Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 30. maí 2018

Þúsundir Íslendinga gætu komist hjá krabbameinum ef færri reyktu

Vísindamenn á Norðurlöndunum hafa reiknað út hversu mörg krabbameinstilfelli væri hægt að koma í veg fyrir á næstu 30 árum með því að draga úr reykingum.

Rannsóknin, sem Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands stóð meðal annars að og birtist nýverið í vísindatímaritinu European Journal of Cancer, staðfestir að nauðsynlegt sé að efla forvarnir gegn reykingum enn frekar.

Það eru ekki ný tíðindi að reykingar séu hættulegar og valdi krabbameinum, en vísindamenn beina nú sjónum að þeim fjölda krabbameinstilfella sem hægt er að koma í veg fyrir ef fólk hættir að reykja, eða byrjar ekki að reykja.

Reiknilíkanið Prevent var notað við útreikningana sem byggjast meðal annars á tölum um reykingavenjur, fólksfjölgun og krabbamein sem geta orsakast vegna reykinga, eins og krabbamein í lungum, vélinda og þvagblöðru.

Mjög hefur dregið úr reykingum síðustu áratugi. Árið 2014, þegar rannsóknin hófst, reyktu samt 14 prósent Íslendinga daglega. Ef við ímyndum okkur að allir Íslendingar hefðu hætt að reykja árið 2014, væri komið í veg fyrir 5.300 krabbameinstilfelli hér á landi fyrir árið 2045.

„Auðvitað er ekki raunhæft að allir hætti skyndilega að reykja. En þarna sjáum við hve mikla möguleika við höfum á að koma  í veg fyrir krabbamein vegna reykinga,“ segir Dr. Therese M. L. Andersson, lektor við Karolínsku stofnunina, en Therese leiddi rannsóknina.

„Niðurstöðurnar sýna að hægt er að koma í veg fyrir þúsundir krabbameinstilfella ef færri reykja, og því er mikilvægt að gera nýjar áætlanir til að sporna gegn reykingum,“ segir hún.

Hægt að koma í veg fyrir 2.600 krabbameinstilfelli

Einnig var reiknað út hvað myndi gerast ef hlutfall reykingamanna lækkaði þannig að árið 2030 væri það komið niður í fimm prósent og þrjú prósent árið 2040. Þetta myndi koma í veg fyrir 2.600 krabbameinstilfelli á Íslandi fram til ársins 2045.

Þetta er í samræmi við raunhæfa sýn Krabbameinsfélags Íslands um samfélag þar sem engin börn og ungmenni reykja og þar sem færri en fimm prósent fullorðinna reykja.

Rannsakendur hafa einnig kannað áhrif tiltekinna þekktra forvarnaraðgerða gegn reykingum. Þar er um að ræða að hækka verð á tóbaki, banna reykingar á öllum vinnu- og þjónustustöðum, banna að tóbak sé sýnilegt á sölustöðum, staðla merkingar á tóbaksumbúðum og að hleypa af stokkunum herferðum í fjölmiðlum.

Ísland var fyrsta land heims til að banna að tóbak væri sýnilegt á sölustöðum og við stöndum okkur nokkuð vel varðandi flestar aðrar ofanskráðar forvarnaraðgerðir. Samt getum við, samkvæmt rannsókninni, komið í veg fyrir 2.100 krabbameinstilfelli næstu áratugi með því að herða enn róðurinn.

 „Þótt við þekkjum vel tengsl reykinga og krabbameina er engu að síður óhugnanlegt að sjá svona svart á hvítu hve mikil áhrif þær hafa. Ég vona að niðurstöðurnar opni augu stjórnmálamanna sem eiga að axla ábyrgð og efla aðgerðaráætlanir gegn tóbaksnotkun í samfélaginu. Við getum gert enn betur og það er sannarlega ekki eftir neinu að bíða,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands.

Staðreyndir um reykingar og krabbamein
Reykingar auka hættu á krabbameinum í lungum, ristli, endaþarmi, þvagblöðru, nýrum, þvagfærum, brisi, vör, munnholi, koki, barkakýli, maga, lifur, vélinda, leghálsi, eggjastokkum og einnig á hvítblæði.

Samkvæmt könnuninni munu reykingar orsaka 26% þessara krabbameina árið 2045, ef hlutfall reykingarfólks helst það sama og þegar rannsóknin hófst, eða 14 prósent.

Rannsóknin var gerð með stuðningi Samtaka Norrænna Krabbameinsfélaga og vann úr niðurstöðum frá krabbameinsskrám fimm Norðurlanda; Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar.



 


Fleiri nýjar fréttir

5. des. 2023 : Takk sjálfboðaliðar!

Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða og Krabbameinsfélagið vill nýta tækifærið og þakka öllum þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem leggja sitt af mörkum í þágu félagsins. Í tilefni dagsins fengum við nokkra sjálfboðaliða til að segja okkur frá því hvers vegna þau velja að leggja baráttunni gegn krabbameinum lið.

Lesa meira

5. des. 2023 : Aðstoð við að velja mat sem eykur heilbrigði og vellíðan

Við þurfum hjálp! Ákall til matvælaframleiðenda og sölu- og markaðsaðila matvæla. Mörg fyrirtæki standa sig vel þegar kemur að markaðssetningu á mat og drykkjarvöru. Sum fyrirtæki sem bjóða upp á heilsueflandi mat en einnig mat- og drykkjarvörur sem geta haft neikvæð áhrif á heilsu hlífa til dæmis börnum við markaðssetningu á slíkum vörum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira

4. des. 2023 : Kírópraktorstöðin styrkir Bleiku slaufuna

Kírópraktorstöðin afhenti á dögunum 500.000 krónur til Krabbameinsfélagsins. Upphæðin er afrakstur af einstaklega vel heppnuðu Konukvöldi sem þau stóðu fyrir í tilefni af Bleikum október. Krabbameinsfélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn, sem kemur að góðum notum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Ný rannsókn styður við einstaklingssniðna meðferð

Ný íslensk rannsókn sem birtist í dag í npj Breast Cancer og var unnin í samstarfi Krabbameinsfélagsins við meinafræðideild og krabbameinslækningadeild Landspítala, og við Háskóla Íslands. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?