Ása Sigríður Þórisdóttir 17. des. 2021

Sala á Sparislaufunni slær öll met

Hlín Reykdal skartgripahönnuður styrkti Bleiku slaufuna um 3,6 milljónir króna. Hlín segir það heiður að hafa fengið að hanna Bleiku slaufuna og þótti henni einstaklega vænt um að fá að leggja sitt af mörkum fyrir þá sem greinast með krabbamein og fjölskyldur þeirra.

Hlín Reykdal hannaði Bleiku slaufuna í ár og er óhætt að segja að nokkur eftirvænting hafi ríkt eftir slaufunni. Sala á slaufunni gekk afar vel og seldust um 32.500 slaufur og 380 sparislaufur, en það eru viðhafnarslaufur sem seldar eru í takmörkuðu upplagi. Salan á sparislaufunni sló reyndar öll met í ár. Hlín gaf alla sína vinnu við hönnun og framleiðslu á slaufunni. Hún afhenti Krabbameinsfélaginu um 3,6 milljónir króna sem söfnuðust með sölu á Sparislaufunni 2021.

„Það var mér sannur heiður að hanna Bleiku slaufuna í ár og þótti mér einstaklega vænt um að fá að leggja mitt af mörkum fyrir þá sem greinast með krabbamein og fjölskyldur þeirra. Ég vil fá að þakka öllum hjá Krabbameinsfélaginu og öllu því frábæra fólki sem kom að herferðinni og gerði þetta að ógleymanlegri upplifun. Sérstakar þakkir fá þær Dóra Dúna ljósmyndari, Ellen Lofts stílisti og þær 19 mögnuðu konur sem sátu fyrir í myndatökunni með Bleiku slaufuna.” segir Hlín Reykdal.

Krabbameinsfélagið þakkar Hlín innilega fyrir samstarfið og stuðninginn. „Samstarfið var einstaklega ánægjulegt og mikill fengur í því að fá hennar sýn á Bleiku slaufuna. Innilegar þakkir fyrir allan stuðninginn og samstarfið, kæra Hlín” sagði Kolbrún S. Ásgeirsdóttir, fjáröflunar- og markaðsstjóri Krabbameinsfélagsins.

Fjölmargir leggja árlega hönd á plóg í Bleiku slaufunni. Framlag Láru Guðrúnar Jóhönnudóttur sem sagði sína sögu í ár var algerlega ómetanlegt. Með sögu sinni sýndi Lára á einstakan hátt hvernig áþekkar sögur geta haft ólíkan endi.  

Allur ágóði Bleiku slaufunnar 2021 rennur til fjölbreyttar starfsemi Krabbameinsfélagins. Fyrir ágóðann getur félagið meðal annars verið til staðar fyrir þá sem greinast með krabbamein og aðstandendur með ráðgjöf og stuðningi, sinnt öflugu fræðslu- og forvarnarstarfi og fjölbreyttu vísindastarfi. „Við erum afar þakklát fyrir þá miklu velvild og stuðning sem almenningur og fyrirtæki sýna félaginu í Bleiku slaufunni. Staðreyndin er að starfsemi félagsins er öll rekin fyrir söfnunarfé, svo þátttaka fólks í Bleiku slaufunni skiptir félagið gríðarlegu máli.“ segir Halla Þorvaldsdóttir framkvæmdastjóri félagsins.

Bleika slaufan var til sölu í um 300 verslunum um land allt en Sparislaufan var seld hjá Krabbameinsfélaginu, hlinreykdal.com, Kiosk Granda, MEBA og í Stefánsbúð p/3.

 


Fleiri nýjar fréttir

5. des. 2023 : Takk sjálfboðaliðar!

Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða og Krabbameinsfélagið vill nýta tækifærið og þakka öllum þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem leggja sitt af mörkum í þágu félagsins. Í tilefni dagsins fengum við nokkra sjálfboðaliða til að segja okkur frá því hvers vegna þau velja að leggja baráttunni gegn krabbameinum lið.

Lesa meira

5. des. 2023 : Aðstoð við að velja mat sem eykur heilbrigði og vellíðan

Við þurfum hjálp! Ákall til matvælaframleiðenda og sölu- og markaðsaðila matvæla. Mörg fyrirtæki standa sig vel þegar kemur að markaðssetningu á mat og drykkjarvöru. Sum fyrirtæki sem bjóða upp á heilsueflandi mat en einnig mat- og drykkjarvörur sem geta haft neikvæð áhrif á heilsu hlífa til dæmis börnum við markaðssetningu á slíkum vörum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira

4. des. 2023 : Kírópraktorstöðin styrkir Bleiku slaufuna

Kírópraktorstöðin afhenti á dögunum 500.000 krónur til Krabbameinsfélagsins. Upphæðin er afrakstur af einstaklega vel heppnuðu Konukvöldi sem þau stóðu fyrir í tilefni af Bleikum október. Krabbameinsfélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn, sem kemur að góðum notum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Ný rannsókn styður við einstaklingssniðna meðferð

Ný íslensk rannsókn sem birtist í dag í npj Breast Cancer og var unnin í samstarfi Krabbameinsfélagsins við meinafræðideild og krabbameinslækningadeild Landspítala, og við Háskóla Íslands. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?