Guðmundur Pálsson 2. feb. 2018

Áskorun og opið hús í tilefni af Alþjóð­lega krabba­meins­deginum 2018

Sunnudagurinn 4. febrúar er Alþjóðlegi krabbameinsdagurinn. Af því tilefni býður Krabbameinsfélag Íslands almenningi í heimsókn í Skógarhlíð 8 kl. 13:00-15:00. Félagið skorar einnig á stjórnvöld að beita sér fyrir auknum forvörnum gegn krabbameinum og hvetur almenning til að skrifa undir áskorunina.

Alþjóðakrabbameinssamtökin (UICC) hafa valið 4. febrúar ár hvert til að vekja athygli á baráttunni gegn krabbameinum. Nú er þriggja ára herferð samtakanna í hámarki, Við getum. Ég get. Herferðin miðar að því að fækka þeim sem greinast með krabbamein og minnka byrðar af völdum krabbameins á samfélagið.

„Á Alþjóðlega krabbameinsdeginum getum við öll velt fyrir okkur hvernig við getum látið til okkar taka í baráttunni gegn krabbameinum og þrýst á aðgerðir yfirvalda til að bjarga lífum og auka lífsgæði krabbameinssjúklinga,” segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands.

Lífstílsbreytingar á síðustu árum og áratugum hafa orðið til þess að fleiri eiga á hættu að greinast með krabbamein. Reykingar, óhollt mataræði og kyrrseta eru meðal helstu áhættuþátta fyrir krabbamein.

Almenningur getur haft áhrif á eigin heilsu með því að leggja áherslu á hreyfingu og hollt mataræði, taka þátt í skimun og þekkja einkenni krabbameina.

Krabbameinsfélag Íslands skorar á stjórnvöld að beita sér fyrir forvörnum sem felast meðal annars í hvatningu til heilbrigðra lífshátta. Mikilvægt er að yfirvöld sýni frumkvæði og stuðli þannig að því að færri greinist með krabbamein, samfélaginu öllu til hagsbóta.

Krabbameinsfélagið skorar á sveitarstjórnarfólk að gefa lýðheilsu meira vægi og efla forvarnir gegn krabbameinum með því meðal annars að:

  • banna reykingar á opinberum svæðum sveitarfélaga
  • hvetja til betri nýtingar svæða sem ætluð eru til hreyfingar og útivistar
  • hvetja til frekari hreyfingar hjá börnum með því að gefa hreyfingu meira vægi í skólastarfi
  • bjóða upp á hollan mat í leik- og grunnskólum
  • auðvelda einstaklingum sem búa við þröngan efnahag að stunda fjölbreytta hreyfingu 

Krabbameinsfélagið skorar einnig á þingmenn og ríkisstjórn að beita sér fyrir bættri lýðheilsu meðal annars með því að:

  • halda áfram þeirri vinnu sem hafin var við krabbameinsáætlun og ljúka henni hið fyrsta
  • banna reykingar á almannafæri
  • hefja skimun fyrir ristilkrabbameini
  • setja skýra stefnu og aðgerðaráætlun í tóbaksvörnum og setja lög um rafrettur
  • tryggja að áfengisauglýsingar verði áfram bannaðar og koma í veg fyrir duldar áfengisauglýsingar

Fræðsla um tengsl lífstíls og áhættu á krabbameinum er mikilvægt forvarnarskref. Krabbameinsfélagið hefur unnið fjölbreytt fræðsluefni sem nálgast má hér.

Undirskriftasöfnun

Krabbameinsfélagið stendur fyrir undirskriftasöfnun þar sem skorað er á stjórnvöld að grípa til aðgerða og láta verkin tala. Hægt er að skrifa undir hér.

Opið hús

Almenningi er boðið í heimsókn í hús Krabbameinsfélags Íslands, Skógarhlíð 8 í Reykjavík, sunnudaginn 4. febrúar. Kynning á starfsemi í húsinu fer fram í Ráðgjafarþjónustu og á Leitarstöð þar sem skoða má endurnýjaðan tækjabúnað til leitar að brjóstakrabbameini. Húsið er opið frá kl 13:00-15:00.

Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstandendur þeirra, fagnar deginum einnig með viðburðinum Perlað af Krafti í Hörpu kl. 13:00-17:00. Þar fer fram lokahnykkur í fjáröflunarátaki Krafts þar sem almenningi er boðið að perla armbönd við lifandi tónlist. 

WCD


Fleiri nýjar fréttir

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?