Björn Teitsson 13. jan. 2021

Breytingum á neðri aldursmörkum fyrir brjóstaskimun frestað

  • Guðrún Birgisdóttir, geislafræðingur, í brjóstamyndatöku á Leitarstöð 2019.

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að breytingar á neðri mörkum skimunaraldurs fyrir brjóstakrabbameinum verði frestað. Hefja átti boðun í brjóstaskimun um 50 ára aldur, en nú verður horfið aftur til fyrra kerfis, þar sem 40-49 ára konur verða áfram boðaðar. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fresta breytingum á neðri mörkum aldursviðmiða vegna lýðgrundaðra skimana fyrir brjóstakrabbameinum. Samkvæmt breytingunum sem tóku gildi 1. janúar 2021 voru neðri mörk aldursviðmiða færð úr 40 ára aldri í 50 ár. Hefur ráðherra nú frestað þessari breytingu, sem þýðir að konur á aldrinum 40-49 ára koma til með að fá áfram boð í brjóstaskoðun líkt og var samkvæmt fyrra kerfi. Efri mörk aldursviðmiða höfðu verið færð úr 69 árum í 74 ár og verður engin breyting gerð þar á. 

Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu sem var birt á vef stjórnarráðsins segir að „kynna þurfi betur áformaðar breytingar og fagleg rök að baki þeim.“ Í tilkynningunni kemur einnig fram að Svandís Svavarsdóttir segist hvorki hafa forsendur né ástæður til að draga í efa faglegt mat sérfræðinga skimunarráðs eða embættis landlæknis um aldursviðmið krabbameinsskimana. Skiljanlega veki þó svo miklar breytingar upp spurningar hjá konum sem eiga í hlut. „Það er alveg ljóst af umræðum síðustu daga að þessa breytingu þarf að kynna betur og því hef ég ákveðið að fresta gildistöku þessarar breytingar varðandi skimun krabbameina í brjóstum,“ er haft eftir heilbrigðisráðherra í tilkynningunni. 

Krabbameinsfélagið fagnar þessari ákvörðun heilbrigðisráðherra. Fram kom í tilkynningu frá félaginu þann 11. janúar síðastliðinn að nauðsynlegt væri að rökstyðja betur ástæður slíkra breytinga og kynna fyrir konum á Íslandi. Það hefði sömuleiðis vakið upp spurningar að breytingarnar voru ekki í takti við evrópskar leiðbeiningar um skimunaraldur né heldur tillögur frá fagráði um brjóstakrabbamein. Þar var lagt til að neðri mörk skimunaraldurs væru 45 ár. Þessa ákvörðun þyrfti að rökstyðja. 


Fleiri nýjar fréttir

11. jan. 2021 : Fréttatilkynning vegna breytinga á skimunum fyrir krabbameinum

Nýtt fyrirkomulag skimana fyrir brjósta- og leghálskrabbameinum tók gildi 1. janúar 2021. Krabbameinsfélagið leggur áherslu á virkt samtal við konur og alla þjóðina þegar kemur að skimunum. Skimunaraldri fyrir brjóstakrabbamein hefur verið breytt úr 40-69 í 50-74. 

Lesa meira
Áfengi

8. jan. 2021 : Því minna áfengi, því betra

Metsala var á áfengi í Vínbúðum árið 2020. Jafnvel þótt skýringuna megi finna í færri ferðum á veitingastaði eða Fríhöfnina, er rétt að staldra við og minna á að áfengisneysla er áhættuþáttur þegar kemur að krabbameinum. 

Lesa meira

5. jan. 2021 : Upplýsingar um niðurstöður úr skimun og skimunarsögu

Leitarstöð Krabbameinsfélagsins var lokað um áramót þegar skimun fyrir krabbameinum færðist til opinberra stofnana, í samræmi við ákvörðun heilbrigðisráðherra frá árinu 2019.


Lesa meira

4. jan. 2021 : Breytt fyrirkomulag skimana 2021

Í samræmi við ákvörðun heilbrigðisráðherra frá árinu 2019 fluttust skimanir fyrir krabbameinum til opinberra stofnana 1. janúar 2021. Upplýsingar um fyrirkomulagið, tímapantanir og fleira má fá hjá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana. Lesa meira

Var efnið hjálplegt?