Björn Teitsson 25. feb. 2021

Sameiginleg yfirlýsing Heilsugæslunnar og Landspítala vegna skimunarverkefnis

Heilsugæslan og Landspítali eru samstíga við yfirfærslu skimunarverkefnis, segir í sameiginlegri yfirlýsingu. Krabbameinsfélagið ítrekar óskir sínar um velfarnað í því mikilvæga verkefni og hvetur konur til þátttöku. 

Krabbameinsfélagið birtir hér upprunalega yfirlýsingu en hana má einnig finna hér .


„Umfangsmiklar og mikilvægar breytingar voru gerðar á skipulagi, stjórn og framkvæmd skimunar fyrir krabbameinum um síðustu áramót, samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráðherra, sem byggja á tillögum frá Embætti landlæknis og skimunarráði. Landspítali, í samvinnu við Sjúkrahúsið á Akureyri, tók þá að sér framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í brjóstum og sérskoðun á brjóstum og leghálsi en heilsugæslan um land allt fékk það hlutverk að annast framkvæmd skimana fyrir krabbameini í leghálsi. Heilsugæslan ákvað í kjölfarið að semja við danska rannsóknarstofu um sýnagreiningu. Í öllum þessum verkefnum eru gæði þjónustunnar höfð að leiðarljósi og í hvívetna leitast við að tryggja heilsu og öryggi skjólstæðingahópsins.

Íslensk heilbrigðisþjónusta stendur saman að baki þessu heildarverkefni sem snýr að vandasamri og viðkvæmri yfirfærslu margvíslegra verkefna frá Krabbameinsfélagi Íslands yfir til Heilsugæslunnar, Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri. Yfirfærslan hefur því miður ekki verið hnökralaus, ýmissa hluta vegna, og skapað bæði áhyggjur og óöryggi í samfélaginu. Í ljósi umræðu síðustu daga um þetta nýja fyrirkomulag vilja Heilsugæslan og Landspítali taka fram að aðstandendum verkefnisins þykir mjög miður að óvissa hafi skapast um þessa mikilvægu þjónustu. Við slíkt verður ekki búið og keppast nú allir aðilar verkefnisins við að bæta þar úr með fjölbreyttum hætti.

Þar má nefna að Heilsugæslan mun nú setja aukið afl í netspjall við skjólstæðinga á Heilsuvera.is og bjóða þar upp á sérstaka svarþjónustu hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra um skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum. Landspítali mun leggja Heilsugæslunni lið í þessari svarþjónustu, eftir því sem þörf krefur. Mikilvægt er að fólk sem upplifir óvissu eða óöryggi hafi samband við netspjallið á Heilsuvera.is þar sem markmiðið er að svara sértækum spurningum hvers og eins.

Markmiðið með nýja fyrirkomulaginu er að bæta aðgengi að skimun bæði legháls- og brjóstakrabbameina í þéttu samstarfsneti mismunandi aðila íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Verklagið er samkvæmt því sem mælt er með í alþjóðlegum skimunarleiðbeiningum til að tryggja frekar öryggi og gæði þjónustunnar og er jafnframt í samræmi við framtíðarsýn og meginmarkmið heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Embætti landlæknis fer með stjórn hópleitarinnar og ber ábyrgð á henni, sinnir gæðaeftirliti og heldur skimunarskrá.

Meðal fleiri framfaraskrefa í þessu verkefni var að sett var á fót Samhæfingarstöð krabbameinsskimana, sem meðal annars hefur það verkefni að boða fólk í reglubundna skimun og veita upplýsingar um niðurstöður skimana. Samhæfingarstöðin heyrir undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en starfar á landsvísu. Einnig má nefna að innan skamms verður opnuð öflug brjóstamiðstöð Landspítala á Eiríksstöðum í Reykjavík þar sem þessum mikilvæga og viðkvæma hópi skjólstæðinga verður sinnt af kostgæfni. Sá stóri áfangi verður mikið gleðiefni fyrir heilbrigðisþjónustuna í landinu.

Virðingarfyllst,

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala“


Fleiri nýjar fréttir

9. jún. 2023 : Láttu mig vita ef ég get gert eitthvað fyrir þig

Þegar einhver í kringum okkur greinist með krabbamein er eðlilegt að upplifa óöryggi. þótt flestir vilji leggja sitt af mörkum til að vera til staðar getur óttinn við að segja ekki réttu hlutina eða að vita ekki hvað á að segja leitt til þess að jafnvel verði minna samband við viðkomandi en áður.

Lesa meira

30. maí 2023 : Bylting - hálfur milljarður til krabbameinsrannsókna

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá stofnun sjóðsins árið 2015 styrkt 41 krabbameinsrannsókn um samanlagt 384 miljónir króna. Næsta úthlutun úr sjóðnum verður í júní næstkomandi.

Lesa meira

30. maí 2023 : Krabbameinsskimanir – mikið fyrir lítið

Áratugir eru síðan skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini voru teknar upp á Íslandi. Þær hafa fyrir löngu sannað gildi sitt þó þær veiti aldrei fullkomna vörn. Konur hér á landi hafa með afgerandi hætti sýnt að þær kunna að meta aðgengi að þeim.

Lesa meira

30. maí 2023 : Á Ís­landi greinast um 1800 manns á hverju ári með krabba­mein

Þeir gætu verið færri. Þó að ekki sé hægt að koma í veg fyrir öll krabbamein sýna rannsóknir að áhættuþættir margra krabbameina tengjast lífsstíl. Með bættri lýðheilsu þjóðar er hægt að fækka verulega ákveðnum krabbameinum.

Lesa meira

28. maí 2023 : Lokað 30. maí í ráðgjafarþjónustu vegna vinnufundar ráðgjafarteymis

Lokaða verður hjá ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins þriðjudaginn 30. maí vegna vinnufundar ráðgjafarteymis. Hægt er að senda fyrirspurnir og erindi á radgjof@krabb.is og er þeim svarað eins fljótt og hægt er.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?