• Kastað til bata hópurinn 2016. Myndin er tekin við Laxá í Kjós.

Kastað til bata

Markmiðið er að veita konum tækifæri til að styrkja sig á líkama og sál með því að æfa fluguköst í fögru umhverfi, njóta samvista við veiðifélaga með svipaða reynslu - og veiða ef heppnin er með.

"Kastað til bata" er verkefni á vegum Brjóstaheill -Samhjálpar kvenna, Krabbameinsfélagsins og styrktaraðila, þar sem konum er boðið til veiðiferðar. Verkefnið hófst árið 2010 og er hugmynd frá Bandaríkjunum „Casting for recovery“  og hugsað sem endurhæfing fyrir konur sem lokið hafa meðferð við brjóstakrabbameini.

Markmiðið er að veita konum tækifæri til að styrkja sig á líkama og sál með því að æfa fluguköst í fögru umhverfi, njóta samvista við veiðifélaga með svipaða reynslu - og veiða ef heppnin er með.  Vanir fluguveiðimenn kenna þátttakendum að kasta flugu og tekið er mið af líkamlegri getu þátttakenda. Hve margir þátttakendur eru hverju sinni fer eftir gistirými en markmið er að hafa 14 konur í hverri ferð.

Kastað til bata 2018

Að þessu sinni var farið í Varmá og tóku 13 konur þátt. Þessi ævintýraferð er þátttakendum að kostnaðarlausu.

Þetta var í níunda sinn sem „Kastað til bata“ verkefnið var í boði. Þátttakendur hafa verið afar ánægðir og halda margar konur enn hópinn.

Umsagnir frá þátttakendum:


 „Þetta var sannkallað ævintýri frá upphafi til enda.“

 „Frábær ferð í alla staði, gott að hitta konur sem hafa gengið í gegnum sambærilega hluti og fá upplýsingar um þeirra ferli.“

 „Þvílíkt flott hópefli. Bý að þessu um ókomna tíð. Yndislegur hópur.“


Þær konur sem hafa áhuga á taka þátt í ferðinni fyrir árið 2019 eru beðnar um að fylgjast með frekari upplýsingum um umsóknarfrest þegar auglýsing verður birt hér á síðunni í lok febrúar 2019.  Fyrirhugað er að fara norður í land í samstarfi við Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis.  

Nánari upplýsingar veitir starfsfólk Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins í síma 800 4040 eða með því að senda póst á netfangið radgjof@krabb.is.

Fyrirspurnir er hægt að senda á netfangið kastadtilbata@krabb.is.

https://youtu.be/ZYtE4HFBk4c

Stuðningur styrktaraðila skiptir höfuðmáli til að gera þetta skemmtilega endurhæfingarverkefni að veruleika.

Nánari upplýsingar um verkefnið fást hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins á netfangið radgjof@krabb.is eða í síma 800 4040.

Kastað til bata hóparnir 2010-2015