Birna Þórisdóttir 7. apr. 2020

Takk hjúkrunarfræðingar og ljósmæður

Á alþjóðaheilbrigðisdaginn þakkar Krabbameinsfélagið hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum fyrir þeirra mikilvæga framlag í baráttunni gegn krabbameinum. 

Í dag 7. apríl er alþjóðaheilbrigðisdagurinn (World Health Day) og í ár er hann tileinkaður hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum. Þessar stéttir eiga stóran þátt í því að fækka krabbameinum, fækka dauðsföllum af völdum krabbameina og ekki síst bæta lífsgæði fólks með krabbamein.

Hjá Krabbameinsfélaginu starfar nokkur fjöldi hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra. Hjúkrunarfræðingar Ráðgjafarþjónustunnar veita margvíslega ráðgjöf og stuðning með það að markmiði að aðstoða fólk við að ná jafnvægi í lífinu eftir þær breyttu aðstæður sem greining krabbameins veldur. Á Leitarstöðinni eru bæði hjúkrunarfræðingar og ljósmæður lykilstarfsmenn, meðal annars má nefna að konur sem eru með einkenni frá brjóstum geta fengið ráðleggingar hjá hjúkrunarfræðingi á Leitarstöðinni og ljósmæður framkvæma leghálsskimun.

Þjónusta við krabbameinssjúklinga byggir á aðkomu og samvinnu margra fagstétta, en á heimsvísu eru hjúkrunarfræðingar stærsti hópur heilbrigðisstarfsmanna. Krabbameinshjúkrunarfræði hefur alþjóðlega viðurkenningu sem sérgrein innan hjúkrunar. Hlutverk krabbameinshjúkrunarfræðinga er að veita árangursríka og örugga hjúkrun sem er byggð á heildrænni sýn og faglegum vinnubrögðum. Krabbameinshjúkrun miðar að því að mæta þörfum og væntingum sjúklings og aðstandenda á öllum þjónustustigum, sinna kennslu, þjálfun og ráðgjöf, og vinna að rannsóknum og notkun á vísindalegri þekkingu í klínísku starfi.

Krabbameinsfélagið óskar hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum félagsins sem og landsins alls til hamingju með daginn og þakkar þeim fyrir þeirra mikilvægu störf.

Textinn um krabbameinshjúkrunarfræði er fenginn úr fréttasafni Krabbameinsfélagsins: Sigríður Zoëga og Nanna Friðriksdóttir. Rannsóknir í krabbameinshjúkrun. Við getum-ég get. 14. nóvember 2016. 


Fleiri nýjar fréttir

9. jún. 2023 : Láttu mig vita ef ég get gert eitthvað fyrir þig

Þegar einhver í kringum okkur greinist með krabbamein er eðlilegt að upplifa óöryggi. þótt flestir vilji leggja sitt af mörkum til að vera til staðar getur óttinn við að segja ekki réttu hlutina eða að vita ekki hvað á að segja leitt til þess að jafnvel verði minna samband við viðkomandi en áður.

Lesa meira

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?