Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 30. ágú. 2019

Sterk tengsl milli notkunar tíðahvarfahormóna og brjóstakrabbameins

Í dag birtust í vísindaritinu Lancet niðurstöður stórrar fjölþjóðlegar rannsóknar um tengsl milli notkunar tíðarhvarfahormóna og brjóstakrabbameins. Rannsókninni er stýrt af hópi við Oxford háskóla og í henni er meðal annars stuðst við gögn frá Krabbameinsfélaginu.

Rannsóknin er samantekt úr miklum fjölda rannsókna víðs vegar að úr heiminum þar sem byggt er á samtals yfir 100.000 brjóstakrabbameinstilfellum. Niðurstöðurnar staðfesta að það er sterkt samband milli notkunar tíðahvarfahormóna og brjóstakrabbameins. Rannsóknin sýndi líka að þeim mun lengur sem konur nota tíðahvarfahormóna því meiri verður hættan á brjóstakrabbameini.

Þannig voru konur sem tóku hormónablöndur (estrógen og prógesterón) í 1-4 ár (meðaltal 3 ár) í 60% aukinni áhættu. Þær sem tóku blöndurnar í 5-14 ár voru í tvöfaldri áhættu miðað við konur sem ekki höfðu tekið tíðahvarfahormóna. Notkun í aðeins eitt ár eða minna sýndi enga aukna áhættu á brjóstakrabbameini og lægri áhætta tengdist töku estrógena eingöngu, heldur en lyfja sem gerð voru úr hormónablöndum.

„Þetta kemur okkur ekki á óvart, því niðurstöður okkar sem birtust í erlendu vísindariti fyrir tveimur árum sýna svipuð áhrif og þessi stóra rannsókn gerir,“ segir Laufey Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár Krabbameinsfélagsins.

Allar gerðir tíðahvarfahormóna nema estrógen skeiðatöflur tengdust aukinni áhættu á brjóstakrabbameini. Áhættan var ekki eins há ef hormónatakan hófst fyrst við 60 ára aldur.

Niðurstöðurnar benda til þess að notkun á tíðahvarfahormónum hafi valdið einni milljón brjóstakrabbameina af þeim 20 milljónum sem hafa greinst í heiminum frá árinu 1990. Notkun hormónanna hófst um 1970 og var lítil í byrjun en jókst upp úr 1980. Gífurleg aukning varð svo milli 1990 og 2000. Vegna þess að rannsóknir sýndu fram á þessi neikvæð áhrif lyfjanna fór aftur að draga úr notkun upp úr árinu 2000. Í dag er áætlað að um 12 milljónir kvenna noti tíðahvarfahormóna í heiminum.

Laufey segir að höfundar áætli að af hverjum 50 til 70 konum sem byrja að nota hormónablöndur um 50 ára aldurinn og nota lyfin í 5 ár, fái ein kona brjóstakrabbamein vegna hormónatökunnar á aldrinum 50-69 ára. Búast má við um það bil tvöfalt fleiri tilfellum ef tíðarhvarfahormónarnir eru teknir samfellt í 10 ár.


Fleiri nýjar fréttir

1. des. 2023 : Minningarorð um Jón Þorgeir Hallgrímsson

Jón Þorgeir Hallgrímsson, læknir, fyrrverandi formaður Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags Reykjavíkur lést þann 21. nóvember sl., 92 ára að aldri. Jóns Þorgeirs er minnst hjá Krabbameinsfélaginu með mikilli virðingu og þakklæti. Aðstandendum vottar félagið innilega samúð. 

Lesa meira

28. nóv. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira
Ljósmynd: Thule Photos

28. nóv. 2023 : Dýrmætt að vita að maður stendur ekki einn í þessu

Flestir sem hafa upplifað það að missa einhvern náinn sér eru líklega sammála um að sorgin er erfið og þungbær. Sorg barna er sérstaklega vandmeðfarin og það getur skipt máli fyrir úrvinnslu þeirra að fá réttan stuðning frá nærsamfélaginu. Hannes missti eiginkonu sína úr krabbameini árið 2022, en þau áttu tvær dætur saman. Hann segir hér frá sorgarúrvinnslunni og helstu úrræðum sem þau feðgin hafa nýtt sér, en þar á meðal er stuðningur Krabbameinsfélagsins við börn sem missa foreldri.

Lesa meira

28. nóv. 2023 : „Mig langaði til að taka þessa byrði og bera hana sjálf“

Rakel Ósk Þórhallsdóttir, eigandi vefverslunarinnar Central Iceland, hefur undanfarin þrjú ár stutt dyggilega við Bleiku slaufuna, en í heildina telur framlag hennar 7.385.000 kr. Rakel segir hér frá drifkraftinum á bak við verkefnið, en hún hefur persónulega tengingu við málstaðinn.

Lesa meira

23. nóv. 2023 : Fulltrúar Krabbameinsfélagsins á faraldsfæti

Um þessar mundir stendur Krabbameinsfélagið fyrir átaksverkefni sem miðar að því að fjölga í þeim góða hópi Velunnara sem styðja þétt við bakið á félaginu með mánaðarlegum framlögum. Í nóvember heimsækjum við Selfoss.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?