Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 8. maí 2018

Yfirlýsing frá fyrrverandi formönnum KÍ

  • Fyrrverandi formenn: ​Sigurður Björnsson,​ Sigríður Snæbjörnsdóttir,​ Jakob Jóhannsson og Sigrún Gunnarsdóttir​.
    Fyrrverandi formenn: ​Sigurður Björnsson,​ Sigríður Snæbjörnsdóttir,​ Jakob Jóhannsson og Sigrún Gunnarsdóttir​.

Í dag birtist í Fréttablaðinu yfirlýsing frá fjórum fyrrverandi formönnum stjórnar Krabbameinsfélags Íslands þar sem þeir hafna staðhæfingum fyrrverandi sviðsstjóra Leitarsviðs félagsins, Kristjáns Oddssonar, sem fram komu í fréttaskýringaþættinum Kveik 24. apríl. 

Undir yfirlýsinguna skrifa Sigurður Björnsson, Sigríður Snæbjörnsdóttir, Jakob Jóhannsson og Sigrún Gunnarsdóttir, en þau voru formenn félagsins frá árunum 1998 til 2017. Þau telja að alvarlegustu ósannindin séu fullyrðingar um að misfarið hafi verið með fé til krabbameinsskimunar. Þar tali staðreyndir sínu máli. Fjórmenningarnir hafna þeim alvarlegu aðdróttunum að KÍ hafi ekki borið heilsu og velferð almennings fyrir brjósti. 

Hér má sjá yfirlýsinguna í heild sinni:

Ósannindum um Krabbameinsfélagið hafnað

Við undirrituð, fjórir fyrrverandi formenn stjórnar Krabbameinsfélags Íslands (KÍ), höfnum alfarið staðhæfingum Kristjáns Oddssonar, fyrrverandi sviðsstjóra leitarsviðs Krabbameinsfélagsins, sem gegndi einnig starfi forstjóra árið 2016, sem hann setti fram í fréttaþættinum Kveik þann 24. apríl sl. Kristjáni var vísað úr starfi á haustmánuðum 2017 eftir erfið samskipti.

Fjölmargar yfirlýsingar Kristjáns eru rangar. Alvarlegustu ósannindin eru fullyrðingar um að misfarið hafi verið með fé til krabbameinsskimunar og því varið til óskyldra málefna af hálfu Krabbameinsfélagsins. Þar tala staðreyndir hins vegar sínu máli. Heilbrigðisyfirvöld greiða KÍ fyrir skimun á grundvelli þjónustusamnings, sem byggir á ítarlegri kröfulýsingu. Kostnaður við rekstur Leitarstöðvarinnar er aðskilinn frá öðrum rekstri félagsins. Sameiginlegum kostnaði er skipt niður á rekstrareiningar og hefur svo verið í u.þ.b. 40 ár. Sérgreindir ársreikningar Leitarstöðvarinnar eru ávallt endurskoðaðir af löggiltum endurskoðendum og sendir eftirlitsaðilunum Sjúkratryggingum Íslands, velferðarráðuneyti, Ríkisendurskoðun og Ríkisskattstjóra. Engar athugasemdir hafa verið gerðar af hálfu eftirlitsaðila við framkvæmd samningsins. 

KÍ hefur allt frá stofnun félagsins árið 1951 borið heilsu og velferð almennings fyrir brjósti. Að halda öðru fram eru alvarlegar aðdróttanir og hrein fjarstæða. KÍ hefur verið í fararbroddi á Íslandi fyrir skimun fyrir krabbameinum og lagt áherslu á að henni sé best borgið þar sem áhugi, þekking og aðstæður uppfylla kröfur.  Framundan er endurskoðun þjónustusamningsins sem býður upp á tækifæri til að ræða um framtíðarfyrirkomulag skimunarinnar á málefnalegan hátt.

KÍ hlýtur á næstunni að þurfa að taka til skoðunar hvort félagið sé reiðubúið til að taka að sér enn á ný þá miklu ábyrgð sem skimun fyrir krabbameinum fylgir. Ef aðeins er gerður samningur til mjög skamms tíma mun það skapa óviðunandi óvissu meðal kvenna í landinu.

Sigurður Björnsson, formaður Krabbameinsfélags Íslands 1998 - 2009

Sigríður Snæbjörnsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Íslands 2009 – 2013,

Jakob Jóhannsson, formaður Krabbameinsfélags Íslands 2013 – 2016,

Sigrún Gunnarsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Íslands 2016 – 2017.


Fleiri nýjar fréttir

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

25. maí 2023 : Bjóðum Brakkasamtökin velkomin í hópinn

Á aðalfundi Krabbameinsfélagsins var staðfest ákvörðun stjórnar um aðild Brakkasamtakanna að Krabbameinsfélagi Íslands. Krabbameinsfélagið fagnar ákvörðun aðalfundarins og býður Brakkasamtökin velkomin í hópinn.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?