Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 28. jan. 2020

Ósk eftir samstarfi við stjórnvöld um endurhæfingu

  • Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Bæta þarf möguleika á viðeigandi alhliða endurhæfingu fyrir fólk sem greinist með krabbamein og viðurkenna opinberlega rétt þess til endurhæfingar.

Þetta er niðurstaða samstarfshóps sérfræðinga og hagsmunaaðila um mikilvægi endurhæfingar fyrir krabbameinsgreinda, sem segir að auka þurfi þjónustu og samræma verklag, enda sýni rannsóknir að viðeigandi endurhæfing hjálpi einstaklingum að takast betur á við daglegt líf, að stunda atvinnu og að búa við betri lífsgæði. Óskað er eftir samstarfi við stjórnvöld og gefin hefur verið út aðgerðaráætlun. 

Í samstarfshópnum eru fulltrúar endurhæfingarteymis fyrir krabbameinsgreinda sem koma frá Landspítala, Heilsustofnun NLFÍ, Krabbameinsfélaginu, Krafti, Ljósinu og Reykjalundi. Hópurinn stóð meðal annars að málþingi í maí 2018, þar sem skorað var á stjórnvöld að leggja fram stefnumótun og fjármagnaða aðgerðaráætlun um endurhæfingu þeirra sem greinast með krabbamein hér á landi. 

Spá 30% aukningu á krabbameinstilfellum 

Árlega greinast um 1.600 manns með krabbamein á Íslandi. Í árslok 2017 voru 14.744 einstaklingar á lífi sem greinst höfðu með krabbamein. Spáð er um 30% aukningu nýgreininga á næstu 15 árum, fyrst og fremst vegna hækkandi meðalaldurs og fjölgun íbúa. Einstaklingum sem greinast, læknast og lifa með krabbamein sem langvinnan sjúkdóm mun því fjölga. 

Margvíslegir snemm- og síðbúnir fylgikvillar fylgja krabbameinum og krabbameinsmeðferðum, bæði líkamlegir, sálrænir, félagslegir og tilvistarlegir. 

„Aukin þörf fyrir endurhæfingu hópsins blasir því við. Það er bráðnauðsynlegt að koma á markvissri endurhæfingu enda er mikill samfélagslegur ávinningur af því að hjálpa fólki að endurheimta virkni, heilsu og lífsgæði eftir að hafa verið kippt út úr daglegri rútínu við krabbameinsmeðferð. Endurhæfing getur dregið úr alls kyns fylgikvillum og hjálpað einstaklingum með krabbamein og þeirra nánustu að takast betur á við daglegt líf. Þetta er þjóðþrifamál sem þarf að ganga í sem allra fyrst,“ segir Rannveig Björk Gylfadóttir, teymisstjóri endurhæfingarteymis fyrir krabbameinsgreinda á Landspítala. 

Aðgerðaáætlun 

Samstarfshópurinn stóð að vinnustofu síðastliðið vor um endurhæfingu fyrir þá sem greinast með krabbamein. Fulltrúar sjúklingasamtaka og fagaðilar um allt land unnu að málinu af krafti og lögðu grunn að aðgerðaáætluninni sem nú er lögð fram. Í henni er lögð áhersla á að styrkja endurhæfingarteymi Landspítala, kortleggja endurhæfingarþörf og úrræði í boði, skilgreina og hanna samræmt og samfellt endurhæfingarferli allt frá greiningu krabbameins, nýta nýjustu tækni til að miðla rafrænt upplýsingum um endurhæfingu og liðka fyrir endurkomu á vinnumarkað. 

Miklar vonir bundnar við krabbameinsáætlun Heilbrigðisráðherra tilkynnti um samþykkt krabbameinsáætlunar í lok janúar 2019. Þar er meðal annars fjallað um endurhæfingu krabbameinsgreindra. Lítið hefur enn frést af vinnu við áætlunina. Ráðherra hefur opinberlega lýst yfir vilja til að efla endurhæfingu og forvarnir á Íslandi og tilkynnti í haust að heilbrigðisráðuneytinu hafi verið falin stefnumótun um það sem muni liggja fyrir í ársbyrjun 2020. 

„Við fögnum þessu og vonumst til að aðgerðaáætlunin okkar styðji við vinnu ráðuneytisins, enda er nauðsynlegt að samfélagið eigi heildstæða áætlun um endurhæfingu þeirra sem greinast með krabbamein,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Greinin birtist í Blaði Krabbameinsfélagsins 2020. 


Fleiri nýjar fréttir

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?