Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 22. jan. 2020

Söngurinn er mín endurhæfing

„Ég upplifi sönginn sem það mikilvægasta í bataferlinu, að geta stigið á svið og sungið. Þetta styrkir mig meira en allt annað,“ segir Davíð Ólafsson, óperusöngvari og fasteignasali, sem greindist með krabbamein í ristli árið 2016.

Það voru auglýsingar sem Davíð hafði séð frá Mottumars sem ráku hann til læknis þegar krabbameinið uppgötvaðist, en vinur hans Þorsteinn Guðmundsson, leikari, las slagorðin: „Ég fékk hann bara á öxlina á mér með alla frasana úr auglýsingunum; „ekki segja pass við þinn rass“ og svo framvegis, og þetta sat í mér og það var ástæðan fyrir því að ég leitaði læknis.“

Davíð fór í geislameðferð árið 2016, en haustið 2018 kom í ljós að meinið hafði tekið sig upp aftur, ristillinn var fjarlægður og hann fékk varanlegt stóma. Aðgerðin fór fram örfáum dögum eftir að Davíð fagnaði 50 ára afmæli sínu og Krabbameinsfélagið fékk að fylgjast með ferlinu. Sjá má frásögn og myndband af því á Karlaklefinn.is.

„Þegar maður fer í svona stóra aðgerð, hefur maður tíma til að undirbúa sig, loka allri vinnu og verkefnum og bókstaflega hætta öllu. Ég slökkti bara á símanum. Eftir aðgerðina var ég svo algjörlega rúmfastur í tvo mánuði. Ég gat ekki setið og rétt gat staðið upp og fengið mér að borða. En síðan fór ég að geta hreyft mig aðeins og þá fer maður að velja hvað maður tekur inn. Fyrst eftir getu, en aðallega valdi ég það sem mig langaði að gera og það fyrsta sem ég tók inn var söngurinn. Það var eiginlega stærsti heilunarþátturinn í ferlinu mínu.“

Davíð er bassasöngvari. Hann lærði söng í Nýja tónlistarskólanum og Söngskólanum í Reykjavík, en fluttist eftir það til Vínarborgar þar sem hann nam óperusöng. Hann söng víða í Evrópu um árabil en fluttist til Íslands aftur árið 2002 og var fastráðinn við Íslensku óperuna um tíma. Hann starfar nú sem fasteignasali, en síðastliðið haust tók hann þátt í uppfærslu Íslensku óperunnar á Brúðkaupi Fígarós, sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu.

Í upphafi bataferlisins tók það mikið á hann að syngja: „Ég man að ég söng í einu afmæli og svaf í fjóra klukkutíma eftir það, það tók svo mikla orku. En sem betur fer missti ég ekki röddina, eins og gerist stundum eftir aðgerðir. Hún virkar og ég er mjög þakklátur fyrir það.“

Streita og álag ekki í boði 

Þegar Davíð byrjaði að vinna aftur „á skrifstofunni“, eins og hann kallar starf sitt á fasteignasölunni, fór hann að finna hvað álag hafði mikil áhrif: „Bara að þurfa að bjarga einhverju sem var að fara í hnút slökkti á kerfinu hjá mér. Svo lenti ég í því að maður hringdi í mig sem var ekki sáttur og hálf æpti á mig. Þá kvaddi ég hann bara og fór upp í rúm að sofa. Þetta tók alla orku frá mér. Ég lenti í sams konar atviki í sumar, þegar ég var að biðja um hjálp með hljóðkerfi, að pirraður maður æpti á mig og þá gerðist það sama. Ég þurfti tveggja tíma pásu til að jafna mig. En þá var málið líka leyst. Þetta hef ég aldrei upplifað áður því ég vinn vel undir álagi og þannig umhverfi hefur veitt mér ánægju. En í endurhæfingu hefur mér síðan verið sagt að við svona mikil og tíð inngrip í líkamann, taki það taugakerfið langan tíma að jafna sig. Ég verð samt alltaf jafn hissa þegar ég lendi í þessu.“

Davíð skipuleggur vinnuna öðruvísi í dag, velur sér verkefni og passar vel upp á að keyra sig ekki út. Félags- og nefndarstörf hafa vikið fyrir gæðatíma með fjölskyldunni. Það sem hefur hjálpað honum hvað mest í gegnum þetta stóra verkefni er að taka hlutunum eins og þeir eru. „Það er eitthvað æðruleysi, að hugsa ekki til baka því ég breyti ekki því sem orðið er. Þetta er bara svona.“

Engin biðröð á klósettið 

Davíð er í Stómasamtökunum og fór á dögunum á jólahlaðborð samtakanna, þar sem hann sagði tvennt áhugavert hafa komið í ljós: „Annars vegar það að munurinn á mér og jólasveininum er sá að hann er með poka á bakinu, og hitt, að þetta var 100 manna veisla og það var aldrei biðröð á klósettið,“ segir hann og hlær.

David-OlafssonFyrir aðgerðina þurfti Davíð hins vegar að skipuleggja daginn í kringum salernin í umhverfinu, því um tíma fór hann allt að 35 sinnum á sólarhring á salernið. Gönguferðir með fjölskyldunni eða útivera með börnunum voru þá ekki í boði, og þrátt fyrir skipulag urðu slys sem þurfti að bregðast við. Í dag þarf hann þó að vera með auka poka til að skipta ef eitthvað fer úrskeiðis. „En þetta er stórbreyting og algjörlega æðislegt að geta til dæmis farið með krökkunum í hjólhýsi, eða Nauthólsvík, eins og við gerðum um daginn og vera bara rólegur.

Þetta er allt orðið miklu eðlilegra, en yngri krakkarnir eru þó enn að melta þetta og hafa þörf fyrir að segja ókunnugum frá, eins og ef við förum í sund, þá fá sundlaugagestir að heyra að ég sé með poka, þess vegna sé ég ekki ofan í lauginni,“ segir Davíð og hlær. „En þetta er þeirra leið og ég er ekki viðkvæmur fyrir því.“

Hreyfing kemur meira og meira inn í daglegt líf Davíðs og hann gerir æfingar á hverjum morgni, hefur hjólað, en er ekki byrjaður að hlaupa, enda þarf hann að fara varlega þar sem hætta er á kviðsliti hjá þeim sem eru með stóma. „Umskiptin eru svo mikil frá tímanum eftir fyrstu aðgerðina þegar ég var alltaf fastandi og á klósettinu. Ég vil þann tíma ekki aftur og er þess vegna svo sáttur við hvernig allt er núna, því ég er eiginlega alveg frjáls. Ég er kannski aðeins of óþolinmóður, því það er í raun svo stutt síðan ég var rúmliggjandi. En ég er líka rólegri og ekki að stressa mig yfir hlutunum. Er farinn að segja nei við verkefnum og vel úr. Það er gríðarlega mikils virði að vera sáttur við að gera það og að finna að fólk hefur skilning. Ég þarf ekki að afsaka neitt.“

Líkaminn í línudansi 

IMG_9901Breyting á líkamsstarfsemi eftir brottnám ristilsins er verkefni sem Davíð er enn að átta sig á. Einn þriðji ristilsins, hálfur metri, var fjarlægður og Davíð er að finna jafnvægi í upptöku næringar- og saltefna. „Þetta er svona línudans. Ég er að prófa mig áfram með mataræði og finna út hvað líkaminn þarf. Ég vakna stundum svangur, þrátt fyrir að hafa borðað vel. Þetta er eitthvað sem ég þarf að finna út úr, því það bregðast engir tveir eins við.“

Svefninn riðlast líka í svona aðstæðum og þegar orkan er í lágmarki, þarf Davíð stundum að sofa í 12 tíma yfir nóttina til að vinna upp orkuleysi: „Stundum er ég kominn upp í klukkan átta og veit ekki hvort það tekst. En svo á ég ágæta spretti og þetta jafnar sig með tímanum og rútínu.“ 

„Og nú er ég kominn á þann stað í lífinu að vera að vinna í „Bucket-listanum“ mínum. 

Ég fór til dæmis í laxveiði í fyrsta sinn á ævinni í sumar, en mig hefur alltaf langað til að veiða. Það var stórkostlegt. Ég var út í á allan tímann sem ég mátti, 12 tíma á dag, og landaði tveimur löxum. Það var geggjað,“ segir Davíð og aðspurður um hvað sé annað á listanum svarar hann: „Mig langar í gott frí með konunni minni og helst á skemmtiferðarskipi.“

Viðtalið birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins 2020.

Viðtal: Sigríður Sólan Guðlaugsdóttir
Myndir: Ásta Kristjánsdóttir og Sigríður Sólan Guðlaugsdóttir

 


Fleiri nýjar fréttir

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?