Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 30. jan. 2018

Ný tæki á Leitarstöð

  • Taeki-a-Leitarstod-1000x
    Á myndinni eru frá vinstri Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, Magnús Baldvinsson, röngtenlæknir og yfirlæknir á Leitarstöðinni og Guðrún Birgisdóttir, deildarstjóri á röngtendeild Leitarstöðvar.

Krabbameinsfélag Íslands hefur nú endurnýjað að stórum hluta tækjabúnað Leitarstöðvarinnar til skipulegrar leitar að brjóstakrabbameini. Safnað var fyrir tækjunum í Bleiku slaufunni 2016. Alls söfnuðust 132 milljónir í átakinu sem runnu óskiptar til tækjakaupanna. Endurnýjunin gerist í tveimur áföngum og hafa nú hópleitartæki verið uppfærð.

Ávinningurinn af endurnýjuðum tækjabúnaði er meðal annars minni geislun og óþægindi við myndatökur, meiri hraði í myndatöku, nákvæmari skjáir sem bæta greiningarmöguleika, hagræðing vegna lægri bilanatíðni og sparnaður við viðhald tækjanna. 

„Þetta er til mikilla bóta og eykur gæðin í starfi okkar í leit að brjóstakrabbameini,” segir Magnús Baldvinsson, röngtenlæknir og yfirlæknir á Leitarstöðinni; „Þessi endurnýjun auðveldar mjög alla vinnu okkar og fullnægir nú þeim kröfum sem gerðar eru fyrir slíka starfsemi bæði varðandi gesti Leitarstöðvarinnar og starfsfólk hennar.“

„Hér er um mikið framfaraskref að ræða og afar ánægjulegt að hægt sé að styðja leitarstarfið með þessum hætti,” segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins; „Bleika slaufan nýtur mikillar velvildar meðal landsmanna og hér sjáum við á mjög afgerandi hátt hve miklu er hægt að áorka með dyggum stuðningi almennings.“

Í þessum fyrri áfanga voru hópleitartæki uppfærð, tölvu- og hugbúnaður sem notaður er við hópleitina ásamt hugbúnaði til geymslu og skoðunar á myndum. Einnig hafa nýir skjáir sem notaðir eru til greiningar á röntgenmyndum verið endurnýjaðir, en þeir búa yfir stóraukinni upplausn og fleiri greiningarmöguleikum sem auðvelda vinnu við greiningar á brjóstakrabbameini. 

Í seinni áfanganum verða tæki til sérskoðana uppfærð og keypt ný tæki sem innihalda möguleika til þrívíddargreiningar, myndatöku með skuggaefni og nýrri tækni við sýnatöku úr meinum. Einnig verða keypt ómtæki til notkunar við sérskoðanir og hugbúnaður fyrir boðun uppfærður. 

Skimað er eftir krabbameini í brjóstum hjá konum á aldrinum 40-69 ára. Konur eru hvattar til að panta sér tíma þegar þær fá boð um það.

Opið hús

Í tilefni af alþjóðlega krabbameinsdeginum, sunnudaginn 4.febrúar, býður Krabbameinsfélagið landsmenn velkomna í Skógarhlíð 8 kl 13:00-15:00 þar sem hægt verður að skoða tækin. Kynning á starfsemi hússins fer fram í Ráðgjafarþjónustu og á Leitarstöð.


Fleiri nýjar fréttir

1. des. 2023 : Minningarorð um Jón Þorgeir Hallgrímsson

Jón Þorgeir Hallgrímsson, læknir, fyrrverandi formaður Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags Reykjavíkur lést þann 21. nóvember sl., 92 ára að aldri. Jóns Þorgeirs er minnst hjá Krabbameinsfélaginu með mikilli virðingu og þakklæti. Aðstandendum vottar félagið innilega samúð. 

Lesa meira

28. nóv. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira
Ljósmynd: Thule Photos

28. nóv. 2023 : Dýrmætt að vita að maður stendur ekki einn í þessu

Flestir sem hafa upplifað það að missa einhvern náinn sér eru líklega sammála um að sorgin er erfið og þungbær. Sorg barna er sérstaklega vandmeðfarin og það getur skipt máli fyrir úrvinnslu þeirra að fá réttan stuðning frá nærsamfélaginu. Hannes missti eiginkonu sína úr krabbameini árið 2022, en þau áttu tvær dætur saman. Hann segir hér frá sorgarúrvinnslunni og helstu úrræðum sem þau feðgin hafa nýtt sér, en þar á meðal er stuðningur Krabbameinsfélagsins við börn sem missa foreldri.

Lesa meira

28. nóv. 2023 : „Mig langaði til að taka þessa byrði og bera hana sjálf“

Rakel Ósk Þórhallsdóttir, eigandi vefverslunarinnar Central Iceland, hefur undanfarin þrjú ár stutt dyggilega við Bleiku slaufuna, en í heildina telur framlag hennar 7.385.000 kr. Rakel segir hér frá drifkraftinum á bak við verkefnið, en hún hefur persónulega tengingu við málstaðinn.

Lesa meira

23. nóv. 2023 : Fulltrúar Krabbameinsfélagsins á faraldsfæti

Um þessar mundir stendur Krabbameinsfélagið fyrir átaksverkefni sem miðar að því að fjölga í þeim góða hópi Velunnara sem styðja þétt við bakið á félaginu með mánaðarlegum framlögum. Í nóvember heimsækjum við Selfoss.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?