Ása Sigríður Þórisdóttir 20. des. 2021

Stinga happdrættismiðum í jólapakkann til afkomenda sinna

Afgreiðsla Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð einn góðan veðurdag fyrir stuttu: Góðan daginn, ég ætla að kaupa happdrættismiða. Já, einn eða fleiri? Þeir þurfa að vera þrjátíu - tveir miðar fyrir börn, barnabörn og barnabarnabörn.

Skýringin á þessu ímyndaða samtali í afgreiðslunni er sú að hjónin Stefanía María Pétursdóttir og Ólafur Tómasson hafa gefið afkomendum sínum happdrættismiða með jólapakkanum og vilja um leið styðja Krabbameinsfélagið. Í fyrrahaust lést langt fyrir aldur fram dóttir þeirra, Hallfríður Ólafsdóttir, flautuleikari hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands, en hún átti í harðri glímu við krabbamein um þriggja ára skeið. Hallfríður var einnig höfundur ævintýrabókanna um Maximus Músíkús sem kynnir börnum hljóðfæri og töfra tónlistarinnar.

Ólafur starfaði hjá Pósti og síma í fjóra áratugi og síðustu tíu árin gegndi hann embætti póst- og símamálastjóra. Stefanía María var lengi formaður Kvenfélagasambands Íslands. Þau eignuðust fjögur börn og barnbörnin eru tíu og barnabarnabörnin þrjú.

Við höfum oft gefið fólkinu okkar bækur en fyrir síðustu jól vorum við ekki í neinu standi til að velja jólagjafir og duttum niður á þessa leið. Hver og einn fær tvo miða og peningaupphæð með og þá geta þau valið sjálf hvaða glaðning þau kaupa, segir Ólafur og segir að þau hafi ákveðið að halda sig við þessa leið einnig um þessi jól.

Stefanía María var í Verslunarskólanum og segir að þau skólasystkinin hafi haldið vel hópinn og hist reglulega í gegnum árin. Okkur er nú farið að fækka nokkuð og við höfum gjarnan sent samúðarkort frá Krabbameinsfélaginu þegar einhver fellur frá og þannig höfum við viljað styrkja félagið. Krabbameinsfélagið sinni mikilvægu starfi og okkur finnst gott að geta tekið ofurlítil skref í átt til hjálpar á þessu sviði, segir hún.

Við erum mjög þakklát öllu því fólki sem sinnir þjónustu fyrir Krabbameinsfélagið og sýndu okkur fjölskyldunni mikla samúð á þessum erfiðu tímum við fráfall Hallfríðar, segir Ólafur.


Var efnið hjálplegt?