Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 25. sep. 2020

Leitarstöð Krabbameinsfélagsins 1964-2020

Það var baráttumál kvenna að koma skimunum á fót á sínum tíma og Krabbameinsfélagið hefur frá upphafi annast skimunina.

Áramótin 2020/2021 marka stór tímamót í starfi Krabbameinsfélags Íslands þegar Leitarstöð félagsins verður lögð af eftir 56 ára starfsemi. Í samræmi við ákvörðun heilbrigðisráðherra í febrúar 2019 munu skimanir fyrir brjóstakrabbameinum flytjast til Landspítala og leghálskrabbameinsskimanir til heilsugæslunnar. Ekki er ljóst hvar frumurannsóknum verður fyrir komið.

Krabbameinsfélagið hefur frá upphafi annast skimunina í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld. Í gegnum tíðina hefur hún að verulegu leyti verið fjármögnuð af ríkinu, ýmist beint af fjárlögum eða með þjónustusamningi við Sjúkratryggingar. Komugjöld kvenna hafa til viðbótar staðið undir talsverðum hluta kostnaðar. Krabbameinsfélagið hefur einnig stutt rækilega við Leitarstöðina og lagt til það fjármagn sem hefur þurft til viðbótar. 

Frá upphafi var það eitt af markmiðum Krabbameinsfélagsins að stuðla að því að krabbamein greindust á lægri stigum. Þegar félagið var stofnað árið 1951 voru horfur krabbameinssjúklinga mun verri en þær eru nú meðal annars vegna þess að meinin voru yfirleitt langt gengin við greiningu. Það var því mikill áhugi hjá félaginu á að bæta og flýta greiningu krabbameina. Strax árið 1949 fékk Ólafur Bjarnason læknir ferðastyrk frá nýstofnuðu Krabbameinsfélagi Reykjavíkur til að kynna sér nýjar aðferðir til að greina leghálskrabbamein á byrjunarstigi. 

Skipulögð leit að krabbameini í leghálsi hófst á vegum Krabbameinsfélags Íslands árið 1964 í húsnæði þess að Suðurgötu 22. Leitin var mikið baráttumál kvenna á sínum tíma og fylltu konur Gamla bíó í þrígang þegar Alma Þórarinsson, fyrsti yfirlæknir Leitarstöðvarinnar, hélt þar fræðslufundi um leitarstarfið og sýndi kynningarmynd. Auk þess að standa að þessari kynningu á leitarstarfinu hélt Krabbameinsfélagið fleiri fræðslufundi og gaf út bæklinga í samstarfi við kvenfélög og önnur félagasamtök. Þróað hafði verið próf til að greina forstig leghálskrabbameins og því var mögulegt að draga úr bæði nýgengi sjúkdómsins og dánartíðni. 

Árið 1987 hófst leit að krabbameini í brjóstum á Íslandi í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8. Leitin náði til allrar þjóðarinnar tveimur árum síðar og varð Ísland þar með fyrsta landið á heimsvísu til að bjóða allri kvenþjóð sinni upp á skipulagða brjóstakrabbameinsleit. Ekki eru til forstig brjóstakrabbameins eins og raunin er með leghálskrabbamein en í staðinn beinist leitin að því að greina brjóstaæxli á frumstigi með röntgenmyndatöku, áður en þau hafa náð að mynda meinvörp. Leitin dregur því ekki úr nýgengi brjóstakrabbameins þótt hún lækki dánartíðnina.

„Að baki leitarstarfinu liggur hugsjón, gríðarlegur metnaður og framsýni þeirra sem komu skimunum á fót á Íslandi. Þetta hefur verið leiðarljós Leitarstöðvarinnar allt fram á þennan dag. Á Leitarstöðinni starfar fólk sem brennur fyrir því að varðveita heilsu og heill kvenna á Íslandi og árangurinn af þessu er óumdeilanlegur og með því besta sem þekkist í heiminum,“ segir Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir Leitarstöðvarinnar. 

20 þúsund konur í brjóstaskimun og 27 þúsund leghálssýni skoðuð á ári 

Á ári hverju koma um 15 þúsund konur í brjóstaskoðun á Leitarstöðina í Skógarhlíð og um 14 þúsund konur í leghálsskimun. Á vegum Leitarstöðvarinnar fer einnig fram reglubundin skimun fyrir krabbameinum í brjóstum og leghálsi á landsbyggðinni, í samstarfi við Sjúkrahúsið á Akureyri og heilsugæslustöðvar um allt land. Samanlagt voru komur kvenna í skimun fyrir brjóstakrabbameini um 21 þúsund á vegum Leitarstöðvarinnar á árinu 2019 og 16.200 í skimun fyrir leghálskrabbameini. Frá árinu 1986 má ætla að alls hafi konur mætt í tæplega 1,7 milljónir skipta í legháls- og brjóstaskimun. 

Greining leghálssýna hefur ávallt verið framkvæmd á vegum Krabbameinsfélagsins en árið 1975 hóf Leitarstöðin rekstur eigin frumurannsóknarstofu. Rannsóknarstofan rannsakar öll leghálssýni sem tekin eru af ljósmæðrum á Leitarstöðinni og sjálfstætt starfandi kvensjúkdómalæknum en fram til þessa hafa ekki borist mörg sýni frá heilsugæslustöðvum. Árlega eru um 25 þúsund sýni rannsökuð. 

K9-Ingibjorg-Gudmunds_1601047343468„Á frumunni, eins og við köllum hana, starfa lífeindafræðingar, líffræðingur og meinafræðingur. Nýtt starfsfólk þarf um það bil ár í þjálfun til að öðlast nægilega færni til að geta leitað að afbrigðilegum frumum. Sérhæfð þekking skiptir gífurlega miklu máli og er þessi þekking á Íslandi bundin við rannsóknarstofu Krabbameinsfélagsins og finnst ekki annars staðar hér á landi. Sérhæfingin skiptir því gífurlega miklu máli fyrir konur á landinu,“ segir Ingibjörg Guðmundsdóttir, yfirlæknir frumurannsóknarstofu.

Dánartíðni af völdum leghálskrabbameins hefur lækkað um 83% frá því að leitarstarfið hófst en á þeim tíma hafa 902 konur greinst með leghálskrabbamein. Árlega látast nú að meðaltali fimm konur úr meininu. 

Íslensk/bresk rannsókn á brjóstakrabbameini sem gerð var fyrir nokkru, benti til þess að leitin hefði lækkað dánartíðni af völdum brjóstakrabbameins um 35-40% hjá þeim konum sem mættu. Alls hafa 5613 konur greinst með brjóstakrabbamein á Íslandi frá upphafi leitarstarfs og árlega látast um 49 úr sjúkdómnum. 

„Dánartíðni vegna leghálskrabbameins hér á landi er nú með því allra lægsta sem þekkist í heiminum og áætlað er að frá því leitin hófst hafi tekist að koma í veg fyrir um 500 dauðsföll kvenna úr leghálskrabbameini,“ segir Laufey Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár. 

Frá árinu 2011 hefur öllum 12 ára stúlkum á Íslandi verið boðin bólusetning gegn algengustu HPV-veirunum sem orsaka 70% leghálskrabbameina. 

„Við eigum svo eftir að sjá enn frekari fækkun í leghálskrabbameinstilfellum eftir nokkur ár þegar fyrstu hópar stúlkna sem fengu bólusetningu komast á skimunaraldur en það gerist árið 2021,“ segir Laufey. 

Ákvörðun ráðherra um að færa skimun til stofnana ríkisins kemur til framkvæmda 1. janúar 2021. Þá flytjast brjóstaskimanir eins og áður kom fram til Landspítala og leghálsskimanir til heilsugæslu. Ekki er ljóst hvaða fyrirkomulag verður á rannsóknum leghálssýna.

„Okkur hjá Krabbameinsfélaginu er efst í huga aðdáun og þakklæti til þess mikla hugsjónafólks sem hóf skimunina á sínum tíma. Við þökkum auðvitað öllum þeim sem hafa komið að þessu gífurlega mikilvæga forvarnarverkefni félagsins í áratugi. Bæði sjálfboðaliðar um land allt og fagfólk í ýmsum greinum. Um leið hvetjum við stjórnvöld til að hlúa vel að þessu mikla frumkvöðla- og uppbyggingarstarfi sem Krabbameinsfélagið hefur haldið uppi með dyggum stuðningi almennings og Velunnara félagsins. Skimun hefur sannað gildi sitt og afar mikilvægt er að nýta hana í öllum þeim tilvikum sem fýsilegt þykir. Því miður erum við langt á eftir nágrannaþjóðum okkar þegar kemur að skimunum fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi. Með þeirri skimun er hægt að bjarga fjölda mannslífa. Undirbúningsvinnan hefur þegar verið unnin og afar brýnt er að koma þeirri skimun á þegar í stað,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Greinin birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins veturinn 2020-2021.


Fleiri nýjar fréttir

24. nóv. 2021 : Fræðslu­mynd í tilefni stór­afmælis

Í tilefni af 40 ára afmæli Stómasamtaka Íslands er nú komin út vönduð fræðslumynd. Samtökin eru hagsmunasamtök stómaþega á Íslandi sem leggja áherslu á aukin lífsgæði stómaþega með fræðslu, stuðningi og hvatningu.

Lesa meira
Birna Þórisdóttir

19. nóv. 2021 : Krabbameinsfélagið tekur þátt í verkefni um nýsköpun í heilsueflingu

Í dag kynnir Birna Þórisdóttir sérfræðingur og nýdoktor við Háskóla Íslands og fyrrum sérfræðingur hjá Krabbameinsfélaginu niðurstöður verkefnisins Er það bara ég eða stekkur súkkulaðið sjálft ofan í innkaupakerruna?

Lesa meira

18. nóv. 2021 : Jóla­happ­drætti Krabba­meins­félags­ins: Stuðningur við marg­þætta starf­semi

Nú hafa verið sendir út miðar í jólahappdrætti Krabba­meins­félagsins. Allt frá árinu 1955 hefur Krabba­meins­félagið staðið fyrir happdrætti sem hefur verið ein veigamesta tekjulind félagsins og stuðlað mjög að uppbyggingu þess og þróun. 

Lesa meira

18. nóv. 2021 : Ný rafræn samskiptagátt fyrir sjúklinga með krabbamein

Heilsumeðvera er ný rafræn samskiptagátt sem fer í loftið í nóvember. Þar geta krabbameinssjúklingar nálgast upplýsingar um meðferð, sent inn fyrirspurnir og fengið fræðsluefni sniðið að sínum sjúkdómi og meðferð. Heilbrigðisstarfsmaður vaktar þær fyrirspurnir sem berast, til að tryggja greið svör.

Lesa meira

13. nóv. 2021 : Sendu pabba mikilvæg skilboð á Feðradaginn

Í tilefni af Feðradeginum, sunnudaginn 14. nóvember, hvetur Krabbameinsfélagið alla til að senda pabba mikilvæg skilaboð - því við viljum hafa pabbana sem lengst á meðal okkar, við sem besta heilsu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?