Björn Teitsson 11. jan. 2021

Fréttatilkynning vegna breytinga á skimunum fyrir krabbameinum

Nýtt fyrirkomulag skimana fyrir brjósta- og leghálskrabbameinum tók gildi 1. janúar 2021. Krabbameinsfélagið leggur áherslu á virkt samtal við konur og alla þjóðina þegar kemur að skimunum. Skimunaraldri fyrir brjóstakrabbamein hefur verið breytt úr 40-69 í 50-74. 


-Áherslur Krabbameinsfélagsins til farsællar framtíðar-

Í byrjun árs 2021 tók í gildi nýtt fyrirkomulag um skimanir fyrir krabbameinum á Íslandi byggt á áliti skimunarráðs og Embættis landlæknis. Breytingin er samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráðherra frá árinu 2019. Skimanir sem fóru áður fram hjá Krabbameinsfélaginu eru nú á hendi opinberra stofnana. Var fyrirkomulaginu lýst í tilkynningu á heimasíðu heilbrigðisráðuneytisins þann 26. nóvember 2020.

Krabbameinsfélag Íslands langar að benda á nokkur atriði sem varða almenning í landinu.

Meginbreytingar

-Skimun fyrir krabbameinum í brjóstum

Aldurshópur kvenna sem verður boðið í skimun fyrir krabbameinum í brjóstum hefur nú breyst. Hann var 40-69 ára en verður nú 50-74 ára.

Krabbameinsfélagið fagnar því að efri aldursmörk skimana séu færð í 74 ár. Er það mikilvægt skref, en hér á landi greinast að meðaltali 25 brjóstakrabbamein á ári hjá konum á aldrinum 70-74 ára.

Ýmis atriði eru þó óljós varðandi hækkun skimunaraldurs.

Landlæknir hafði lagt til að farið yrði eftir evrópskum leiðbeiningum við skipulag skimana fyrir krabbameinum – en þar er mælt með skimun 45-49 ára kvenna. Fagráð um brjóstakrabbamein mælti einnig með því að hefja skimun við 45 ára aldur. Með nýju fyrirkomulagi víkja landlæknir og skimunarráð frá evrópsku leiðbeiningunum og áliti fagráðs um brjóstakrabbamein án þess að það sé rökstutt sérstaklega.

Samkvæmt upplýsingum frá Embætti landlæknis munu konur á aldrinum 40-49 ára, sem hafa verið boðaðar í skoðun samkvæmt kerfinu sem var í gildi fyrir áramót, hafa val um hvort þær haldi áfram að koma í skoðun á tveggja ára fresti eða bíða til fimmtugs. Afar mikilvægt er að konur viti af þessari breytingu og séu meðvitaðar um rétt sinn til að halda áfram skimunarferli, kjósi þær svo.

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbameinið hjá konum. Þótt lífslíkur hafa aukist mjög á undanförnum árum eru enn um 50 konur sem deyja vegna brjóstakrabbameins á hverju ári á Íslandi. Það er því til mikils að vinna að greina krabbameinið sem fyrst, bæði til að auka lífshorfur og takmarka íþyngjandi meðferðarúrræði.

Á tímabilinu 2015-2019 greindust árlega að meðaltali 31 brjóstakrabbamein hjá konum á aldrinum 40-49 ára. Reikna má með því að um þriðjungur þeirra meina hafi greinst í skimun. Mein sem greinast vegna einkenna eru að jafnaði lengra gengin en þau sem finnast við skimun. Af 40-49 ára konum með brjóstakrabbamein bera sennilega rúmlega 14% meðfædda stökkbreytingu í BRCA2-geni og fara þær konur nú flestar annað hvort í sérstakt eftirlit sem felst í árlegum myndgreiningum, eða í brjóstnám. Eftir standa hátt í 30 konur og reikna má með að hjá þriðjungi þeirra myndu meinin greinast í skimun ef hún væri til staðar.

Krabbameinsfélagið leggur áherslu á að gerðar verði leiðbeiningar um hvaða áhættuhópum standi til boða skimun á aldrinum 40-49 ára við þær breytingar sem nú hafa tekið gildi.

-Skimun fyrir krabbameini í leghálsi

Ekki eru gerðar breytingar á aldurshópi kvenna sem býðst skimun fyrir leghálskrabbameini, hann er óbreyttur, 23 – 65 ára. Með nýju fyrirkomulagi er þó sú breyting að HPV-mælingar verða gerðar hjá konum yfir 30 ára og frumurannsóknir gerðar í kjölfarið. Þessu fagnar Krabbameinsfélagið. Þá er einkennalausum konum á aldursbilinu 23-29 ára enn boðin skimun á þriggja ára fresti með hefðbundinni frumurannsókn.

Samkvæmt ummælum heilbrigðisráðherra á Alþingi verða rannsóknir á leghálssýnum fluttar úr landi, í það minnsta tímabundið. Þessi ráðstöfun verður að teljast afar hæpin þar sem sérþekking á frumurannsóknum er svo sannarlega fyrir hendi á Íslandi og nýr og öflugur tækjabúnaður til að mæla HPV-veirur á öruggan og skilvirkan hátt sömuleiðis.

Þá hafa allir aðilar sem komið hafa að breytingum á fyrirkomulagi skimana undirstrikað mikilvægi þess að halda í þann mannauð og þá sérhæfðu þekkingu sem er fyrir hendi.

Þá eru ótalin öryggissjónarmið um að flytja lífssýni íslenskra kvenna úr landi. Á Ísland að vera upp á önnur lönd komin? Hver fer með eignarhald á sýnum sem hafa verið greind? Hver verður biðtíminn eftir niðurstöðum rannsókna? Þessi óþarfa ráðstöfun og vannýting á sérfræðiþekkingu og dýrum tækjabúnaði hefur ekki verið rökstudd.

-Skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi

Mikill tími og fjármunir hjá Krabbameinsfélaginu og heilbrigðisyfirvöldum hafa þegar farið í undirbúning reglubundinnar skimunar fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi á undanförnum árum. Þessi krabbamein eru meðal algengustu meina hér á landi, annað algengasta meinið hjá körlum og þriðja algengasta hjá konum. Í hverri viku deyja 1-2 einstaklingar vegna þessara meina.

Ísland er nú þegar eftirbátur annarra Norðurlandaþjóða þegar kemur að skimunum fyrir krabbameinum í endaþarmi og ristli. Heilbrigðisráðuneytið hefur tilkynnt að hafinn verði undirbúningur að framkvæmd skimananna á Íslandi, verkefnið kostnaðarmetið og unnið í tengslum við fjármálaáætlun. Krabbameinsfélagið leggur áherslu á að verkefnið komist þegar í framkvæmd. Verkefnið hefur þegar verið undirbúið og miklir hagsmunir í húfi.

-Almennt: Verð og biðtími

Nú þegar hefur komið fram að gjald fyrir leghálsskimun verði það sama og komugjald á heilsugæslu eða 500 krónur frá 1. janúar 2021. Krabbameinsfélagið fagnar þessari breytingu sem er mikilvægt skref í átt að gjaldfrjálsri skimun. Á löngu tímabili, fyrir árið 2018, hafði komum kvenna í legháls-og brjóstaskoðun fækkað lítillega. Tvö síðustu ár var Krabbameinsfélaginu unnt að bjóða nýjum árgöngum gjaldfrjálsa skimun, meðal annars vegna erfðagjafar Láru Vigfúsdóttur. Það sýndi sig strax að gjaldfrjáls skimun er lykilatriði þegar kemur að þátttöku kvenna, 10% þeirra sem komu í fyrsta sinn í skimun fyrir brjóstakrabbameinum og 25% þeirra sem komu í fyrstu skimun fyrir leghálskrabbameini sögðust ekki hefðu mætt nema af því að skimunin var gjaldfrjáls. Afar brýnt er því að sambærileg breyting á komugjaldi verði einnig gerð á skimunum fyrir brjóstakrabbameini.

Krabbameinsfélagið hefur ítrekað bent á að biðtími eftir klínískum brjóstaskoðunum þ.e. skoðunum kvenna í kjölfar skimunar eða vegna einkenna er allt of langur. Evrópsk viðmið miða við skoðun innan 5 daga frá tilvísun. Nú er biðtíminn á Íslandi jafnan 5-6 vikur. Þetta þarf að leiðrétta strax. Auka þarf aðgengi kvenna með einkenni frá brjóstum að sérhæfðri þjónustu. Eðlilegt væri að byggja upp opna móttöku, göngudeild fyrir konur með einkenni frá brjóstum og með sögu um brjóstakrabbamein hjá „fyrsta stigs ættingja“, sem konur hefðu greiðan aðgang að. Ljóst er að með breytingu á aldursmörkum skimunar eykst þörfin fyrir slíka þjónustu.

Rétt er einnig að minna konur á, að árangur skimunar byggist mest á þátttöku þeirra. Því fleiri sem mæta, þeim mun meiri árangri verður náð í forvörnum gegn krabbameinum.

-Að lokum

Stjórn Krabbameinsfélagsins vill að lokum koma til skila innilegu þakklæti til alls þess starfsfólks Leitarstöðvarinnar sem sinnti sínum verkefnum af mikilli prýði, allt frá upphafi. Nú eru kaflaskil í sögu íslenskra heilbrigðismála. Krabbameinsfélagið hafði frumkvæði að því að hefja skimanir fyrir krabbameinum og hefur haft umsjón með þeim allt frá árinu 1964. Á nýliðnu ári var aðsókn í skimanir mjög góð þrátt fyrir samkomutakmarkanir vegna heimsfaraldurs og krefjandi aðstæður á haustmánuðum. Komum kvenna í leghálsskimanir fjölgaði um 13% milli áranna 2018 og 2019 og í brjóstaskimanir um 24%. Þegar tekið er tillit til lokana á árinu 2020 sést að sú aukna þátttaka hélst áfram þá. Á árinu 2020 voru komur kvenna í skimanir á vegum Leitarstöðvarinnar 31.000 talsins. Árangur leitar að leghálskrabbameini á Íslandi er með því besta sem þekkist í heiminum.

Starfsfólk Leitarstöðvarinnar hefur sýnt afburða þrautseigju og skilaði sínu starfi með miklum sóma og af þeirri fagmennsku og hugsjón sem einkennt hefur starf Krabbameinsfélagsins frá upphafi. 


Fleiri nýjar fréttir

5. des. 2023 : Aðstoð við að velja mat sem eykur heilbrigði og vellíðan

Við þurfum hjálp! Ákall til matvælaframleiðenda og sölu- og markaðsaðila matvæla. Mörg fyrirtæki standa sig vel þegar kemur að markaðssetningu á mat og drykkjarvöru. Sum fyrirtæki sem bjóða upp á heilsueflandi mat en einnig mat- og drykkjarvörur sem geta haft neikvæð áhrif á heilsu hlífa til dæmis börnum við markaðssetningu á slíkum vörum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Kírópraktorstöðin styrkir Bleiku slaufuna

Kírópraktorstöðin afhenti á dögunum 500.000 krónur til Krabbameinsfélagsins. Upphæðin er afrakstur af einstaklega vel heppnuðu Konukvöldi sem þau stóðu fyrir í tilefni af Bleikum október. Krabbameinsfélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn, sem kemur að góðum notum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Ný rannsókn styður við einstaklingssniðna meðferð

Ný íslensk rannsókn sem birtist í dag í npj Breast Cancer og var unnin í samstarfi Krabbameinsfélagsins við meinafræðideild og krabbameinslækningadeild Landspítala, og við Háskóla Íslands. 

Lesa meira

2. des. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira

1. des. 2023 : Minningarorð um Jón Þorgeir Hallgrímsson

Jón Þorgeir Hallgrímsson, læknir, fyrrverandi formaður Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags Reykjavíkur lést þann 21. nóvember sl., 92 ára að aldri. Jóns Þorgeirs er minnst hjá Krabbameinsfélaginu með mikilli virðingu og þakklæti. Aðstandendum vottar félagið innilega samúð. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?