Ása Sigríður Þórisdóttir 23. sep. 2021

Spurningar til stjórnmálaflokka í aðdraganda kosninga

  • IMG_6882

Krabbameinsfélagið leitaði til stjórnmálaflokkanna nú í aðdraganda alþingiskosninga og óskaði eftir svörum við nokkrum spurningum. Svörin má nálgast hér.

 

 


Krabbameinsfélagið vinnur að því alla daga að fækka þeim sem veikjast af krabbameinum, að fjölga þeim sem lifa sjúkdómana af og bæta lífsgæði þeirra sem veikjast og aðstandenda þeirra. Málstaðurinn varðar alla þjóðina, þriðji hver íbúi á Íslandi getur vænst þess að fá krabbamein einhvern tíma á lífsleiðinni og flestir hinna eru nánir aðstandendur, stundum oft. Við leituðum til stjórnmálaflokkanna í þeirri von að þeir vilji vinna að málstaðnum með okkur og óskuðum eftir svörum við spurningum sem fylgja hér á eftir:

Íslensk krabbameinsáætlun:

Heilbrigðisráðherra samþykkti í ársbyrjun 2019 tillögur að íslenskri krabbameinsáætlun, með gildistíma til 2030. Í áætluninni er fjallað um öll helstu mál sem tengjast krabbameinum, forvarnir, meðferð og endurhæfingu, húsakost, mönnun, jafnt aðgengi að þjónustu, lyfjamál og svo má lengi telja. Stjórnvöld hafa ekki sett fram tímasett eða fjármögnuð markmið út frá áætluninni. Auk þess hefur áætlunin ekki verið partur af verkefnalista ríkisstjórnarinnar. Krabbameinsáætlanir hafa sýnt sig að skipta sköpum í árangri varðandi krabbamein í nágrannalöndum okkar.

Hyggst flokkurinn setja áætlunina í samstarfssáttmála?

1. Píratar hafa alltaf lagt mikla áherslu á heilbrigðismál, í samræmi við skýran vilja þjóðarinnar. Heilbrigðismálin munu því fá veigamikinn sess í stjórnarsáttmálanum sem Píratar undirrita. Hvort tilteknar áætlanir verði tilgreindar í sáttmálanum ræðst vitaskuld af samtalinu við aðra flokka ríkisstjórnarinnar, en Píratar gera ekki sérstaka kröfu um það. Mikilvægast er að ná árangri í baráttunni við krabbamein og sá árangur næst í heilbrigðis- og ekki síst fjármálaráðuneytinu.

2. Vinstri grænir telja mikilvægt að koma verkefnum íslensku krabbameinsáætlunar í framkvæmd á næsta kjörtímabili.

3. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð lagt áherslu á heilbrigðismál og að þau hafi sérstakan forgang. Þessi áhersla mun endurspeglast í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar sem Sjálfstæðisflokkurinn tekur þátt í, þar á meðal framgangur krabbameinsáætlunar.

4. Samfylking: Já. Um 25-30% fjölgun á tilfellum krabbameina hefur verið spáð til ársins 2030. Öldrun þjóðarinnar, betri meðferð og greiningartækni hefur gert það að verkum að sífellt fleiri lifa með krabbameini sem krónískum sjúkdómi og stjórnvöld verða að aðlaga þjónustu að þeirri staðreynd auk þess að tryggja gæði í hvívetna. Samfylkingin telur því brýnt að fylgja áætluninni eftir.

5. Viðreisn leggur áherslu á valfrelsi og þjónustumiðaða nálgun. Þar þjónar öflugt opinbert heilbrigðiskerfi með fjölbreyttu rekstrarformi mikilvægum tilgangi. Auka þarf fjármagn til Landspítalans svo hann standi undir þeim gæðakröfum sem nauðsynlegar eru fyrir aðalsjúkrahús þjóðarinnar. Undanfarið ár hefur sýnt í verki það álag sem Landspítalinn er undir og mikilvægi þess að styrkja stoðir hans. Fjármagn þarf að byggja á greiningu á þörf og kostnaðarmati á verkum innan heilbrigðiskerfisins.

Viðreisn hefur ekki sett sér sérstaka stefnu í krabbameinsáætlun en þar sem margra ára vinna ráðgjafahóps er á bakvið hana og nokkuð breið sátt um innihaldið þá er lykilinn að tímasetja og fjármagna áætlunina. Án þess eru áætlanir einskis nýtar. Við þekkjum það vel eins og með frumvarpið okkar um niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu sem við fengum samþykkt en svo fylgir ekkert á eftir.

Krabbameinsáætlun er mikilvæg og við þekkjum vel þörfina á því að sinna þessu verkefni vel og munum gera það.

6. Flokki fólksins er mjög umhugað um þennan málaflokk enda varðar krabbamein okkur öll. Einn af hverjum þremur Íslendingum getur vænst þess að greinast með krabbamein á lífsleiðinni. Hinir eru flestir aðstandendur.

Flokkur fólksins hefur kynnt sér áætlun heilbrigðisráðherra og er uggandi yfir framhaldinu. Stjórnvöld hafa ekki sett fram tímasett eða fjármögnuð markmið út frá áætluninni. Komist Flokkur fólksins til áhrifa á Alþingi mun hann heilshugar setja áætlunina í samstarfssáttmála.

7. Framsókn vill fara í almennar aðgerðir til þess að fjárfesta í fólki til framtíðar, þar á meðal þjóðarátak í lýðheilsutengdum forvörnum til að efla einstaklinga til virkni og velgengni í íslensku samfélagi.

Fara þarf í markvissa vinnu við að endurmeta og samþætta þjónustu við fólk sem hefur lent í áföllum á lífsleiðinni. Lykilinn er að velferðarþjónustan bregðist snemma við og leggi áherslu á að fyrirbyggja vandamál með fjölþættum aðgerðum líkt og gert hefur verið í barnamálum á kjörtímabilinu. Tryggja verður að þjónustan vinni betur og meira saman og geti fylgt málum eftir þvert á einstakar stofnanir. Þær lausnir þarf að móta með samvinnu, meðal annars við þá sem starfa innan heilbrigðiskerfisins eða með því eins og Krabbameinsfélagið.

Við þekkjum til krabbameinsáætlunarinnar og hún er þýðingarmikið gagn í þeirri vinnu sem fjallað er um að ofan. Mikilvægast er að koma í veg fyrir vandamál frekar en að bregðast við þeim. Áætlunin þarf að fá formlegri stöðu innan stjórnkerfisins þó að núverandi ríkisstjórn hafi komið til framkvæmda ýmsum verkefnum sem fjallað er um í þeirri krabbameinsáætlun sem gefin var út 2017. Það er ekki hægt að svara því hvað endar í stjórnarsáttmála með öðrum flokkum. Við leggjum allar okkar áherslur á borðið í slíkum viðræðum, en það gera aðrir líka og það er ekki hægt að fullyrða um niðurstöður fyrir fram.

 

Skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi:

 Fjárveiting til skimana fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi hefur verið á fjárlögum frá árinu 2018 án þess að skimuninni hafi verið hrint í framkvæmd. Talið er að skipulögð skimun fólks á aldrinum 50 – 74 ára geti bjargað 5 – 10 mannslífum á ári auk þess að létta krabbameinsmeðferð fjölda fólks. Nýverið var birt vönduð íslensk samantekt,leidd af sérfræðingum Krabbameinsfélagsins. 

Hyggst flokkurinn hrinda skimuninni í framkvæmd og þá hvenær?

1. Píratar: Lengi hafa verið uppi hugmyndir og jafnvel áætlanir um að hefja þessa skimun á Íslandi. Píratar telja að ávinningurinn af henni yrði mikill og því sorglegt að viljann og áhugann hafi skort til að hrinda skimuninni í framkvæmd. Píratar taka allar sínar ákvarðanir út frá gögnum, rökum og samráði - grunnstefna flokksins krefst þess einfaldlega. Því myndi nákvæm útfærsla, eins og hvort skimunin yrði á hendi opinberu heilbrigðisþjónustunnar eða aðila eins og Krabbameinsfélagsins, ráðast af niðurstöðum samráðsins.

2. Vinstri grænir: Það er mikilvægt að hefja skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi. Unnið er að undirbúningi þess í heilbrigðisráðuneytinu. Þetta er mikilvægt mál sem þarf að koma til framkvæmdar sem fyrst.

3. Sjálfstæðisflokkurinn hefur stutt skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi og mun vinna að því að henni verði hrint í framkvæmd.

4. Samfylking: Í kosningastefnu Samfylkingarinnar fyrir Alþingiskosningar 25. september 2021 er lögð áhersla á að koma skimunum á Íslandi í skikkanlegt horf. Þetta getum við aðeins gert ef við fáum til þess umboð í nýrri ríkisstjórn. Sú sem nú situr hefur haft tækifæri til þess en ekki gripið það þrátt fyrir að áform um skimun hafi staðið til í áratugi. Samfylkingin vill hrinda þessari skimun í framkvæmd sem allra fyrst á nýju kjörtímabili, enda ljóst að slík skimun geti bjargað mannslífum, minnkað þjáningu og kostnað samfélagsins til lengri tíma.

5. Viðreisn: Fjárveiting til skimana fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi hefur verið á fjárlögum frá árinu 2018 án þess að skimuninni hafi verið hrint í framkvæmd. Talið er að skipulögð skimun fólks á aldrinum 50 – 74 ára geti bjargað 5 – 10 mannslífum á ári auk þess að létta krabbameinsmeðferð fjölda fólks. Nýverið var birt vönduð íslensk samantekt, leidd af sérfræðingum Krabbameinsfélagsins.

Það ber að gagnrýna að verkefnið sé samþykkt, komið á fjárlög en samt ekki komið til framkvæmda. Viðreisn telur það lykilatriði að ef mál eru samþykkt þá er nauðsynlegt að tryggja að þau séu fjármögnuð og framkvæmd. Já við myndum vilja hrinda þessu í framkvæmd og það á næsta kjörtímabili.

6. Flokkur fólksins: Krabbamein í ristli og endaþarmi er eitt þriggja krabbameina sem alþjóðlegar stofnanir mæla með að sé skimað eftir. Um væri að ræða hópleit sem þýðir að leitað er að krabbameini hjá einkennalausum einstaklingum. Þetta telur Flokkur fólksins að sé hið eina rétta að gera enda er nýgengi þessara æxla hátt meðal Íslendinga eins og annarra Norðurlandaþjóða.

Þetta hættulega krabbamein er sérstætt að því leyti að það er mjög auðvelt að lækna það, finnist það á byrjunarstigi. Með skipulagðri leit og markvissum forvarnaraðgerðum er unnt að fyrirbyggja vandann og fækka dauðsföllum verulega. Hins vegar er mjög erfitt fyrir viðkomandi einstakling að átta sig á einkennum sjúkdómsins í tæka tíð á eigin spýtur. Þegar einkenni koma loks fram er helmingur viðkomandi einstaklinga yfirleitt kominn með sjúkdóm á ólæknanlegu stigi. Fyrir utan þau mannslíf og lífsgæði sem eru í húfi, efast fáir um að aðgerðirnar séu þjóðhagslega hagkvæmar. Þær draga stórlega úr rannsóknar- og meðferðarkostnaði tengdum þessum alvarlega sjúkdómi fyrir utan tekjutap og afleiddan kostnað í samfélaginu.

Komist flokkurinn til áhrifa á Alþingi mun hann vilja berjast fyrir hópleit að krabbameini í ristli og endaþarmi. Ávinningur er mikill, bæði myndi fækka nýjum tilvikum sjúkdómsins og draga úr dauðsföllum af völdum hans. Flokkur fólksins telur að kostnaður við meðferð krabbameins í ristli og endaþarmi réttlæti skimun. Flokkur fólksins vill að hópleit af krabbameini í ristli hefjist sem fyrst. Fyrir því mun flokkurinn berjast komist hann til áhrifa á Alþingi og styðja heilshugar verði hann í stjórnarandstöðu.

7. Framsókn hefur ekki mótað sérstaka stefnu um þetta mál. Sýnt hefur verið fram á að þær skila árangri og ristil- og endaþarmskrabbamein er annað algengasta krabbameinið sem greinist á Íslandi og er einnig í öðru sæti þegar kemur að krabbameinum sem dánarorsök, eins og Krabbameinsfélagið hefur vakið athygli á. Það að koma þessu í framkvæmd fellur vel að áherslum okkar um forvarnir. Við teljum skynsamlegt að gera það og styðjum framgang málsins, en við ákveðum það ekki einhliða.

Ný dagdeild blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala:

Samkvæmt krabbameinsáætlun er Landspítali kjarnasjúkrahús fyrir krabbamein. Aðstaða dagdeildar blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala, þar sem langmest er gefið af lyfjameðferð, er óviðunandi. Hún er of lítil, óhentug og ófullnægjandi m.a. út frá sóttvarnarsjónarmiðum. Krabbameinsfélagið ákvað á aðalfundi sínum í vor að veita allt að 450 milljónum til byggingar nýrrar dagdeildar. Félagið byggir á hugmynd Landspítala að lausn sem auðvelt er að hrinda í framkvæmd og er hægt að byggja og taka í notkun á þremur árum. Skilyrði fyrir framlaginu er að stjórnvöld leggist á árar með félaginu og Landspítala og setji bygginguna í forgang. Félaginu hafa ekki borist svör frá stjórnvöldum. Kynningarmyndband vegna verkefnisins.

Er flokkurinn tilbúinn til að setja uppbyggingu nýrrar aðstöðu dagdeildar blóð- og krabbameinslækninga í forgang þannig að hægt verði að ráðast í framkvæmdir árið 2022?

1. Píratar hafa verið ötulir talsmenn þess inni á þingi að flýta uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Núna er góður tími til að ráðast í slíkar fjárfestingar, auk þess sem faraldurinn hefur sýnt hversu vel það borgar sig að eiga gott heilbrigðiskerfi. Í samræmi við þá sýn okkar getum við tekið undir ákallið um að byggja deildina sem fyrst - og þar mun framlag Krabbameinsfélagsins koma að góðum notum. Fyrir Pírötum skiptir öllu máli að þjónustan sé tryggð, fullfjármögnuð og hýst á viðeigandi stað. Píratar myndu alltaf taka ákvörðun um forgangsröðun uppbyggingarinnar í samráði við sérfræðinga á þessum sviðum, það eru einfaldlega langfarsælustu vinnubrögðin.

2. Vinstri grænir: Tryggja þarf að öll aðstaða sé góð á Landspítala. Uppbyggin spítalans við Hringbraut er auðvitað mikilvæg í því samhengi. Nú er unnið að þarfagreiningu um húsnæðið, til dæmis hvað má nýta gamalt húsnæði í. Vinstri græn telja að Nýr Landspítali eigi að vera eins fullkominn spítali og mögulegt er, þar með talið þurfa krabbameinsdeildir að vera í fremstu röð.

3. Sjálfstæðisflokkurinn: Svarið er einfalt: Já sé þess nokkur kostur. Í þessu sambandi er vert að vekja athygli á því að Sjálfstæðisflokkurinn telur nauðsynlegt að mótuð sé ný velferðar- og heilbrigðisstefnu á breiðum grunni í opinberum rekstri og einkarekstri með framtíðarsýn sem tekur til menntunar heilbrigðisstarfsfólks, tækniþróunar og þarfa fólks. Við skipulag heilbrigðisþjónustu sé réttur einstaklinga til þjónustu tryggður.

Ný heilbrigðisstefna verður að fela í sér heildstæða stefnu í sjúkrahúsþjónustu landsmanna. Landspítalinn þarf sem þjóðarsjúkrahús að sinna betur sínu skilgreinda hlutverki á sviði bráðalækninga, rannsókna og háskólakennslu. Spítalinn á að sinna stærri og flóknari aðgerðum, auk þess að vera leiðandi sjúkrahús í sóttvörnum og öryggismálum hvað varðar lýðheilsu og heilsugæslu í landinu. Til að hann geti gegnt þessu forystuhlutverki þarf að gera honum kleift að draga úr annarri starfsemi með því að efna til og styrkja samstarf við aðrar heilbrigðisstofnanir, sérfræðilækna og aðra sjálfstætt starfandi aðila í heilbrigðisþjónustu, þar á meðal Krabbameinsfélagið.

4. Samfylking: Dagdeild blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala er sprungin. Samfylkingin vill tryggja góða heilbrigðisþjónustu fyrir öll og því teljum við þurfa að hraða uppbyggingu nýrrar aðstöðu dagdeildar blóð- og krabbameinslækninga, enda mun þörf fyrir þjónustu á dag- og göngudeildum krabbameina aðeins aukast á næstu árum eins og við höfum séð undanfarin ár.

5. Viðreisn: Við höfum ekki myndað okkur sérstaka stefnu um það en okkar stefna miðar að því að því að þjónustuvæða heilbrigðiskerfið þar sem þjónstan við einstaklinginn er sett í forgrunn. Það myndi því samræmast stefnunni að setja slíka framkvæmd í forgang.

6. Flokkur fólksins: Svarið við þessu er stórt „Já“. Dagdeildin er forgangsmál. Allt er varðar þennan málaflokk, að þoka honum ofar á forgangslistann og berjast fyrir bættri þjónustu þeirra sem fá krabbamein og aðstandendur þeirra styður Flokkur fólksins af heilum hug.

7. Framsókn hefur ekki mótað sérstaka stefnu um þessa dagdeild. Það liggur þó fyrir að ástand hennar í dag er slæmt, sérstaklega hvað varðar aðstöðu til samskipta við sjúklinga og fyrir starfsfólk. Það er sannarlega rausnarlegt af Krabbameinsfélaginu að vera tilbúið til að leggja allt að 450 milljónir, eða rúman þriðjung áætlaðs kostnaðar, til að þoka málinu áfram. Útfærslu á lausn málsins hlýtur að þurfa að móta með samvinnu stjórnvalda, Landsspítalans og Krabbameinsfélagsins. Við lýsum okkur reiðubúin til slíks samtals, en framgangur fer auðvitað eftir því umboði sem kjósendur fela okkur.


Fleiri nýjar fréttir

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?