Ása Sigríður Þórisdóttir 3. nóv. 2020

Vísbendingar um fækkun krabbameinsgreininga á Íslandi vegna COVID-19

Krabbameinsfélagið hvetur fólk sem finnur fyrir einkennum að hika ekki við að leita læknis svo meðferð geti hafist sem fyrst sé um krabbamein að ræða.

Bráðabirgðaathugun á fjölda krabbameinsgreininga sem skráð voru í Krabbameinsskrá í mars, apríl og maí 2020 leiðir í ljós 14-18% fækkun borið saman við sömu mánuði árin 2017-2019. Fjölgun var á krabbameinsgreiningum í júní og júlí en í september voru aftur færri krabbamein skráð. Ætla má að um sé að ræða áhrif vegna COVID-19 vegna skerðingar á starfsemi og nýtingu heilbrigðisþjónustu.

Á öllum Norðurlöndunum eru vísbendingar um svipaða stöðu, en hjá Norrænu krabbameinssamtökunum er grannt fylgst með áhrifum COVID-19. Óttast er að við blasi svokölluð „meðferðarskuld“ þegar COVID-19 léttir, þar sem krabbamein greinist síðar og á alvarlegra stigi en ella. Þess vegna er mikilvægt að heilbrigðiskerfið verði undir það búið að bregðast við á viðeigandi hátt. Krabbameinsfélagið hvetur fólk sem finnur fyrir einkennum að hika ekki við að leita læknis svo meðferð geti hafist sem fyrst sé um krabbamein að ræða. Nánari upplýsingar um einkenni krabbameina er að finna hér.

Færri húðmein greind en undanfarin ár

Stór hluti fækkunarinnar í apríl skýrist af færri greiningum krabbameina í húð. Þótt sum húðkrabbamein séu mjög alvarleg eru langflest þeirra tiltölulega mild. Tímabundin fækkun greindra húðmeina er því ef til vill minna áhyggjuefni en fækkun greininga margra annarra krabbameina.

Færri ristilspeglanir og brjóstaskimanir

Vísbendingar sjást um fækkun greininga ristil- og endaþarmskrabbameina í mars, apríl og maí og brjóstakrabbameins í maí og júní. Þó tilviljanasveiflur gætu skýrt hvort tveggja má reikna með því að færri einstaklingar hafi leitað til heilbrigðisþjónustu á þessum tíma. Auk þess gerðu sóttvarnaaðgerðir í tengslum við COVID-19 faraldurinn það að verkum að ákveðin heilbrigðisþjónusta bauðst ekki, til dæmis ristilspeglanir. Fyrsta smit á Íslandi greindist 28. febrúar 2020. Þann 10. mars ákváðu heilbrigðisstofnanir Norðurlands á Húsavík, Raufarhöfn, Kópaskeri og Akureyri að fresta öllum skimunum fyrir brjósta- og leghálskrabbameini um óákveðinn tíma. Vegna hertra sóttvarnaaðgerða 22. mars þegar aðeins 20 manns máttu koma saman þurfti að gera hlé á skimunum Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins. Starfsemin lá því niðri á tímabilinu 24. mars til 4. maí 2020 og sjá mátti lækkun á brjóstakrabbameinsnýgengi í maí og júní.

Svipaðar vísbendingar erlendis

Á Íslandi greinast undir 180 krabbamein á mánuði. Í svo lágum tölum sjást talsverð áhrif tilviljanasveifla. Sveiflurnar verða enn meira áberandi þegar skoðuð eru einstök krabbamein og því þarf að taka þeim niðurstöðum með fyrirvara. Þær geta þó gefið vísbendingar um stöðu mála. Staðfestar tölur greindra krabbameina hvers árs liggja ekki fyrir fyrr en seinni hluta ársins á eftir.

Fleiri þjóðir sjá vísbendingar í takt við það sem hér er lýst. Í sumar birtist í Lancet Oncology grein frá Hollandi þar sem lýst var svipaðri lækkun á heildarfjölda greininga og sést á Íslandi. Í Hollandi var, eins og hér á landi, mest fækkun greininga á húðmeinum en einnig sást þar lækkun í greiningum annarra krabbameina. Reikna má með að svipað sé uppi á teningnum hér á landi þótt auðveldara sé að skoða breytingarnar í Hollandi þar sem mánaðarlegur fjöldi greininga er um 13 þúsund.

Bráðabirgðatölur úr Krabbameinsskrá Íslands, sóttar í október 2020:

KRabbameinsskra-Islands-bradabirgdatolur


Fleiri nýjar fréttir

5. des. 2023 : Takk sjálfboðaliðar!

Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða og Krabbameinsfélagið vill nýta tækifærið og þakka öllum þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem leggja sitt af mörkum í þágu félagsins. Í tilefni dagsins fengum við nokkra sjálfboðaliða til að segja okkur frá því hvers vegna þau velja að leggja baráttunni gegn krabbameinum lið.

Lesa meira

5. des. 2023 : Aðstoð við að velja mat sem eykur heilbrigði og vellíðan

Við þurfum hjálp! Ákall til matvælaframleiðenda og sölu- og markaðsaðila matvæla. Mörg fyrirtæki standa sig vel þegar kemur að markaðssetningu á mat og drykkjarvöru. Sum fyrirtæki sem bjóða upp á heilsueflandi mat en einnig mat- og drykkjarvörur sem geta haft neikvæð áhrif á heilsu hlífa til dæmis börnum við markaðssetningu á slíkum vörum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira

4. des. 2023 : Kírópraktorstöðin styrkir Bleiku slaufuna

Kírópraktorstöðin afhenti á dögunum 500.000 krónur til Krabbameinsfélagsins. Upphæðin er afrakstur af einstaklega vel heppnuðu Konukvöldi sem þau stóðu fyrir í tilefni af Bleikum október. Krabbameinsfélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn, sem kemur að góðum notum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Ný rannsókn styður við einstaklingssniðna meðferð

Ný íslensk rannsókn sem birtist í dag í npj Breast Cancer og var unnin í samstarfi Krabbameinsfélagsins við meinafræðideild og krabbameinslækningadeild Landspítala, og við Háskóla Íslands. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?