Aðalfundur 29. maí 2021

Hér að neðan er að finna gögn vegna aðalfundar Krabbameinsfélags Íslands 29. maí 2021.

Aðalfundarboð


Dagskrá fundarins

 

  • kl. 09:00 Morgunverður
  • kl. 09:30 Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands

Dagskrá fundarins er samkvæmt lögum félagsins:

  1. Skýrsla stjórnar fyrir síðastliðið starfsár
  2. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar
  3. Skýrslur aðildarfélaga
  4. Lagabreytingar
  5. Stjórnarkjör
  6. Tveir endurskoðendur kosnir og einn til vara
  7. Fimm menn kosnir í uppstillinganefnd
  8. Önnur mál

  • kl. 12:00 Hádegisverður
  • kl. 13:15 Heimsókn til Krabbameinsfélags Árnessýslu sem á 50 ára afmæli þann 29. maí. Formaður félagsins kynnir félagsstarfið í húsnæði félagsins að Eyravegi 31 og býður í afmæliskaffi.

Tillögur að fundarstjóra og ritara fundarins

 

  • Fundarstjóri: 
  • Fundarritari: 

Skýrsla stjórnar


Endurskoðaðir reikningar félagsins

 Skýrslur aðildarfélaga


Lagabreytingar


Tillögur stjórnar Krabbameinsfélags Íslands til breytinga á lögum félagsins.

Stjórnarkjör


Frá uppstillingarnefnd:

Uppstillingarnefnd Krabbameinsfélags Íslands hefur unnið samkvæmt vinnureglum félagsins um kjör í stjórn félagsins og kosningu félagslegra endurskoðenda (skoðunarmanna), sem voru samþykktar á aðalfundi félagsins 13. maí 2006. Á aðalfundi 2021 þarf að kjósa formann til tveggja ára, þrjá aðalmenn til tveggja ára og tvo varamenn í stjórn til eins árs auk þriggja endurskoðenda (skoðunarmenn) þar af einn til vara.

Nefndin leggur eftirfarandi tillögu sína um kjör í stjórn félagsins beint fyrir aðalfund þann 29. maí 2021:

Formaður til tveggja ára:

Gra-valgerdur2Valgerður Sigurðardóttir, sérfræðingur í krabbameins- og líknarlækningum býður sig fram til áframhaldandi formennsku í Krabbameinsfélagi Íslands. Valgerður er með doktorspróf í lífsgæðarannsóknum innan krabbameinslækninga og hefur í rúm 20 ár verið yfirlæknir líknardeildar Landspítala. Valgerður var fyrst kjörin varamaður í stjórn félagsins árið 2015 og tók sæti aðalmanns síðar sama ár. Valgerður var varaformaður félagsins árið 2016 og tók við formennsku árið 2017.

Meðstjórnendur til tveggja ára:

Gra-hildur2Sigríður Zoëga, hjúkrunarfræðingur á Landspítala og dósent við Háskóla Íslands gefur kost á sér til áframhaldandi þátttöku í stjórn félagsins. Sigríður var kosin aðalmaður í stjórn árið 2019 en hafði áður verið varamaður árin 2017 og 2018.





Gra-hildur22Hildur Björk Hilmarsdóttir
gefur nú kost á sér sem aðalmaður í stjórn Krabbameinsfélags Íslands í fyrsta sinn en hefur verið varamaður í stjórn frá árinu 2019.

Hildur Björk stofnaði Kraft á sínum tíma, árið 1999, eftir að hún sjálf greindist með bráðahvítblæði og kom að uppbyggingu frá fyrstu árum félagsins. Hildur vann einnig sem söfnunarstjóri Landssöfnunar Krabbameinsfélagsins 3. mars 2001 og vann síðan sem verkefnastjóri á samskiptasviði KÍ í 3 ár. Það starf fólst í að fræða og aðstoða aðildarfélög KÍ við að stofna stuðningshópa og efla tengsl aðildarfélaganna við KÍ og ýmsum öðrum verkefnum. Hildur er því kunn störfum beggja félaganna.

Hildur starfar í dag sem vörustjóri hjá Stuðlabergi heilbrigðistækni sem selur hjálpartæki. Hildur hefur meðal annars starfað hjá Össuri og núna síðasta hjá Rauða krossinum sem sviðsstjóri Samskiptasviðs áður en hún hóf störf hjá Stuðlabergi.

Gra-magnus2

Magnús Gunnarsson gefur kost á sér til setu í stjórn Krabbameinsfélags Íslands.

Ég er stjórnarmaður í Krabbameinsfélagi höfuðborgarsvæðisins en sat áður í stjórn Krabbameinsfélags Hafnarfjarðar.

Ég er kvæntur Elísabetu Karlsdóttur, ferðafræðingi, og við eigum 3 börn og 7 barnabörn.

Eftir nám í Verslunarskóla Íslands starfaði ég um 20 ára skeið hjá Hval hf., hjá Sjóvá og tengdum félögum í 15 ár og frá árinu 2011 hef ég verið framkvæmdastjóri Knattspyrnufélagsins Hauka. 

Fyrrverandi bæjarfulltrúi og bæjarstjóri í Hafnarfirði.

Einn af stofnendum Lionsklúbbsins Ásbjarnar, félagi í Oddfellowreglunni, formaður sóknarnefndar Hafnarfjarðarkirkju og formaður stjórnar Kirkjugarðs Hafnarfjarðar.

Formaður Skógræktarfélags Íslands í 10 ár, formaður Eigendafélags Úlfljótsvatns og gamall skáti. Hef setið í fjölmörgum nefndum, ráðum og stjórnum, í gegnum tíðina.

Varamenn til eins árs:

Gra-gisli2Gísli Álfgeirsson verkfræðingur gefur kost á sér sem varamaður í stjórn.

Ég er ekkill með 3 börn. Stelpu sem eru 24 ára og tvo stráka sem eru 16 ára og 13 ára. Ég missti eiginkonu mína úr brjóstakrabbameini árið 2019, eftir 7 ára erfiða baráttu við brjóstakrabbamein.


Ég hef verið stuðningsfulltrúi fyrir Kraft síðustu 3 ár og er nú varamaður í stjórn Krafts. Krabbamein hefur fyllt stóran hlut í mínu lífi og vil ég fá að berjast fyrir þá sem greinast og aðstandendur þeirra. Annars er ég glaður að eðlisfari, horfi björtum augum til framtíðarinnar. Er sanngjarn, góðhjartaður og vil láta til mín taka í málum sem ég brenn fyrir. Ég tel að ég eigi full erindi og mikla orku til að berjast fyrir málefnum krabbameinsgreindra og aðstandendum þeirra.

Gra-hildur-22Hildur Baldursdóttir, bókasafns- og upplýsingafræðingur gefur kost á sér sem varamaður í stjórn.

Ég heiti Hildur Baldursdóttir 64 ára gift og á fjórar dætur og sjö barnabörn. Er bókasafns- og upplýsingafræðingur að mennt og hef starfað sem slík, lengst af hjá Borgarbókasafni Reykjavíkur sem barnabókavörður og við viðburðastjórn.

 
Félagsstörf mín hafa að mestu tengst dætrunum og þeirra áhugamálum. Hef ekki tölu á þeim foreldraráðum sem ég hef setið í, né uppákomum sem ég hef skipulagt sem slík.

2013 greindist ég með brjóstakrabbamein og komst fljótlega í kynni við frábæra þjónustu Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins. Undanfarin ár hef ég setið í stjórn Brjóstaheilla í von um að geta stutt þær konur sem greinast með brjóstakrabbamein.

Mér er það mikill heiður að bjóða mig fram í varastjórn Krabbameinsfélagsins. Félagið stendur frammi fyrir miklum áskorunum og tækifærum sem verður gaman að fylgjast með og taka þátt í.

Kjör tveggja endurskoðenda og eins til vara


Birna Guðmundsdóttir, Jón Auðunn Jónsson og Ólafur Dýrmundsson gefa öll kost á sér til áframhaldandi starfa sem félagskjörnir endurskoðendur. Birna og Jón Auðunn voru fyrst kosin árið 2014 og Ólafur árið 2017.

Endurskoðendur til eins árs:

  • Birna Guðmundsdóttir
  • Jón Auðunn Jónsson

Endurskoðandi til vara, til eins árs: 

  • Ólafur Dýrmundsson

Kjör fimm manna í uppstillingarnefnd


Guðrún Sigurjónsdóttir, Ragnheiður Davíðsdóttir og Þráinn Þorvaldsson gefa öll kost á sér til áframhaldandi starfa í uppstillingarnefnd. Guðrún var kjörin í nefndina árið 2018 en Ragnheiður árið 2020 og Þráinn árið 2019.

Auk þess gefa kost á sér til starfa í uppstillingarnefnd:

  • Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands og fyrrverandi stjórnarmaður hjá Krabbameinsfélagi Íslands
  • Jón Þorkelsson, viðskiptafræðingur. Jón er formaður Stómasamtakanna og fyrrverandi stjórnarmaður hjá Krabbameinsfélagi Íslands.

Önnur mál

Ályktun aðalfundar

 

Ályktun aðalfundar Krabbameinsfélags Íslands á 70 ára afmæli félagsins, haldinn á Selfossi 29. maí 2021.

Í byrjun árs 2019 ákvað heilbrigðisráðherra, m.a. á grundvelli álits skimunarráðs að færa skimanir fyrir krabbameinum til opinberra stofnana. Markmið ráðherra með breytingum var að ná enn betri árangri í baráttunni gegn krabbameini. Skimun er ein lykilforsenda þess mikla árangurs sem hefur orðið varðandi legháls- og brjóstakrabbamein hér á landi.

Til að hámarka árangur af skimunum þarf reglubundin þátttaka þeirra sem boðið er í skimun að vera sem mest og gæði þjónustunnar sem best. Mikil, reglubundin þátttaka í skimunum fæst helst þegar þjóðin er upplýst um gagnsemi skimunarinnar, þegar þjónustan er aðgengileg öllum, gjaldfrjáls, skilvirk og fólk ber traust til hennar. Ef árangur á að nást þarf allt ofangreint að vera uppfyllt og samráð við notendur skiptir máli. Þetta kom m.a. fram í áliti skimunarráðs þegar tilkynnt var um breytingarnar.

Hálft ár er liðið frá því að skimanir færðust til opinberra stofnana. Augljóst er að undirbúningur breytinganna var ekki fullnægjandi. Svo virðist sem lykilákvarðanir hafi ekki verið teknar tímanlega, fræðsla og upplýsingar til kvenna eru ekki nægjanlegar, skimunarskrá er ekki tilbúin og niðurstöður berast seint, svo eitthvað sé nefnt. Mikilvægt er að ferlið sé áreiðanlegt, skilvirkt og gegnsætt. Svo virðist ekki vera nú og er þörf á skjótum viðbrögðum til að endurskapa traust til mikilvægrar þjónustu.

Hjá Krabbameinsfélaginu voru bundnar miklar vonir við að í kjölfar breytinganna yrði hafin skipulögð skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi eins og stefnt hefur verið að frá aldamótum og af auknum þunga frá árinu 2016. Alþjóðastofnanir mæla með skimuninni, sem bjargar mannslífum. Fréttir af undirbúningi hafa ekki borist en ráðherra hefur nefnt að fjármagni sé ætlað til verkefnisins á þessu ári.

Aðalfundurinn ítrekar áskorun sína til heilbrigðisráðherra frá aðalfundi félagsins í júní í fyrra, um að setja þegar í stað fram tímasetta og fjármagnaða áætlun um skipulagða skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi hér á landi. Ísland er eina landið á Norðurlöndunum þar sem skimuninni hefur ekki verið komið á.

Aðalfundurinn lýsir einnig yfir áhyggjum af því hvernig til hefur tekist með flutning skimana til opinberra stofnana, sérstaklega leghálsskimana. Konur á Íslandi hafa í áratugi þegið boð í skimanir fyrir krabbameinum, sem hefur dregið úr dánartíðni af völdum þeirra. Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands skorar á heilbrigðisyfirvöld að upplýsa almenning um hvenær og hvernig fyrirkomulagi skimana verði komið í gott horf. Fundurinn hvetur jafnframt konur til að standa áfram vörð um heilsu sína og mæta í skimun.

Skimun skiptir máli.


Tillaga aðalfundar


Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands, haldinn á 70 ára afmæli félagsins, á Selfossi 29. maí 2021 lýsir yfir þungum áhyggjum af aðstöðuleysi dagdeildar blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala. Landspítalinn er í lykilhlutverki varðandi greiningu og meðferð krabbameina hér á landi og flestir sem fá lyfjameðferð við krabbameinum fá hana á dagdeildinni. Deildin er staðsett í elsta hluta Landspítalans í húsnæði sem bæði er allt of lítið og hentar illa fyrir starfsemina.

Ef halda á þeim góða árangri sem náðst hefur hér á landi í baráttunni við krabbamein verður aðstaða til meðferðar fyrir sjúklinga og aðstandendur að vera fyrsta flokks. Til að laða að sérhæft starfsfólk og gera því kleift að sinna sínu starfi á bestan hátt verður aðstaðan að sama skapi að standast samanburð við það sem best gerist erlendis.

Vandinn er brýnn og hann verður að leysa hið fyrsta. Spár benda til 30% aukningar á fjölda krabbameinstilvika á næstu 15 árum. Sífellt betri árangur, þar sem fleiri lifa eftir að hafa greinst með krabbamein kallar einnig á aukið eftirlit og meðferð. Á Landspítala hefur verið unnin hugmynd að lausn til framtíðar, sem er tiltölulega auðvelt að hrinda í framkvæmd.

Aðalfundurinn samþykkir að styðja við Landspítala og heilbrigðisþjónustu á Íslandi með myndarlegum hætti, almenningi til heilla. Stuðningurinn felst í að félagið veiti 350 milljónum af eigin fé auk allt að 100 milljóna úr sérstakri fjáröflun til uppbyggingar nýrrar dagdeildar blóð- og krabbameinslækninga á Landspítalanum.

Stuðningurinn er háður því að stjórnvöld leggist á árar með félaginu og Landspítalanum og setji bygginguna í forgang, þannig að hægt verði að taka nýja deild í notkun árið 2024.

Leysum málið – lausnin er til!



Var efnið hjálplegt?