Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 20. sep. 2019

Tvöfalt fleiri konur í fyrstu skimun

  • Guðrún Birgisdóttir, geislafræðingur, í brjóstamyndatöku á Leitarstöð 2019.

Þátttaka kvenna í skimun sem fá í fyrsta sinn boð um leit að brjósta- og leghálskrabbameini fjölgaði um rúmlega 100% frá tímabilinu 1. janúar til 31. júlí 2019 miðað við sama tímabil árið 2018. 

Almennt fjölgaði komum kvenna í skimun fyrir leghálskrabbameini á tímabilinu um 19% og komum í skimun fyrir brjóstakrabbameinum fjölgaði um 24%. Svo virðist sem auglýsingar og hvatning Krabbameinsfélagsins um þátttöku í vinkonuhópi félagsins hafi skilað árangri.

Á síðasta ári brugðust margir vinkonuhópar jákvætt við ósk félagsins um samstarf í Bleiku slaufunni sem fól í sér að fá konur til að taka þátt í skimun og kynna sér forvarnir gegn krabbameinum. Í kjölfarið hafa vinkonuhóparnir reglulega fengið senda fræðslu- og hvatningarmola frá félaginu.

„Það er ánægjulegt að geta sagt góðar fréttir og við hjá Krabbameinsfélaginu þökkum þeim fjölmörgu konum um allt land sem hafa brugðist vel við þátttöku í skimun. Félagið hefur gert ýmislegt fleira til að hvetja konur til mætingar og þær hafa sannarlega tekið vel við sér,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Tilraunaverkefni sýnir árangur af gjaldfrelsi

Á þessu ári stendur Krabbameinsfélagið fyrir tilraunaverkefni og býður þeim konum sem fá í fyrsta skipti boð í skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini, skimunina sér að kostnaðarlausu. Félagið ákvað að ráðast í verkefnið vegna vísbendinga um að skoðunargjaldið hindri ákveðinn hóp kvenna í að nýta sér boð um skimun. Verkefnið hófst um áramót og árangur af því er afgerandi. Fjöldi kvenna sem hefur þegið boð um skimun fyrir krabbameinum í leghálsi og brjóstum hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins í fyrsta sinn hefur meira en tvöfaldast miðað við sama tímabil í fyrra. Árangurinn er afar ánægjulegur og langt fram úr væntingum.

Gjaldfrelsi stuðlar að jöfnu aðgengi

Krabbameinsfélagið fagnar yfirlýsingu heilbrigðisráðherra frá því í marsmánuði að til standi að skimun fyrir krabbameinum verði gjaldfrjáls.

„Félagið tekur undir með ráðherra að lækkun greiðsluþátttöku í heilbrigðiskerfinu sé afgerandi þáttur í að jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Árangur af tilraunaverkefni Krabbameinsfélagsins er ótvírætt merki þess og við hvetjum ráðherra til að gera skimunina gjaldfrjálsa sem allra fyrst,“ segir Halla.

Tilgangurinn með skipulagðri skimun fyrir krabbameinum er að draga úr dauðsföllum af völdum krabbameina. Evrópsk viðmið eru að 70% kvenna taki þátt í skimun. Þátttaka íslenskra kvenna hefur um árabil verið nokkuð undir því en nú eru vísbendingar um að þátttakan þokist upp á við í kjölfar skipulagðra viðbragða félagsins.


Fleiri nýjar fréttir

2. okt. 2023 : Takk fyrir samveruna og stuðninginn

Það er óhætt að segja að gleði, samhugur og samstaða hafi ráðið ríkjum á opnunarviðburði Bleiku slaufunnar sem haldinn var í Þjóðleikhúsinu þann 28. september. Myndirnar sem hér fylgja segja allt um stemminguna.

Lesa meira

29. sep. 2023 : Verum bleik - fyrir okkur öll

Í dag, föstudaginn 29. september, hefst árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands, Bleika slaufan. Í ár beinir Krabbameinsfélagið athyglinni að mikilvægi samstöðunnar og bleika litarins sem tákns um hana.

Lesa meira

29. sep. 2023 : Slökkti fyrst eld og keypti svo Bleiku slaufuna

Það hefur vonandi ekki farið framhjá neinum að sala Bleiku slaufunnar hófst á miðnætti í dag, 29. september. Nágranni Krabbameinsfélagsins, Bergrún Ingimarsdóttir, varð fyrst til að tryggja sér slaufu ársins. Það mátti þó litlu muna að það tækist ekki vegna elds sem hún þurfti að ráða niðurlögum að.

Lesa meira

27. sep. 2023 : Bleika slaufan 2023

Gullsmiðirnir Lovísa Halldórsdóttir (by lovisa) og Unnur Eir Björnsdóttir (EIR) eru hönnunarteymið á bak við Bleiku slaufuna í ár. Það er óhætt að segja að þeim hafi tekist ætlunarverk sitt, en slaufan í ár er sú bleikasta sem við höfum séð lengi

Lesa meira

26. sep. 2023 : "Mikilvægt að segja líka frá því sem gengur vel"

Styttri legutími, skjótari bati, lægri dánartíðni og betri lifun. Ný aðferðafræði við skurðaðgerðir við lungnakrabbameini var tekin upp nærri því á einni nóttu og hefur gefið reglulega góða raun í baráttunni gegn lungnakrabbameini. Tómas Guðbjartsson skurðlæknir og Viktor Ásbjörnsson læknanemi segja hér frá byltingarkenndri þróun í skurðaðgerðum við lungnakrabbameini og mikilvægi rannsókna og stuðnings við þær fyrir framþróun í málaflokkinum. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?