Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 10. maí 2019

Vísindasjóður veitir 60 milljónum til rannsókna

Í dag var úthlutað í þriðja sinn úr Vísindasjóði Krabbameinsfélags Íslands. Heildarupphæð styrkja var 60,3 milljónir króna en hæsta styrkinn, 10 milljónir króna, hlaut Erna Magnúsdóttir. 

Auglýst var eftir umsóknum um styrki í byrjun febrúar og bárust 18 umsóknir sem fóru til umfjöllunar hjá níu manna Vísindaráði Krabbameinsfélagsins. Lagt var mat á gæði umsóknanna og gerðar tillögur að styrkveitingum fyrir stjórn Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins til að byggja á. Af þeim 12 rannsóknum sem valdar voru eru þrjú verkefni að hljóta styrk úr sjóðnum í þriðja sinn, þrjú hljóta styrk úr sjóðnum í annað sinn og sex verkefni hljóta styrk úr sjóðnum í fyrsta sinn. Heildarupphæð styrkja er 60,3 milljónir króna í ár en var 42,6 milljónir króna þegar fyrst var úthlutað og 55,6 milljónir króna í fyrra.

Markmið Vísindasjóðs Krabbameinsfélags Íslands er að efla íslenskar rannsóknir á krabbameinum á ári hverju með því að styrkja með fjárframlögum rannsóknir á orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga. Formaður sjóðsstjórnar er Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdasjóri hjúkrunar á Landspítala og prófessor, en varaformaður er Magnús Karl Magnússon, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands.

Styrkhafar við afhendinguna í dag. 

Vísindamenn sem hljóta styrki

Erna Magnúsdóttir hlýtur 10.000.000 kr. styrk fyrir verkefnið Sameindaferlar að baki BLIMP1 og EZH2 miðlaðri lifun í Waldenströmsæxlum. Verkefnið er nú styrkt úr sjóðnum í þriðja sinn.

Um 3 milljónir einstaklinga eru greindir með Waldenströmssjúkdóm á hverju ári í heiminum, en sjúkdómurinn er ólæknandi hægfara krabbamein B-eitilfruma. Við höfum með hjálp styrkja frá Krabbameinsfélaginu uppgötvað þætti sem hafa áhrif á það hvort frumur sjúkdómsins lifi eða deyji meðal annars í samhengi við ónæmismeðferð. Með styrknum nú ætlum við að kanna nánar áhrif þessara þátta á eftirlit með frumuskiptingu með það í huga að skilja betur hvernig má koma í veg fyrir að frumur sjúkdómsins lifi af.

„Stuðningur Krabbameinsfélagsins við þetta verkefni hefur skipt sköpum fyrir okkur og hjálpað okkur að afhjúpa ferla sem auka skilvirkni ónæmiskerfisins í að drepa æxlisfrumur. Það er von okkar að þessar niðurstöður leiði til fjölbreyttari meðferðarmöguleika í sjúkómnum.“

Andri Steinþór Björnsson hlýtur 7.442.000 kr. styrk fyrir verkefnið Áhrif skimunar fyrir forstigi mergæxlis á andlega heilsu. Verkefnið er nú styrkt úr sjóðnum í annað sinn.

Blóðskimun til bjargar – þjóðarátak gegn mergæxlum er fyrsta rannsóknin sem metur áhrif skimunar og greiningar á forstigi mergæxlis á andlega heilsu og lífsgæði. Niðurstöðurnar munu leiða í ljós hvort skimun og greining á forstigi mergæxlis hafi langtíma áhrif á andlega heilsu og lífsgæði sem er mikilvæg vitneskja fyrir leitarstöðvar krabbameins í heiminum.

„Þessi styrkur er mjög mikilvægur fyrir okkur og mun gera okkur kleift að rannsaka áhrif skimunar og greiningar á forstigi mergæxlis á andlega heilsu.“

Stefán Sigurðsson hlýtur 6.800.000 kr. styrk fyrir verkefnið Stökkbreytingar og sviperfðabreytingar í eggjastokka-, eggjaleiðara- og lífhimnukrabbameini, á Íslandi 1989-2013.

Markmið verkefnisins er að rannsaka þátt ættlægra stökkbreytinga og sviperfðabreytinga í DNA viðgerðargenum á krabbameinsáhættu og sjúkdómsframvindu hjá konum sem greinst hafa með eggjastokkakrabbamein. Mikilvægt er að bera kennsl á æxli sem hafa slíkar breytingar þar sem það stækkar þann hóp þar sem sértæk meðferð gæti hjálpað.

„Styrkurinn er mjög mikilvægur og gerir okkur kleift að rannsaka áhrif stökkbreytinga og sviperfðabreytinga í eggjastokkakrabbameinum með það að leiðarljósi að bæta meðferðarúrræði.“

Guðrún Valdimarsdóttir hlýtur 6.450.000 kr. styrk fyrir verkefnið Samspil TGFβ boðleiðarinnar og Thrombospondin-1, áhrif á samskipti æðaþels- og brjóstakrabbameinsfruma. Verkefnið er nú styrkt úr sjóðnum í þriðja sinn.

Þótt batahorfur brjóstakrabbameinssjúklinga séu góðar þá steðjar aðalógnin af mögulegri meinvarpamyndun. Markmið verkefnisins er að skilja í þaula samspil æðaþels og brjóstakrabbameinsfruma á sameindafræðilegum grundvelli m.t.t. hinnar margslungnu TGF-beta boðleiðar. Sú þekking hefur gífurlegt gildi þegar litið er til meðferðarmöguleika með sértæku sameindalyfi fyrir brjóstakrabbameinssjúklinga til að fyrirbyggja myndun meinvarpa.

„Sú þekking [sem verkefnið skapar] hefur gífurlegt gildi þegar litið er til meðferðarmöguleika með sértæku sameindalyfi fyrir brjóstakrabbameinssjúklinga til að fyrirbyggja myndun meinvarpa.“

Inga Reynisdóttir hlýtur 5.000.000 kr. styrk fyrir verkefnið Aukin tjáning Vacuole Membrane Protein 1 (VMP1) tengist verri horfum sjúklinga með HER2 brjóstakrabbamein.

Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein kvenna. Rannsóknir okkar leiddu í ljós að há tjáning á geni, sem nefnist VMP1, tengist skemmri lifun kvenna, sem greinast með brjóstakrabbamein. Tjáning VMP1 var hæst í HER2 jákvæðum brjóstaæxlum, og er markmið verkefnisins að skilgreina hlutverk gensins í æxlismyndun í HER2 jákvæðum frumulíkönum.

„Styrkurinn er afar mikilvægur fyrir þessa rannsókn og gerir okkur kleift að skilgreina hlutverk VMP1 gensins í brjóstaæxlismyndun, og er það fyrsta skref í átt að frekari meðferðarúrræðum.“

Margrét Helga Ögmundsdóttir hlýtur 5.000.000 kr. styrk fyrir verkefnið Hlutverk sjálfsátsgensins ATG7 í þróun krabbameina. Verkefnið er nú styrkt úr sjóðnum í þriðja sinn.

Krabbameinsfrumur hafa óreglulega stjórnun á niðurbroti og hreinsun (sjálfsáti). Hreinsunarferlið er talið vernda gegn krabbameinsmyndun en síðar er ferlið mikilvægt krabbameinsfrumum til þess að lifa af erfiðar aðstæður. Verkefnið gengur út á að skilgreina hlutverk nauðsynlega sjálfsátsgensins ATG7 í krabbameinum, með það að markmiði að bæta greiningar- og meðferðarmöguleika. 

„Markmið okkar er að varpa ljósi á hlutverk hreinsunar og niðurbrots í krabbameinsfrumum. Við höfum það að leiðarljósi að þekkingin nýtist til þess að bæta meðferðarmöguleika og erum við gríðarlega þakklát að hljóta styrk Vísindasjóðsins til verkefnisins.“

Helga M. Ögmundsdóttir hlýtur 4.745.000 kr. styrk fyrir verkefnið Skimun fyrir virkni nýsmíðaðra lífrænna tin og rhodium sambanda gegn krabbameinsfrumum og skilgreining á verkunarmáta. Verkefnið er nú styrkt úr sjóðnum í annað sinn.

Við Háskóla Íslands eru unnið að smíði á nýjum lífrænum tin- og rhodiumsamböndum. Annað af tveimur tinsamböndum reyndist virkara en krabbameinslyfið cisplatin gegn nokkrum krabbameinsfrumulínum en minna virkt gegn frumulínum sem eru ekki úr krabbameinum. Markmiðið er að rannsaka virkni þessara nýju tin- og rhodiumsamönd með það fyrir augum að finna málmsambönd til þróunar á krabbameinslyfjum.

„Styrkurinn skiptir sköpum. Hann gerir okkur kleift að fylgja eftir mjög spennandi niðurstöðum, sem eru afraksturinn af vinnu fyrir styrkinn sem við fengum í fyrra, og rannsaka frekar sértæka virkni lífrænna tin- og rhodiumsambanda gegn krabbameinsfrumum.“

Birna Baldursdóttir hlýtur 4.360.000 kr. styrk fyrir verkefnið Prófun á gagnvirku ákvörðunartæki sem aðstoðar karlmenn, sem greinst hafa með staðbundið blöðruhálskirtilskrabbamein, við ákvarðanatöku um meðferðarleið. Verkefnið er nú styrkt úr sjóðnum í annað sinn.

Meðferðarleiðir við staðbundnu blöðruhálskirtilskrabbameini hafa mismunandi aukaverkanir. Engin ein meðferð er talin best og getur val á meðferð því valdið streitu og vanlíðan og leitt til ákvörðunar sem ekki er nægjanlega ígrunduð. Markmið okkar er að prófa gagnvirkt tæki sem veitir upplýsingar og aðstoð við þessa erfiðu ákvörðun.

„Styrkurinn er afar mikilvægur og gerir okkur kleift að efla upplýsingar og aðstoð við val á meðferðarleið við staðbundnu blöðruhálskirtils-krabbameini og þannig bæta líðan og lífsgæði karlmanna og fjölskyldna þeirra.“

Rósa Björk Barkardóttir hlýtur 4.334.000 kr. styrk fyrir verkefnið Meinvaldandi áhrif BRCA1 c.4096+3A>G könnuð í frumulíkönum.

Ein af þekktum BRCA1 breytingum er c.4096+3A>G, en ekki er ljóst hve meinvaldandi þessi breyting er og þá hvernig. Við munum nýta CRISPR tæknina til að búa til þessa stökkbreytingu í völdum frumulínum og skoða áhrif hennar á mikilvæga starfsferla frumna.

„Styrkurinn er mjög mikilvægur enda munu niðurstöður rannsóknarinnar mögulega hafa áhrif á erfðaráðgjöf og þá einnig á frekari rannsóknir varðandi meðferðarmöguleika þeirra sem bera stökkbreytinguna.“

Gunnhildur Ásta Traustadóttir hlýtur 2.500.000 kr. styrk fyrir verkefnið Hlutverk peroxidasin í eðlilegum og illkynja brjóstkirtli.

Markmið verkefnisins er að afhjúpa hlutverk prótínsins peroxidasin (PXDN) og þá sameindalíffræðilegu ferla sem stýra tjáningu þess í eðlilegum og illkynja brjóstkirtli. PXDN eykur frumuvöxt, ífarandi vöxt og frumuskrið í eggjastokkakrabbameinsfrumum ásamt því að auka ífarandi vöxt sortuæxlisfruma en hlutverki þess hefur ekki áður verið lýst í brjóstkirtlinum.

„Rannsóknin miðar að því að auka þekkingu á hlutverki stoðvefjaþátta í framþróun krabbameina með það að leiðarljósi að auka skilning á samspili krabbameins og umhverfis.“

Suzannah A. Williams og Bríet Bjarkadóttir, doktorsnemi við Háskólann í Oxford, hljóta 2.492.889 kr. styrk fyrir verkefnið Í átt að frjósemisverndun án inngrips fyrir kvenkyns krabbameinssjúklinga: áhrif krabbameinslyfja á eggbú og þróun frjósemisverndandi lyfja.

Krabbameinsmeðferðir geta skert frjósemi stúlkna og kvenna með því að eyða eggbúum eggjastokkana. Markmið verkefnisins er að þróa nýja greiningaraðferð til að rannsaka skaðleg áhrif krabbameinslyfja á eggbú. Á grundvelli þeirra niðurstaða munum við leita að frjósemisverndandi efnum og kanna hvort þau geti komið í veg fyrir skemmdir á eggbúum.

„Aukinn skilningur á áhrifum krabbameinslyfja og þróun frjósemisverndandi lyfja myndi auka verulega lífsgæði stúlkna og kvenna í kjölfar krabbameinsmeðferðar.“

Ágúst Ingi Ágústsson og Linda Karlsdóttir hljóta 1.170.000 kr. styrk fyrir verkefnið Þátttaka í skimun fyrir leghálskrabbameini á Íslandi: Geta textaskilaboð (sms) aukið þátttöku kvenna?

Rannsóknin miðar að því að kanna áhrif textaskilaboða (sms) á þátttöku kvenna í skimun fyrir leghálskrabbameini. Rannsóknin er slembi-samanburðarrannsókn (e. Randomised Controlled Trial). Hún felst í að senda konum sem hafa fengið boðsbréf í leghálsskimun sms-áminningu. Áminningin inniheldur vefslóð inn á bókunarsíðu og símanúmer Leitarstöðvarinnar sem auðveldar konum að panta tíma í skimun. Vonast er til að niðurstöðurnar leiði til nýrrar þekkingar sem nýtist til að auka þátttöku í skimunum fyrir krabbameini.

„Vonast er til að niðurstöðurnar leiði til nýrrar þekkingar sem nýtist til að auka þátttöku í skimunum fyrir krabbameini.“ 


Fleiri nýjar fréttir

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?