Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 13. jún. 2019

Lagabreyting mikil réttarbót fyrir börn sem aðstandendur

Krabbameinsfélagið fagnar breytingum á sex lögum sem leiða til úrbóta og aukins stuðnings við barnafjölskyldur í erfiðum aðstæðum vegna veikinda eða andláts foreldris. 

Um er að ræða lög um réttindi sjúklinga, lög um heilbrigðisstarfsmenn, Barnalögin, Lög um leikskóla, lög um grunnskóla og lög um framhaldsskóla.

Hér á landi hefur lítið verið hugað að rétti barna sem eiga foreldri sem glímir við alvarleg veikindi eða missa foreldri, vegna sjúkdóms eða af slysförum, þrátt fyrir að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hafi verið lögfestur hér á landi árið 2013. Í honum felst að virða skuli rétt barna til að viðhalda auðkennum þess sem einstaklings, þar með eru talin fjölskyldutengsl.

Að frumkvæði Jóns Bjarnasonar, fyrrverandi alþingismanns og ráðherra var gerð rannsókn á stöðu þessara barna undir forystu Sigrúnar Júlíusdóttur, prófessors í félagsráðgjöf í Háskóla Íslands. Niðurstöður rannsóknarinnar voru gefnar út í þremur skýrslum árin 2015, 2017 og 2018 í ritröð Rannsóknarstofnunar í barna- og fjölskylduvernd . Að rannsóknunum stóð auk Sigrúnar þverfaglegur hópur fagfólks frá Krabbameinsfélagi Íslands og Landspítalanum.

Niðurstöður rannsóknanna sýndu að huga þarf mun betur að líðan og réttindum barna í þessum aðstæðum, bæði á spítala og í skóla. Eftir andlát foreldris þurfi enn fremur að gæta vel að því að viðhalda fjölskyldutengslum barna við nána vandamenn hins látna foreldris.

Erlendar rannsóknir hafa einnig leitt í ljós að áföll í bernsku, eins og það að missa foreldri, geta haft afdrifarík áhrif á barn til langframa, heilsu þess, námsframvindu og framtíð sem samfélagsþegns.

„Þessar lagabreytingar eru mikil réttarbót fyrir börn og það var löngu kominn tími á þær hér á landi. Þannig getum við tryggt börnum sem fá það erfiða verkefni að takast á við veikindi eða andlát foreldris rétt sinn. Í þeim tilfellum þar sem foreldri deyr, eru tengsl barna við fjölskyldu þess foreldris gríðarlega mikilvæg. Því miður rofna sú tengsl stundum, en með lagabreytingunni á að tryggja þeim þann rétt sinn,“ segir Gunnjóna Una Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi hjá Krabbameinsfélaginu sem stóð að rannsókninni fyrir hönd Krabbameinsfélagsins.


Fleiri nýjar fréttir

9. jún. 2023 : Láttu mig vita ef ég get gert eitthvað fyrir þig

Þegar einhver í kringum okkur greinist með krabbamein er eðlilegt að upplifa óöryggi. þótt flestir vilji leggja sitt af mörkum til að vera til staðar getur óttinn við að segja ekki réttu hlutina eða að vita ekki hvað á að segja leitt til þess að jafnvel verði minna samband við viðkomandi en áður.

Lesa meira

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?