Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 17. jan. 2020

Nýjum tímum fylgja nýjar áskoranir

Krabbameinsfélagið var stofnað árið 1951 „í þeim tilgangi að styðja í hvívetna baráttuna gegn krabbameini“. Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins skrifar leiðara í blað félagsins.

Tilgangur félagsins, sem hefur frá upphafi verið sameiningarafl og málsvari þeirra sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra, hefur í sjálfu sér ekki breyst þó liðin séu tæp 70 ár. Félaginu er ekkert óviðkomandi sem varðar krabbamein en leiðirnar sem félagið hefur til að takast á við síbreytilegar áskoranir eru hins vegar aðrar og fleiri í dag en við upphaf starfseminnar.

Starfsemi félagsins er afar fjölbreytt og í þessu fyrsta Blaði Krabbameinsfélagsins er að finna upplýsingar um nokkur þeirra fjölmörgu verkefna sem félagið og aðildarfélög þess sinna. 

Ákvörðun heilbrigðisráðherra um að skimun fyrir krabbameinum í leghálsi og brjóstum færist á hendur heilsugæslu og ríkisins eftir eitt ár mun hafa áhrif á starfsemi félagsins þar sem skimunin hefur verið stór þáttur frá því hún var tekin upp með skipulögðum hætti árin 1964 og 1987. Slík breyting er áskorun fyrir félagið en gefur tækifæri til að sinna öðrum þáttum með enn meiri krafti en áður. Nýjar áskoranir kalla á nýjar leiðir. Í blaðinu er kynnt nýtt merki félagsins sem undirstrikar fjölbreytt hlutverk félagsins, stuðning, rannsóknir, forvarnir og málsvarahlutverk og endurspeglar samstöðu og sameiningarkraft.

Fjölgun krabbameinstilfella 

Samfélagið er síbreytilegt og það gildir líka um krabbamein. Greiningaraðferðum fleygir fram og það sama á við um krabbameinsmeðferðir. Vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar er áætlað að krabbameinstilvikum muni fjölga um að minnsta kosti 25% á næstu 10 árum. Árið 2030 munu líklega greinast um 2000 manns með krabbamein hér á landi miðað við 1647 manns árið 2018. Krabbamein eru algengasta orsök ótímabærra dauðsfalla fólks yngra en 75 ára hér á landi en sem betur fer læknast sífellt fleiri af krabbameinum eða lifa með þau sem langvinna sjúkdóma. Þó árangurinn fari batnandi reynir á fólk sem greinist með krabbamein og gengur í gegnum meðferð. Öll sagan er ekki sögð þó árangursríkri meðferð ljúki því margir eru „læknaðir en laskaðir“. Því þarf að nýta allar færar leiðir til að tryggja sem mestan bata og lífsgæði. Fjölþætt endurhæfing til að mæta fylgikvillum meðferðar og samspili við aðra sjúkdóma er því nauðsyn. Horfur þeirra sem greinast með krabbamein eru mjög mismunandi, allt eftir tegund krabbameinsins og stigi við greiningu. Þó árangur fari mjög batnandi í meðferð ákveðinna krabbameina þarf að stórauka rannsóknir á öðrum sjaldgæfum krabbameinum og meðferð við þeim.

Jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu 

Rannsóknir í nágrannalöndunum sýna að menntunarstig, tekjur, búseta og fleira skiptir máli þegar kemur að krabbameinum, greiningu þeirra, meðferð og árangri. Staðan er væntanlega svipuð hér á landi. Hér þarf að greina og bæta úr. 

Við blasir líka sú risastóra áskorun fyrir samfélagið, að tryggja fjármögnun heilbrigðiskerfisins þannig að allir hafi jafnt aðgengi að sem bestri þjónustu, nú og í framtíðinni. Það krefst fjármagns, mönnunar og aðstöðu. 

Forvarnir gegn krabbameinum er verkefni sem varðar samfélagið allt og verður að taka alvarlega til að draga úr fórnarkostnaði einstaklinga og fjölskyldna og kostnaði fyrir samfélagið. Við þekkjum sífellt betur áhættuþætti krabbameina og þurfum að finna árangursríkar leiðir til að haga lífsstíl okkar til samræmis við þá þekkingu. Nýsköpun og tæknilausnir munu örugglega skipta þar sköpum svo og til að tryggja endurhæfingu við hæfi, til að styrkja fólk sem virka þátttakendur í eigin meðferð og svo mætti lengi telja. 

Krabbameinsfélagið horfir bjartsýnt til framtíðar en áskoranirnar eru óteljandi. Félagið vill áfram hafa frumkvæði að því að finna leiðir til að takast á við þær af fagmennsku, með framsýni og hugrekki. Það mun takast, með áframhaldandi dyggum stuðningi almennings og fyrirtækja í landinu. Með ferskum hugmyndum, metnaði og starfsemi sem byggir á traustum grunni, blásum við vindi í seglin.

Greinin birtist í blaði Krabbameinsfélagsins.


Fleiri nýjar fréttir

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?