Ása Sigríður Þórisdóttir 6. okt. 2021

Þekkja Íslendingar áhættuþætti krabbameina?

Bréf til blaðsins, sem birtist í Læknablaðinu 10. tbl. 107. árg. 2021

Það er áhyggjuefni að einungis um helmingur þátttakenda taldi ofþyngd, mataræði, hreyfingarleysi og áfengisneyslu auka líkur á krabbameinum. Gefa þessar niðurstöður tilefni til aukinnar fræðslu og umræðu um áhættuþætti krabbameina og möguleika á forvörnum. 

Niðurstöður nýrrar könnunar

Einn af hverjum þremur Íslendingum getur búist við að fá krabbamein á lífs-leið-inni. Talið er að krabbameinsbyrði gæti minnkað um helming ef hægt væri að yfirfæra vísindalega þekkingu á áhættuþáttum krabbameina í árangursríkar forvarnir.1,2 Í þessu bréfi eru teknar saman helstu niðurstöður nýrrar könnunar á þekkingu Íslendinga á áhættuþáttum krabbameina.

Krabbameinsfélagið lét leggja rafræna könnun fyrir Þjóðgátt Maskínu, þjóðhóp fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, dagana 10.-25. maí 2021. Fyrst var opin spurning þar sem þátttakendur voru beðnir um að nefna einn eða fleiri þætti sem þeir teldu auka líkur á krabbameinum. Í kjölfarið var spurt beint hvort þátttakandi teldi ákveðna upptalda þætti auka líkur á krabbameinum og voru svarmöguleikarnir „já“, „nei“ og „veit ekki“. Eins var spurt um bakgrunnsþætti. Þátttakendur voru 860 talsins, 18 ára og eldri af öllu landinu. Við úrvinnslu voru gögnin vegin til samræmis við tölur Hagstofunnar þannig að hópurinn sem svarar endurspeglar þjóðina út frá kyni, aldri og búsetu.

Reykingar fólki ofarlega í huga

Reykingar og/eða tóbak var það sem langflestir (87%) töldu upp sem áhættuþátt í opnu spurningunni. Síðan mataræði (45%), erfðir (40%), mengun/loftgæði (27%), áfengi (25%), sól/ljósabekkir (22%) og hreyfingarleysi (18%). 17% nefndu almennan lífsstíl/lifnaðarhætti og færri nefndu aðra þætti svo sem streitu/álag/áföll, eiturefni, offitu, umhverfisáhrif og fleira.

Myndin sýnir svörin þegar spurt var beint um ákveðna þætti. Yfir 90% þátttakenda taldi reykingar, ljósabekkjanotkun og erfðir vera áhættuþætti krabbameina. Örlítið færri, en þó yfir 80%, töldu reyklaust tóbak, óbeinar reykingar, mikla sólargeislun og asbest vera áhættuþætti. Þekkingin á asbesti var meiri meðal karla en kvenna og jókst með hækkandi aldri, frá 67% hjá 18-29 ára upp í um 90% hjá 50 ára og eldri.

Fleiri konur (59%) en karlar (32%) töldu HPV-veirusýkingar vera áhættuþátt og virtist þekkingin aukast með aukinni menntun, minnka með hækkandi aldri og vera meiri hjá þátttakendum með börn á heimilinu.

Takmörkuð þekking á veigamiklum þáttum

Mikil neysla á unnum kjötvörum var sá áhættuþáttur sem flestir þekktu þegar spurt var um ákveðna þætti mataræðis. Innan við þriðjungur taldi mikla neyslu á rauðu kjöti og litla neyslu á ávöxtum og grænmeti vera áhættuþætti. Þekking á mataræðisþáttunum var meiri með aukinni menntun.

Um helmingur þátttakenda svaraði játandi þegar spurt var hvort annars vegar ofþyngd og hins vegar hreyfingarleysi væru taldir áhættuþættir krabbameina. Þekkingin virtist meiri hjá yngri þátttakendum en eldri, þátttakendum með meiri menntun en grunnskólapróf og þátttakendum sem voru með börn á heimilinu.

Innan við helmingur þátttakenda taldi áfengisdrykkju vera áhættuþátt og enn færri, eða innan við þriðjungur þátttakenda, töldu bjór- og rauðvínsdrykkju vera áhættuþætti. Jókst vitneskjan með aukinni menntun. Staðreyndin er sú að áfengir drykkir, óháð því hvort um er að ræða bjór, léttvín eða sterkari drykki, eru skilgreindir sem krabbameinsvaldandi af Alþjóðastofnun krabbameinsrannsókna (IARC) og eru í sama flokki (e. group 1) og reykingar, reyklaust tóbak, óbeinar reykingar, útfjólublá geislun, asbest, HPV-veirusýkingar og unnar kjötvörur, ásamt fleiri þáttum.3

Einnig voru þátttakendur spurðir um nokkra þætti sem rannsóknir benda til að geti verið óbeint tengdir krabbameinsáhættu án þess að vera staðfestir áhættuþættir samkvæmt flokkun IARC. 66% þátttakenda taldi mikla streitu auka líkur á krabbameinum, 65% rafsígarettur, 43% mikla sykurneyslu og 41% of lítinn svefn.

Tilefni til aukinnar fræðslu og forvarna

Það er mat höfunda að niðurstöður könnunarinnar endurspegli að nokkru leyti áherslur á tóbaks- og sólarvarnir í krabbameinsforvörnum undanfarin ár og áratugi. Einnig töluverða umræðu um tengsl erfða og krabbameina og minnkandi umræðu um asbest. Athyglisvert var að þrátt fyrir mikla umræðu um leghálskrabbamein og framkvæmd skimana nú nýverið taldi innan við helmingur þátttakenda HPV-veirusýkingar áhættuþátt krabbameina. Eins var athyglisvert að þótt mataræði væri sá þáttur sem næstoftast var nefndur í opinni spurningu var þekkingin takmörkuð þegar spurt var um ákveðna þætti mataræðis. Könnunin bætir við þekkingu á heilsulæsi Íslendinga.

Það er áhyggjuefni að einungis um helmingur þátttakenda taldi ofþyngd, mataræði, hreyfingarleysi og áfengisneyslu auka líkur á krabbameinum. Gefa þessar niðurstöður tilefni til aukinnar fræðslu og umræðu um áhættuþætti krabbameina og möguleika á forvörnum. Nánari greining á niðurstöðum könnunarinnar og samanburður við aðrar kannanir verður tekin saman í skýrslu sem verður gerð aðgengileg á heimasíðu Krabbameinsfélagsins.


Birna-ahaettuthaettir-final


Svör við spurningunni: „Telur þú að eftirfarandi þættir auki líkurnar á að fólk fái krabbamein?“

Heimildir

1. Vineis P, Wild CP. Global cancer patterns: causes and prevention. Lancet 2014.8; 383: 549-57. [CrossRef]

2. Schüz J, Espina C , Villain P, et al. European Code against Cancer 4th Edition: 12 ways to reduce your cancer risk. Cancer Epidemiol 2015;39: :1-10. [CrossRef] [PubMed]

3. IARC Monographs on the Identification of Carcinogenic Hazards to Humans. Agents Classified by the IARC Monographs, Volumes 1-129 - 13. september 2021.

  • Grein sem birtist í Læknablaðinu 10. tbl. 107. árg. 2021 „Bréf til blaðsins. Þekkja Íslendingar áhættuþætti krabbameina?


  • Fleiri nýjar fréttir

    24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

    Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

    Lesa meira

    16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

    Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

    Lesa meira

    16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

    Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

    Lesa meira

    12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

    Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

    Lesa meira

    8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

    Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

    Lesa meira

    Var efnið hjálplegt?