraftur

Auður tók við verkefninu af forvera sínum Ásdísi Káradóttur árið 2014, og fór í sína fyrstu ferð 2015. Þar kynntist hún Guðrúnu Kristínu Svavarsdóttur sem var í ferðinni sem þátttakandi. „Hún er einstök manneskja og ég hugsaði strax að það yrði mikill fengur að fá hana til að vera með mér í þessu,“ segir Auður, en Guðrún Kristín er í dag verkefnastýra „Kastað til bata“ fyrir hönd Brjóstaheilla – Samhjálpar kvenna. Hún tók við verkefninu af forverum sínum Jónínu Jónsdóttur og Ragnheiði Guðmundsdóttur og frá árinu 2016 hafa þær Auður saman unnið hörðum höndum að því að gera þessar ferðir ógleymanlegar fyrir þátttakendur.

„Við ákváðum að þetta ætti ekki aðeins að vera flugukastkennsla og veiði heldur líka matarupplifun. Það er fenginn kokkur, eins og tíðkast í veiðiferðum, og lagt mikið upp úr matnum á meðan á dvölinni stendur. Leiðsögumenn frá Stangveiðifélagi Reykjavíkur hafa einnig verið með okkur frá 2010 og sjá um að kenna réttu handtökin. Undanfarin tvö ár hefur kvennadeild félagsins séð um þessar ferðir og þær eru svo áhugasamar að það komast færri að hjá þeim heldur en vilja,“ segir Auður og hlær. Með aðkomu þeirra að verkefninu hefur myndast sannkallaður kvennakraftur og að sögn Auðar eru þær kærkomin viðbót við hópinn.

2023-h

Kalla sig veiðisystur

Konurnar gista tvær saman í herbergjum og þekkjast ekki endilega áður en þær mæta, en það myndast fallegur skilningur og samkennd í hópnum og margir hópanna tengjast systraböndum á þessum stutta tíma. „Það er misjafnt hversu vel konurnar þekkjast fyrir ferðina, en það gerast bara einhverjir töfrar. Stundum lenda ókunnugar konur saman í herbergi sem enda síðan á að halda sambandi áfram eftir ferðina. Ég veit líka til þess að einhverjir hópar séu ennþá að hittast. Þær kalla sig veiðisystur.“

Verkefnið er að bandarískri fyrirmynd og heitir upprunalega „Casting for Recovery“. Þarlendis er veiðivöruframleiðandinn Sage styrktaraðili verkefnisins og framleiðir sérstaklega bleikan búnað fyrir verkefnið. „Þemað er bleikt. Bleikar stangir, bleik veiðihjól og bleikt girni. Meira að segja taskan undir búnaðinn er bleik,“ segir Auður. „Þegar búið var að taka ákvörðun um að koma þessu verkefni á laggirnar hérlendis, í okkar fallega veiðiumhverfi, þá var næsta skref að verða sér úti um bleiku stangirnar.“ Veiðihornið hefur reynst sannkallaður haukur í horni og stutt við verkefnið með ómetanlegum hætti. „María hjá Veiðihorninu hefur reynst okkur afskaplega vel við að útvega okkur rétta búnaðinn, bleiku Grace stangirnar, vöðlur og fluguveiðibox. Í ferðunum er svo að sjálfsögðu bleikt þema, í stíl við stangirnar góðu.“

Við látum nokkrar myndir fylgja með, en þær fanga vel þessa einstöku stemningu sem ríkir í þessum ferðum. Áhugasömum um næstu ferð að ári er bent á að hafa samband við Krabbameinsfélagið til að nálgast frekari upplýsingar um þátttöku.

Untitled-design


Fleiri nýjar fréttir

5. des. 2023 : Aðstoð við að velja mat sem eykur heilbrigði og vellíðan

Við þurfum hjálp! Ákall til matvælaframleiðenda og sölu- og markaðsaðila matvæla. Mörg fyrirtæki standa sig vel þegar kemur að markaðssetningu á mat og drykkjarvöru. Sum fyrirtæki sem bjóða upp á heilsueflandi mat en einnig mat- og drykkjarvörur sem geta haft neikvæð áhrif á heilsu hlífa til dæmis börnum við markaðssetningu á slíkum vörum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Kírópraktorstöðin styrkir Bleiku slaufuna

Kírópraktorstöðin afhenti á dögunum 500.000 krónur til Krabbameinsfélagsins. Upphæðin er afrakstur af einstaklega vel heppnuðu Konukvöldi sem þau stóðu fyrir í tilefni af Bleikum október. Krabbameinsfélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn, sem kemur að góðum notum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Ný rannsókn styður við einstaklingssniðna meðferð

Ný íslensk rannsókn sem birtist í dag í npj Breast Cancer og var unnin í samstarfi Krabbameinsfélagsins við meinafræðideild og krabbameinslækningadeild Landspítala, og við Háskóla Íslands. 

Lesa meira

2. des. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira

1. des. 2023 : Minningarorð um Jón Þorgeir Hallgrímsson

Jón Þorgeir Hallgrímsson, læknir, fyrrverandi formaður Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags Reykjavíkur lést þann 21. nóvember sl., 92 ára að aldri. Jóns Þorgeirs er minnst hjá Krabbameinsfélaginu með mikilli virðingu og þakklæti. Aðstandendum vottar félagið innilega samúð. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?