Beint í efni

Nauð­syn­legt að leita batans

Þuríður Jana Ágústsdóttir, tók þátt í endurhæfingarverkefninu Kastað til bata, nú í vor. Hún segir nauðsynlegt að leita batans hvarvetna og að þátttaka í verkefni sem þessu sé hluti af því ferli.

Einstök upplifun

,,Það var sérlega ánægjulegt að vera hluti af Kastað til bata í ár og kynnast þessum skemmtilegu konum sem allar áttu það sameiginlegt að hafa fengið brjóstakrabbamein” segir Jana. Hún segist oft finna fyrir kvíða þegar hún stendur frammi fyrir nýjum áskorunum en hún hafði aldrei farið í fluguveiði og vissi því ekkert út í hvað hún væri að fara. Hún tók þá ákvörðun að treysta bæði ferlinu og fólkinu sem að því stóð og segir það hafi skilað sér einstakri upplifun.

Við komuna í veiðihúsið fengu konurnar veiðikastkennslu og óðu síðan yfir ána, tvær og þrjár saman. Jana segir það hafa hrist hópinn vel saman að styðja við hvor aðra í straumnum. ,,Það var kraftur í ánni og hún sýndi manni alveg hver ræður. Sigur tilfinningin var hinsvegar góð eftir að hafa farið saman fram og til baka sem gaf okkur góða tilfinningu fyrir ánni og aðstæðum”.

Hollustan í fyrirrúmi

Jana hrósar matnum og aðbúnaðinum í hástert. ,,Við vorum með yndislegan kokk, hana Vigdísi, sem töfraði fram hverja hollustuna af fætur annarri og kitlaði bragðlaukana, bókstaflega” segir hún með áherslu. ,,Hún gaf svo mikið af sér, ekki bara uppskriftirnar heldur var hún óþreytandi að lýsa matargerðinni og fræða þær sem vildu.  Það var sumt framandi sem hún bauð okkur upp á og mjög gaman að uppgötva og læra það”.

Ólíkar krabbameinssögur

Fyrra kvöldið sátu konurnar saman í hring og deildu sinni krabbameinssögu. Jana segist hafa orðið hissa hve þetta voru ólíkar sögur. ,,Allar okkar höfðu fengið brjóstakrabbamein en hvernig við uppgötvuðum það, fórum í gegnum það og tókum því, var mismunandi”. Hún segir þær hafa tengst einstaklega vel við deila reynslu sinni hver með annarri, fengið þannig að kynnast innri manneskjunni ekki bara ytra byrðinu. ,,Við tengdumst vel við að heyra sögu hverrar annarrar. Það gaf okkur heilmikið, ýfði aðeins upp alvarleikann en við hlógum líka mikið, fórum í gegnum tilfinningarófið, gleði og sorg.”

Forréttindi

Að vera þátttakandi í Kastað til baka segir Jana vera forréttindi og að þær Auður E. Jóhannsdóttir hjá Krabbameinsfélaginu og Guðrún Kristín Svavarsdóttir hjá Brjóstaheillum hafi haldið einstaklega vel utan um hópinn og gefið mikið af sér. Hún segir það ómetanlegt og ákaflega heilandi að finna þennan stuðning og utanumhald sem felst í ferð sem þessari. ,,Þegar þú færð krabbamein þá eru aðstandendur oft hræddari en þú og því erfitt oft á tíðum að ræða ferlið, sjúkdóminn og upplifunina. Það gefur því mikið að vera með konum sem hafa farið í gegnum það sama og maður sjálfur”, segir hún og brosir ,,við gátum til að mynda, gert grín að krabbameinsþreytunni sem jafningjar, því við skildum nákvæmlega hverja aðra”.

Fræðsla og þjónusta mikilvæg

Jana segist hafa nýtt sér marga þá þjónustu sem í boði er, fyrir fólk með krabbamein. ,, því þegar ég greindist komu upp allskonar tilfinningar þ.á.m. vanmáttur og  sorg. Ég fann að ég þurfti mikið á jákvæðum stuðningi að halda og þann jákvæða stuðning fann ég m.a. hjá Krabbameinsfélaginu. Ég hef nýtt mér fjölmörg námskeið, yndislegar göngur og fræðslu hjá Krabbameinsfélaginu, fengið tækifæri til að hitta fagfólk sem hjálpar mér að líða betur, leiðbeinir um matarræði, hreyfingu og allt sem viðkemur lífinu eftir brjóstakrabbamein”. 

Aðspurð um andlega þáttinn svarar hún því til að sín reynsla sé að það séu alltaf til leiðir til að láta sér líða betur, í öllum aðstæðum ef maður bara leitar eftir því. Þar sé þjónusta eins og  hjá Krabbameinsfélaginu mikilvæg en hún sé bæði gjaldfrjáls og fjölbreytt.

Þarft að koma til batans

,,Þegar maður er fullorðinn og veikur þá getur það verið hálfsdags vinna að ná sér á strik aftur en það er skemmtileg vinna til að ná eins góðri heilsu og kostur er” útskýrir Jana og bætir við ,,þessvegna er utanum hald eins og hjá Krabbameinsfélaginu svo mikilvægt.” 

Hún segir batann koma í litlum skrefum og ekki af sjálfu sér, heldur verðum við öll að koma til hans, sækjast eftir honum, eins og í hennar tilfelli m.a. að sækja um í Kastað til bata.

,,Í veiðiferðinni upplifði ég mig ekki með krabbameinskonum heldur með forréttindahópi svo vel var haldið utan um okkur. Það ríkti lífsgleði og almennur fíflagangur og töfrar urðu til. Fyrir það er ég mjög þakklát” segir Jana brosandi að lokum.