Björn Teitsson 29. maí 2021

Ánægjulegur aðal­fundur á 70 ára afmælis­ári Krabba­meins­félags Íslands

Aðalfundur Krabbameinsfélagsins fór fram á Selfossi laugardaginn 29. maí. Fundurinn var vel sóttur og þar voru samþykktar afar áhugarðar ályktanir, ein þeirra kveður á um 450 milljóna framlag til uppbyggingu nýrrar dagdeildar krabbameinssjúklinga við Landspítala. 

Aðalfundur Krabbameinsfélagsins fór fram í Oddfellow-húsinu á Selfossi í dag og fór hann einkar vel fram á þessu 70 ára afmælisári félagsins. Eftir að ársreikningur hafði verið samþykktur voru kynntar og samþykktar smávægilegar lagabreytingar. Breytingar urðu í stjórn félagsins þar sem Árni Einarsson og Halldóra Björg Sævarsdóttir ákváðu að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu sem aðalmenn og Svanhildur Ólafsdóttir kveður stjórnina sem varamaður. Í þeirra stað voru einróma kosin sem aðalmenn Hildur Björk Hilmarsdóttir, sem hefur setið sem varamaður undanfarin tvö ár, og Magnús Gunnarsson. Varamenn í stjórn voru kosin Gísli Álfgeirsson og Hildur Baldursdóttir.

IMG-2355

Stjórn Krabbameinsfélagsins: Kristín Halldórsdóttir, Sigurður Hannesson, Magnús Gunnarsson, Gísli Álgeirsson (varamaður), Valgerður Sigurðardóttir (formaður), Sigríður Zoëga og Þorsteinn Pálsson. Hildi Björk Hilmarsdóttur vantar á myndina. 

Sigurður Hannesson, stjórnarmaður, kynnti þá til leiks ályktun, eða tillögu, um gjöf Krabbameinsfélagsins til þjóðarinnar, um allt að 450 milljóna framlag til byggingu nýrrar dagdeildar fyrir krabbameinssjúklinga við Landspítala. Framlagið er háð því að stjórnvöld leggist á árar með Krabbameinsfélaginu og setji málið í forgang þannig að ný dagdeild verði tekin í notkun árið 2024. Tillagan var samþykkt með lófataki.

Önnur ályktun var kynnt af Höllu Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra Krabbameinsfélagsins, um að lýsa yfir þungum áhyggjum af stöðu krabbameinsskimana. Eftir að skimanir fyrir bæði legháls – og brjóstakrabbameinum var færð til opinberra stofnana hefur gengið illa að koma á skilvirku kerfi sem konur hafa tekið að vantreysta. Því verður að breyta strax. Sömuleiðis var lýst yfir vonbrigðum með að lýðgrunduð skimun fyrir ristil- og endaþarmskrabbameinum er ekki enn hafin, þrátt fyrir að það hafi staðið til síðan árið 2016. Miklu fé og starfskröftum hefur verið varið í undirbúning verkefnisins af hálfu Krabbameinsfélagsins sem óskar nú eftir að sjá árangur alls undirbúningsstarfsins. Var sú ályktun einnig samþykkt með lófataki.

Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, hélt erindi og kynnti starfsemi stofnunarinnar og þá sérstaklega með tilliti til krabbameinsþjónustu. Jóhanna Eyrún Torfadóttir kynnti þá drög að niðurstöðum úr Áttavitanum, einni umfangsmestu rannsókn sem ráðist hefur verið í á högum og líðan íslenskra krabbameinssjúklinga og aðstandenda á tímabilinu 2015-2019. Fundi lauk rétt um hádegi og við tók heimsókn til Krabbameinsfélags Árnessýslu sem fagnar einmitt 50 ára afmæli í ár. Óskar félagið Árnesingum innilega til hamingju með stórafmælið.

Frekari upplýsingar um aðalfund Krabbameinsfélagsins má finna hér:

https://www.krabb.is/starfsemi/um-felagid/adalfundir/adalfundur-29.-mai-2021


Fleiri nýjar fréttir

9. jún. 2023 : Láttu mig vita ef ég get gert eitthvað fyrir þig

Þegar einhver í kringum okkur greinist með krabbamein er eðlilegt að upplifa óöryggi. þótt flestir vilji leggja sitt af mörkum til að vera til staðar getur óttinn við að segja ekki réttu hlutina eða að vita ekki hvað á að segja leitt til þess að jafnvel verði minna samband við viðkomandi en áður.

Lesa meira

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?