Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 13. jún. 2019

Lagabreyting mikil réttarbót fyrir börn sem aðstandendur

Krabbameinsfélagið fagnar breytingum á sex lögum sem leiða til úrbóta og aukins stuðnings við barnafjölskyldur í erfiðum aðstæðum vegna veikinda eða andláts foreldris. 

Um er að ræða lög um réttindi sjúklinga, lög um heilbrigðisstarfsmenn, Barnalögin, Lög um leikskóla, lög um grunnskóla og lög um framhaldsskóla.

Hér á landi hefur lítið verið hugað að rétti barna sem eiga foreldri sem glímir við alvarleg veikindi eða missa foreldri, vegna sjúkdóms eða af slysförum, þrátt fyrir að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hafi verið lögfestur hér á landi árið 2013. Í honum felst að virða skuli rétt barna til að viðhalda auðkennum þess sem einstaklings, þar með eru talin fjölskyldutengsl.

Að frumkvæði Jóns Bjarnasonar, fyrrverandi alþingismanns og ráðherra var gerð rannsókn á stöðu þessara barna undir forystu Sigrúnar Júlíusdóttur, prófessors í félagsráðgjöf í Háskóla Íslands. Niðurstöður rannsóknarinnar voru gefnar út í þremur skýrslum árin 2015, 2017 og 2018 í ritröð Rannsóknarstofnunar í barna- og fjölskylduvernd . Að rannsóknunum stóð auk Sigrúnar þverfaglegur hópur fagfólks frá Krabbameinsfélagi Íslands og Landspítalanum.

Niðurstöður rannsóknanna sýndu að huga þarf mun betur að líðan og réttindum barna í þessum aðstæðum, bæði á spítala og í skóla. Eftir andlát foreldris þurfi enn fremur að gæta vel að því að viðhalda fjölskyldutengslum barna við nána vandamenn hins látna foreldris.

Erlendar rannsóknir hafa einnig leitt í ljós að áföll í bernsku, eins og það að missa foreldri, geta haft afdrifarík áhrif á barn til langframa, heilsu þess, námsframvindu og framtíð sem samfélagsþegns.

„Þessar lagabreytingar eru mikil réttarbót fyrir börn og það var löngu kominn tími á þær hér á landi. Þannig getum við tryggt börnum sem fá það erfiða verkefni að takast á við veikindi eða andlát foreldris rétt sinn. Í þeim tilfellum þar sem foreldri deyr, eru tengsl barna við fjölskyldu þess foreldris gríðarlega mikilvæg. Því miður rofna sú tengsl stundum, en með lagabreytingunni á að tryggja þeim þann rétt sinn,“ segir Gunnjóna Una Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi hjá Krabbameinsfélaginu sem stóð að rannsókninni fyrir hönd Krabbameinsfélagsins.


Fleiri nýjar fréttir

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?