Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 8. maí 2018

Yfirlýsing frá fyrrverandi formönnum KÍ

  • Fyrrverandi formenn: ​Sigurður Björnsson,​ Sigríður Snæbjörnsdóttir,​ Jakob Jóhannsson og Sigrún Gunnarsdóttir​.
    Fyrrverandi formenn: ​Sigurður Björnsson,​ Sigríður Snæbjörnsdóttir,​ Jakob Jóhannsson og Sigrún Gunnarsdóttir​.

Í dag birtist í Fréttablaðinu yfirlýsing frá fjórum fyrrverandi formönnum stjórnar Krabbameinsfélags Íslands þar sem þeir hafna staðhæfingum fyrrverandi sviðsstjóra Leitarsviðs félagsins, Kristjáns Oddssonar, sem fram komu í fréttaskýringaþættinum Kveik 24. apríl. 

Undir yfirlýsinguna skrifa Sigurður Björnsson, Sigríður Snæbjörnsdóttir, Jakob Jóhannsson og Sigrún Gunnarsdóttir, en þau voru formenn félagsins frá árunum 1998 til 2017. Þau telja að alvarlegustu ósannindin séu fullyrðingar um að misfarið hafi verið með fé til krabbameinsskimunar. Þar tali staðreyndir sínu máli. Fjórmenningarnir hafna þeim alvarlegu aðdróttunum að KÍ hafi ekki borið heilsu og velferð almennings fyrir brjósti. 

Hér má sjá yfirlýsinguna í heild sinni:

Ósannindum um Krabbameinsfélagið hafnað

Við undirrituð, fjórir fyrrverandi formenn stjórnar Krabbameinsfélags Íslands (KÍ), höfnum alfarið staðhæfingum Kristjáns Oddssonar, fyrrverandi sviðsstjóra leitarsviðs Krabbameinsfélagsins, sem gegndi einnig starfi forstjóra árið 2016, sem hann setti fram í fréttaþættinum Kveik þann 24. apríl sl. Kristjáni var vísað úr starfi á haustmánuðum 2017 eftir erfið samskipti.

Fjölmargar yfirlýsingar Kristjáns eru rangar. Alvarlegustu ósannindin eru fullyrðingar um að misfarið hafi verið með fé til krabbameinsskimunar og því varið til óskyldra málefna af hálfu Krabbameinsfélagsins. Þar tala staðreyndir hins vegar sínu máli. Heilbrigðisyfirvöld greiða KÍ fyrir skimun á grundvelli þjónustusamnings, sem byggir á ítarlegri kröfulýsingu. Kostnaður við rekstur Leitarstöðvarinnar er aðskilinn frá öðrum rekstri félagsins. Sameiginlegum kostnaði er skipt niður á rekstrareiningar og hefur svo verið í u.þ.b. 40 ár. Sérgreindir ársreikningar Leitarstöðvarinnar eru ávallt endurskoðaðir af löggiltum endurskoðendum og sendir eftirlitsaðilunum Sjúkratryggingum Íslands, velferðarráðuneyti, Ríkisendurskoðun og Ríkisskattstjóra. Engar athugasemdir hafa verið gerðar af hálfu eftirlitsaðila við framkvæmd samningsins. 

KÍ hefur allt frá stofnun félagsins árið 1951 borið heilsu og velferð almennings fyrir brjósti. Að halda öðru fram eru alvarlegar aðdróttanir og hrein fjarstæða. KÍ hefur verið í fararbroddi á Íslandi fyrir skimun fyrir krabbameinum og lagt áherslu á að henni sé best borgið þar sem áhugi, þekking og aðstæður uppfylla kröfur.  Framundan er endurskoðun þjónustusamningsins sem býður upp á tækifæri til að ræða um framtíðarfyrirkomulag skimunarinnar á málefnalegan hátt.

KÍ hlýtur á næstunni að þurfa að taka til skoðunar hvort félagið sé reiðubúið til að taka að sér enn á ný þá miklu ábyrgð sem skimun fyrir krabbameinum fylgir. Ef aðeins er gerður samningur til mjög skamms tíma mun það skapa óviðunandi óvissu meðal kvenna í landinu.

Sigurður Björnsson, formaður Krabbameinsfélags Íslands 1998 - 2009

Sigríður Snæbjörnsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Íslands 2009 – 2013,

Jakob Jóhannsson, formaður Krabbameinsfélags Íslands 2013 – 2016,

Sigrún Gunnarsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Íslands 2016 – 2017.


Fleiri nýjar fréttir

1. des. 2023 : Minningarorð um Jón Þorgeir Hallgrímsson

Jón Þorgeir Hallgrímsson, læknir, fyrrverandi formaður Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags Reykjavíkur lést þann 21. nóvember sl., 92 ára að aldri. Jóns Þorgeirs er minnst hjá Krabbameinsfélaginu með mikilli virðingu og þakklæti. Aðstandendum vottar félagið innilega samúð. 

Lesa meira

28. nóv. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira
Ljósmynd: Thule Photos

28. nóv. 2023 : Dýrmætt að vita að maður stendur ekki einn í þessu

Flestir sem hafa upplifað það að missa einhvern náinn sér eru líklega sammála um að sorgin er erfið og þungbær. Sorg barna er sérstaklega vandmeðfarin og það getur skipt máli fyrir úrvinnslu þeirra að fá réttan stuðning frá nærsamfélaginu. Hannes missti eiginkonu sína úr krabbameini árið 2022, en þau áttu tvær dætur saman. Hann segir hér frá sorgarúrvinnslunni og helstu úrræðum sem þau feðgin hafa nýtt sér, en þar á meðal er stuðningur Krabbameinsfélagsins við börn sem missa foreldri.

Lesa meira

28. nóv. 2023 : „Mig langaði til að taka þessa byrði og bera hana sjálf“

Rakel Ósk Þórhallsdóttir, eigandi vefverslunarinnar Central Iceland, hefur undanfarin þrjú ár stutt dyggilega við Bleiku slaufuna, en í heildina telur framlag hennar 7.385.000 kr. Rakel segir hér frá drifkraftinum á bak við verkefnið, en hún hefur persónulega tengingu við málstaðinn.

Lesa meira

23. nóv. 2023 : Fulltrúar Krabbameinsfélagsins á faraldsfæti

Um þessar mundir stendur Krabbameinsfélagið fyrir átaksverkefni sem miðar að því að fjölga í þeim góða hópi Velunnara sem styðja þétt við bakið á félaginu með mánaðarlegum framlögum. Í nóvember heimsækjum við Selfoss.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?