Birna Þórisdóttir 7. apr. 2020

Takk hjúkrunarfræðingar og ljósmæður

Á alþjóðaheilbrigðisdaginn þakkar Krabbameinsfélagið hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum fyrir þeirra mikilvæga framlag í baráttunni gegn krabbameinum. 

Í dag 7. apríl er alþjóðaheilbrigðisdagurinn (World Health Day) og í ár er hann tileinkaður hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum. Þessar stéttir eiga stóran þátt í því að fækka krabbameinum, fækka dauðsföllum af völdum krabbameina og ekki síst bæta lífsgæði fólks með krabbamein.

Hjá Krabbameinsfélaginu starfar nokkur fjöldi hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra. Hjúkrunarfræðingar Ráðgjafarþjónustunnar veita margvíslega ráðgjöf og stuðning með það að markmiði að aðstoða fólk við að ná jafnvægi í lífinu eftir þær breyttu aðstæður sem greining krabbameins veldur. Á Leitarstöðinni eru bæði hjúkrunarfræðingar og ljósmæður lykilstarfsmenn, meðal annars má nefna að konur sem eru með einkenni frá brjóstum geta fengið ráðleggingar hjá hjúkrunarfræðingi á Leitarstöðinni og ljósmæður framkvæma leghálsskimun.

Þjónusta við krabbameinssjúklinga byggir á aðkomu og samvinnu margra fagstétta, en á heimsvísu eru hjúkrunarfræðingar stærsti hópur heilbrigðisstarfsmanna. Krabbameinshjúkrunarfræði hefur alþjóðlega viðurkenningu sem sérgrein innan hjúkrunar. Hlutverk krabbameinshjúkrunarfræðinga er að veita árangursríka og örugga hjúkrun sem er byggð á heildrænni sýn og faglegum vinnubrögðum. Krabbameinshjúkrun miðar að því að mæta þörfum og væntingum sjúklings og aðstandenda á öllum þjónustustigum, sinna kennslu, þjálfun og ráðgjöf, og vinna að rannsóknum og notkun á vísindalegri þekkingu í klínísku starfi.

Krabbameinsfélagið óskar hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum félagsins sem og landsins alls til hamingju með daginn og þakkar þeim fyrir þeirra mikilvægu störf.

Textinn um krabbameinshjúkrunarfræði er fenginn úr fréttasafni Krabbameinsfélagsins: Sigríður Zoëga og Nanna Friðriksdóttir. Rannsóknir í krabbameinshjúkrun. Við getum-ég get. 14. nóvember 2016. 


Fleiri nýjar fréttir

1. des. 2023 : Minningarorð um Jón Þorgeir Hallgrímsson

Jón Þorgeir Hallgrímsson, læknir, fyrrverandi formaður Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags Reykjavíkur lést þann 21. nóvember sl., 92 ára að aldri. Jóns Þorgeirs er minnst hjá Krabbameinsfélaginu með mikilli virðingu og þakklæti. Aðstandendum vottar félagið innilega samúð. 

Lesa meira

28. nóv. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira
Ljósmynd: Thule Photos

28. nóv. 2023 : Dýrmætt að vita að maður stendur ekki einn í þessu

Flestir sem hafa upplifað það að missa einhvern náinn sér eru líklega sammála um að sorgin er erfið og þungbær. Sorg barna er sérstaklega vandmeðfarin og það getur skipt máli fyrir úrvinnslu þeirra að fá réttan stuðning frá nærsamfélaginu. Hannes missti eiginkonu sína úr krabbameini árið 2022, en þau áttu tvær dætur saman. Hann segir hér frá sorgarúrvinnslunni og helstu úrræðum sem þau feðgin hafa nýtt sér, en þar á meðal er stuðningur Krabbameinsfélagsins við börn sem missa foreldri.

Lesa meira

28. nóv. 2023 : „Mig langaði til að taka þessa byrði og bera hana sjálf“

Rakel Ósk Þórhallsdóttir, eigandi vefverslunarinnar Central Iceland, hefur undanfarin þrjú ár stutt dyggilega við Bleiku slaufuna, en í heildina telur framlag hennar 7.385.000 kr. Rakel segir hér frá drifkraftinum á bak við verkefnið, en hún hefur persónulega tengingu við málstaðinn.

Lesa meira

23. nóv. 2023 : Fulltrúar Krabbameinsfélagsins á faraldsfæti

Um þessar mundir stendur Krabbameinsfélagið fyrir átaksverkefni sem miðar að því að fjölga í þeim góða hópi Velunnara sem styðja þétt við bakið á félaginu með mánaðarlegum framlögum. Í nóvember heimsækjum við Selfoss.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?