Björn Teitsson 29. maí 2021

Ánægjulegur aðal­fundur á 70 ára afmælis­ári Krabba­meins­félags Íslands

Aðalfundur Krabbameinsfélagsins fór fram á Selfossi laugardaginn 29. maí. Fundurinn var vel sóttur og þar voru samþykktar afar áhugarðar ályktanir, ein þeirra kveður á um 450 milljóna framlag til uppbyggingu nýrrar dagdeildar krabbameinssjúklinga við Landspítala. 

Aðalfundur Krabbameinsfélagsins fór fram í Oddfellow-húsinu á Selfossi í dag og fór hann einkar vel fram á þessu 70 ára afmælisári félagsins. Eftir að ársreikningur hafði verið samþykktur voru kynntar og samþykktar smávægilegar lagabreytingar. Breytingar urðu í stjórn félagsins þar sem Árni Einarsson og Halldóra Björg Sævarsdóttir ákváðu að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu sem aðalmenn og Svanhildur Ólafsdóttir kveður stjórnina sem varamaður. Í þeirra stað voru einróma kosin sem aðalmenn Hildur Björk Hilmarsdóttir, sem hefur setið sem varamaður undanfarin tvö ár, og Magnús Gunnarsson. Varamenn í stjórn voru kosin Gísli Álfgeirsson og Hildur Baldursdóttir.

IMG-2355

Stjórn Krabbameinsfélagsins: Kristín Halldórsdóttir, Sigurður Hannesson, Magnús Gunnarsson, Gísli Álgeirsson (varamaður), Valgerður Sigurðardóttir (formaður), Sigríður Zoëga og Þorsteinn Pálsson. Hildi Björk Hilmarsdóttur vantar á myndina. 

Sigurður Hannesson, stjórnarmaður, kynnti þá til leiks ályktun, eða tillögu, um gjöf Krabbameinsfélagsins til þjóðarinnar, um allt að 450 milljóna framlag til byggingu nýrrar dagdeildar fyrir krabbameinssjúklinga við Landspítala. Framlagið er háð því að stjórnvöld leggist á árar með Krabbameinsfélaginu og setji málið í forgang þannig að ný dagdeild verði tekin í notkun árið 2024. Tillagan var samþykkt með lófataki.

Önnur ályktun var kynnt af Höllu Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra Krabbameinsfélagsins, um að lýsa yfir þungum áhyggjum af stöðu krabbameinsskimana. Eftir að skimanir fyrir bæði legháls – og brjóstakrabbameinum var færð til opinberra stofnana hefur gengið illa að koma á skilvirku kerfi sem konur hafa tekið að vantreysta. Því verður að breyta strax. Sömuleiðis var lýst yfir vonbrigðum með að lýðgrunduð skimun fyrir ristil- og endaþarmskrabbameinum er ekki enn hafin, þrátt fyrir að það hafi staðið til síðan árið 2016. Miklu fé og starfskröftum hefur verið varið í undirbúning verkefnisins af hálfu Krabbameinsfélagsins sem óskar nú eftir að sjá árangur alls undirbúningsstarfsins. Var sú ályktun einnig samþykkt með lófataki.

Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, hélt erindi og kynnti starfsemi stofnunarinnar og þá sérstaklega með tilliti til krabbameinsþjónustu. Jóhanna Eyrún Torfadóttir kynnti þá drög að niðurstöðum úr Áttavitanum, einni umfangsmestu rannsókn sem ráðist hefur verið í á högum og líðan íslenskra krabbameinssjúklinga og aðstandenda á tímabilinu 2015-2019. Fundi lauk rétt um hádegi og við tók heimsókn til Krabbameinsfélags Árnessýslu sem fagnar einmitt 50 ára afmæli í ár. Óskar félagið Árnesingum innilega til hamingju með stórafmælið.

Frekari upplýsingar um aðalfund Krabbameinsfélagsins má finna hér:

https://www.krabb.is/starfsemi/um-felagid/adalfundir/adalfundur-29.-mai-2021


Fleiri nýjar fréttir

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?