Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 22. jan. 2019

75% aukning á símtölum til ráðgjafa

  • Radgjafarthjonusta 2019
    Starfsfólk Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins 2019

Símtölum til Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins fjölgaði um 75% milli áranna 2017 og 2018 eða um 850 og þeim sem komu í viðtal til ráðgjafa fjölgaði um 27%, úr 1.121 í 1.425. Langflestir sem leita eftir ráðgjöf eru á aldrinum 30-69 ára, flestir á aldrinum 60-69 ára.

Ráðgjafar Krabbameins­félagsins veita ýmis konar fræðslu, ráðgjöf og stuðning við fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur þess. Auk þess er fjöldi námskeiða á dagskrá í viku hverri. 

„Það er virkilega ánægjulegt að sjá þessa þróun og hún staðfestir þá tilfinningu sem við höfum haft að fleiri viti af okkur og þeirri þjónustu sem við bjóðum upp á,“ segir Sigrún Lillie Magnúsdóttir, forstöðumaður Ráðgjafarþjónustunnar: „ Ég finn fyrir miklu þakklæti þeirra sem leita til okkar. Margir lýsa betri líðan eftir að fá tækifæri til að tjá sig og fá góð ráð í veikindaferlinu. Í þessum aðstæðum hafa langflestir þörf fyrir stuðning, það er svo margt hægt að gera og mikilvægt að aðstoða fólk við að finna sína leið, oft í flóknum aðstæðum.  Verst þykir okkur þegar fólk segir að það hefði viljað vita af okkur fyrr. Þess vegna höfum við undanfarið lagt mikla áherslu á að kynna þjónustuna og munum halda því áfram svo þeir sem á þurfa að halda geti leitað til okkar eftir stuðningi eða ráðgjöf.“

Sigrun-Lillie-portret

Sigrún Lillie Magnúsdóttir er forstöðumaður Ráðgjafarþjónustunnar.

Það fjölgaði í ráðgjafarteyminu á síðasta ári í kjölfar átaks Bleiku slaufunnar 2017 en það var 10 ára afmælisár Ráðgjafarþjónustunnar.  Mikil vinna var lögð í að kynna starfsemina og söfnunarféð rann til starfsemi þjónustunnar. Fjöldi starfsmanna tvöfaldaðist, fór úr fjórum í átta, í mismiklu starfshlutfalli.  Með aukningunni er komin meiri breidd í þekkingu teymisins sem samanstendur af félagsráðgjöfum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingi og kynfræðingi.

„Flest viðtölin snúa að upplifun og þörfum hvers og eins, þau geta varðað meðal annars einkenni, hvert á að leita, samskipti, álag og fleira. Mörgum vantar einhvers konar vegvísi um það ferli sem er að hefjast og aðstandendur vilja vita hvað þeir geti gert fyrir þá sem eru nýgreindir,“ segir Sigrún.

Mikill máttur í stuðningnum

„Réttindamál er gjarnan fyrsta leiðin inn hjá mörgum og oft þykir fólki auðveldara að leita eftir ráðgjöf um réttindi sín heldur en að tala um tilfinningar. En þegar þeir átta sig á því sem er í boði er auðveldara að leita eftir frekari stuðningi, ráðgjöf, sækja námskeið eða fyrirlestra,“ segir Sigrún: „Það er líka mikill máttur sem fylgir því að hitta jafningja og tala við aðra sem hafa verið í svipuðum sporum. Það gefur fólki mjög mikið, bæði þeim sem þiggja og líka þeim sem deila.“

Þurfum að ná betur til unga fólksins

Í febrúar hefst námskeið í núvitund fyrir ungt fólk á aldrinum 16-22 ára sem hefur misst náinn ættingja. Þetta er í þriðja sinn sem námskeiðið er haldið og hefur það gengið vonum framar. „Allir sem hafa tekið þátt lýsa því hvað þetta hefur verið mikilvægt í sorgarferlinu. En við höfum átt erfitt með að ná til þessa hóps sem er svo mikil synd því námskeiðið virðist gagnast vel. Nú erum við hins vegar að leita nýrra leiða og vonumst til að geta boðið fleiri ungmenni velkomin á þetta námskeið í framtíðinni.“ 

Námskeið í boði

Auk ráðgjafar og fyrirlestra eru fjölbreytt námskeið á dagskrá Ráðgjafarþjónustunnar. Þar eru til dæmis í boði námskeið í jóga nidra,  slökun, þreytu, kynheilbrigðisnámskeið, svefnnámskeið og stuðningur við þá sem hafa lokið krabbameinsmeðferð. Einnig eru ýmsir stuðningshópar í starfandi bæði á vegum Krabbameinsfélagsins, Krafts og Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins. Nánari upplýsingar er að finna á krabb.is.

„Það er gott að byrja á einu námskeiði því oft finnur fólk svo fleiri námskeið eða hópa sem geta komið að góðum notum,“ segir Sigrún að lokum og hvetur þá sem hafa einhverjar spurningar eða vilja aðstoð að hafa samband í síma 800 4040 eða mæta í Skógarhlíð 8. 

Ráðgjafarþjónustan er opin alla virka daga kl. 9-16 nema fimmtudaga þegar opið er til kl.18.


Fleiri nýjar fréttir

2. okt. 2023 : Takk fyrir samveruna og stuðninginn

Það er óhætt að segja að gleði, samhugur og samstaða hafi ráðið ríkjum á opnunarviðburði Bleiku slaufunnar sem haldinn var í Þjóðleikhúsinu þann 28. september. Myndirnar sem hér fylgja segja allt um stemminguna.

Lesa meira

29. sep. 2023 : Verum bleik - fyrir okkur öll

Í dag, föstudaginn 29. september, hefst árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands, Bleika slaufan. Í ár beinir Krabbameinsfélagið athyglinni að mikilvægi samstöðunnar og bleika litarins sem tákns um hana.

Lesa meira

29. sep. 2023 : Slökkti fyrst eld og keypti svo Bleiku slaufuna

Það hefur vonandi ekki farið framhjá neinum að sala Bleiku slaufunnar hófst á miðnætti í dag, 29. september. Nágranni Krabbameinsfélagsins, Bergrún Ingimarsdóttir, varð fyrst til að tryggja sér slaufu ársins. Það mátti þó litlu muna að það tækist ekki vegna elds sem hún þurfti að ráða niðurlögum að.

Lesa meira

27. sep. 2023 : Bleika slaufan 2023

Gullsmiðirnir Lovísa Halldórsdóttir (by lovisa) og Unnur Eir Björnsdóttir (EIR) eru hönnunarteymið á bak við Bleiku slaufuna í ár. Það er óhætt að segja að þeim hafi tekist ætlunarverk sitt, en slaufan í ár er sú bleikasta sem við höfum séð lengi

Lesa meira

26. sep. 2023 : "Mikilvægt að segja líka frá því sem gengur vel"

Styttri legutími, skjótari bati, lægri dánartíðni og betri lifun. Ný aðferðafræði við skurðaðgerðir við lungnakrabbameini var tekin upp nærri því á einni nóttu og hefur gefið reglulega góða raun í baráttunni gegn lungnakrabbameini. Tómas Guðbjartsson skurðlæknir og Viktor Ásbjörnsson læknanemi segja hér frá byltingarkenndri þróun í skurðaðgerðum við lungnakrabbameini og mikilvægi rannsókna og stuðnings við þær fyrir framþróun í málaflokkinum. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?