Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 20. sep. 2019

Tvöfalt fleiri konur í fyrstu skimun

  • Brjóstaskoðun á Leitarstöð

Þátttaka kvenna í skimun sem fá í fyrsta sinn boð um leit að brjósta- og leghálskrabbameini fjölgaði um rúmlega 100% frá tímabilinu 1. janúar til 31. júlí 2019 miðað við sama tímabil árið 2018. 

Almennt fjölgaði komum kvenna í skimun fyrir leghálskrabbameini á tímabilinu um 19% og komum í skimun fyrir brjóstakrabbameinum fjölgaði um 24%. Svo virðist sem auglýsingar og hvatning Krabbameinsfélagsins um þátttöku í vinkonuhópi félagsins hafi skilað árangri.

Á síðasta ári brugðust margir vinkonuhópar jákvætt við ósk félagsins um samstarf í Bleiku slaufunni sem fól í sér að fá konur til að taka þátt í skimun og kynna sér forvarnir gegn krabbameinum. Í kjölfarið hafa vinkonuhóparnir reglulega fengið senda fræðslu- og hvatningarmola frá félaginu.

„Það er ánægjulegt að geta sagt góðar fréttir og við hjá Krabbameinsfélaginu þökkum þeim fjölmörgu konum um allt land sem hafa brugðist vel við þátttöku í skimun. Félagið hefur gert ýmislegt fleira til að hvetja konur til mætingar og þær hafa sannarlega tekið vel við sér,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Tilraunaverkefni sýnir árangur af gjaldfrelsi

Á þessu ári stendur Krabbameinsfélagið fyrir tilraunaverkefni og býður þeim konum sem fá í fyrsta skipti boð í skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini, skimunina sér að kostnaðarlausu. Félagið ákvað að ráðast í verkefnið vegna vísbendinga um að skoðunargjaldið hindri ákveðinn hóp kvenna í að nýta sér boð um skimun. Verkefnið hófst um áramót og árangur af því er afgerandi. Fjöldi kvenna sem hefur þegið boð um skimun fyrir krabbameinum í leghálsi og brjóstum hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins í fyrsta sinn hefur meira en tvöfaldast miðað við sama tímabil í fyrra. Árangurinn er afar ánægjulegur og langt fram úr væntingum.

Gjaldfrelsi stuðlar að jöfnu aðgengi

Krabbameinsfélagið fagnar yfirlýsingu heilbrigðisráðherra frá því í marsmánuði að til standi að skimun fyrir krabbameinum verði gjaldfrjáls.

„Félagið tekur undir með ráðherra að lækkun greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu sé afgerandi þáttur í að jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Árangur af tilraunaverkefni Krabbameinsfélagsins er ótvírætt merki þess og við hvetjum ráðherra til að gera skimunina gjaldfrjálsa sem allra fyrst,“ segir Halla.

Tilgangurinn með skipulagðri skimun fyrir krabbameinum er að draga úr dauðsföllum af völdum krabbameina. Evrópsk viðmið eru að 70% kvenna taki þátt í skimun. Þátttaka íslenskra kvenna hefur um árabil verið nokkuð undir því en nú eru vísbendingar um að þátttakan þokist upp á við í kjölfar skipulagðra viðbragða félagsins.


Fleiri nýjar fréttir

17. okt. 2019 : Þungar áhyggjur af bið eftir brjóstaskoðunum

Á málþinginu „Þú ert ekki ein“ sem haldið var þann 15. október síðastliðinn í tilefni af Bleika mánuðinum, var skorað á framkvæmdastjórn Landspítala og heilbrigðisráðherra að stytta biðtíma eftir sérskoðunum eftir að grunur vaknar um brjóstakrabbamein. 

Lesa meira

11. okt. 2019 : Málþing um brjóstakrabbamein þriðjudaginn 15. október

Málþing um brjóstakrabbamein verður að Skógarhlíð 8 þriðjudaginn 15. október 2019 kl. 17:00-18:30 á vegum Brjóstaheilla – Samhjálpar kvenna, Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins og Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins.

Lesa meira

10. okt. 2019 : Bleika slaufan nánast uppseld og Bleiki dagurinn er á morgun

Örfá eintök eru eftir af Bleiku slaufunni 2019 hjá Krabbameinsfélaginu en mikil eftirspurn hefur verið eftir slaufunni í ár. Enn er þó hægt að fá slaufur hjá einhverjum söluaðilum víða um land.

Lesa meira

30. sep. 2019 : Guðbjörg í Aurum hannar Bleiku slaufuna 2019

Guðbjörg Kristín Ingvarsdóttir, skartgripahönnuður í Aurum Bankastræti er hönnuður Bleiku slaufunnar 2019. Í ár er boðið upp á spennandi nýjung í hönnuninni því í fyrsta sinn er Bleika slaufan hálsmen.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?