Arndís Jónsdóttir 10. jún. 2016

Stuðningur við fjölskyldur. Við getum-ég get.

  • Arndís Jónsdóttir, sérfræðingur í hjúkrun

Alþjóðlegur dagur gegn krabbameini er haldinn árlega 4. febrúar. Alþjóðasamtökin gegn krabbameini (UICC) skora nú á þjóðir heims að taka þátt í að vekja athygli á baráttunni gegn krabbameini undir slagorðunum VIÐ GETUM - ÉG GET. Mikilvægt er að samfélög og einstaklingar leggi sitt af mörkum til að draga úr tíðni krabbameins og áhrifum sjúkdómsins.

Fagdeild krabbameinshjúkrunarfræðinga á Íslandi fagnar í ár 20 ára afmæli sínu og fer nú af stað, í samvinnu við Krabbameinsfélag Íslands, með röð greina undir heitinu VIÐ GETUM - ÉG GET. Í þessari grein er áhersla lögð á stuðning við fjölskyldur.

Þegar einhver innan fjölskyldu greinist með krabbamein hefur það margs konar áhrif í för með sér, ekki aðeins á hinn krabbameinsveika, heldur einnig á maka hans og fjölskyldu, vini og vinnufélaga.

Áhrifin geta verið af ýmsum toga, t.d. líkamleg með breyttri líðan og einkennum af völdum krabbameinsins, sálræn með áhyggjum, depurð og kvíða og félagsleg með breyttum aðstæðum.

Krabbameinssjúklingar geta einangrast og þess vegna er félagslegur stuðningur svo mikilvægur. Öll eigum við okkar föstu hlutverk og skyldur í lífinu, sem við sinnum daglega án þess að leiða beinlínis hugann að því. Þegar veikindi koma upp, breytast þessi hlutverk og tengsl einstaklinga geta einnig breyst. Um hríð munu einhverjir í fjölskyldunni þurfa að breyta sínum daglegu háttum og taka að sér einhver af hlutverkum eða skyldum hins veika.

Við þessar aðstæður er stuðningur mjög mikilvægur þeim krabbameinsveika og fjölskyldu hans. Það getur stuðlað að öryggi og dregið úr kvíða, létt margvíslegar byrðar sem fylgja veikindunum og auðveldað aðlögun að breyttu lífi og hlutverkum og aukið lífsgæði allra.

Stuðningur getur komið víða að, t.d. frá maka eða sambúðaraðila, fjölskyldu, vinum, vinnufélögum, heilbrigðisstarfsfólki og öðrum og stuðninginn má veita með ýmsum hætti. Í sumum tilvikum geta stórfjölskylda, vinir og vinnufélagar myndað mikilvægt stuðningsnet og stuðlað að því með góðum tengslum á veikindatímanum og haft þar með jákvæð áhrif á líðanina.

Eðli stuðningsins getur verið mismunandi og í öllum tilvikum getur hann átt þátt í að auðvelda þeim krabbameinsveika og fjölskyldunni aðlögun að margvíslegum breytingum sem fylgja veikindunum. Sumir veita aðstoð við daglegar athafnir, aðrir hafa það hlutverk að veita aðstoð vegna barna á heimili eða í formi dægrastyttingar og enn aðrir veita stuðning úr fjarlægð.

Stuðningur á vinnustað frá yfirmönnum og samstarfsfólki er einnig mikilvægur og getur átt þátt í að draga úr kvíða og stuðlað að því að auðveldara verði að snúa aftur til vinnu að loknum veikindum. Fyrir vinnufélaga er mikilvægt að vera vakandi fyrir þörfum og tilfinningum þess krabbameinsveika þegar hann er á vinnustað og halda einnig sambandi við hann þegar hann er frá vinnu. Það getur verið mikilvægt að fá heimild til að aðlaga verkefni og vinnutíma getu hins veika.

Óháð þætti þínum í því að styðja hinn krabbameinsveika, þá getur þú verið þess fullviss að stuðningur þinn er mikilvægur honum og öllum sem honum tengjast.

VIÐ GETUM – stutt aðra, auðveldað þeim að takast á við krabbameinið og átt þátt í að bæta líðan þeirra og lífsgæði

ÉG GET – leitað eftir stuðningi hjá öðrum til að takast á við krabbameinið. Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Fleiri nýjar fréttir

5. des. 2023 : Takk sjálfboðaliðar!

Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða og Krabbameinsfélagið vill nýta tækifærið og þakka öllum þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem leggja sitt af mörkum í þágu félagsins. Í tilefni dagsins fengum við nokkra sjálfboðaliða til að segja okkur frá því hvers vegna þau velja að leggja baráttunni gegn krabbameinum lið.

Lesa meira

5. des. 2023 : Aðstoð við að velja mat sem eykur heilbrigði og vellíðan

Við þurfum hjálp! Ákall til matvælaframleiðenda og sölu- og markaðsaðila matvæla. Mörg fyrirtæki standa sig vel þegar kemur að markaðssetningu á mat og drykkjarvöru. Sum fyrirtæki sem bjóða upp á heilsueflandi mat en einnig mat- og drykkjarvörur sem geta haft neikvæð áhrif á heilsu hlífa til dæmis börnum við markaðssetningu á slíkum vörum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira

4. des. 2023 : Kírópraktorstöðin styrkir Bleiku slaufuna

Kírópraktorstöðin afhenti á dögunum 500.000 krónur til Krabbameinsfélagsins. Upphæðin er afrakstur af einstaklega vel heppnuðu Konukvöldi sem þau stóðu fyrir í tilefni af Bleikum október. Krabbameinsfélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn, sem kemur að góðum notum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Ný rannsókn styður við einstaklingssniðna meðferð

Ný íslensk rannsókn sem birtist í dag í npj Breast Cancer og var unnin í samstarfi Krabbameinsfélagsins við meinafræðideild og krabbameinslækningadeild Landspítala, og við Háskóla Íslands. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?