Ása Sigríður Þórisdóttir 4. des. 2023

Ný rannsókn styður við einstaklingssniðna meðferð

Grein birtist í Skoðun á Visir.is þann 2. desember 2023.

Ný íslensk rannsókn sem birtist í dag í npj Breast Cancer og var unnin í samstarfi Krabbameinsfélagsins við meinafræðideild og krabbameinslækningadeild Landspítala, og við Háskóla Íslands. 

Aukin þekking bætir stöðugt möguleika á einstaklingssniðinni meðferð, en hún er sniðin að hverjum og einum út frá arfgerð og öðrum þáttum sem einkenna einstaklinginn. Ný íslensk rannsókn staðfestir mikilvægi slíkrar nálgunar fyrir tvo aðskilda hópa kvenna með brjóstakrabbamein. Annars vegar eru það konur með stökkbreytingar í BRCA2-geninu og hins vegar konur sem fá brjóstakrabbamein 40 ára eða yngri en bera ekki slíkar stökkbreytingar. Báðir þessir hópar hafa óvenjuleg tengsl milli forspárþátta og lifunar sem gerir það að verkum að taka þarf tillit til sérstöðu þeirra þegar meðferð er ákveðin.

Tvennt er óvenjulegt hjá þessum hópum. Í fyrsta lagi, að þótt vel sé þekkt að hormónajákvæð brjóstakrabbamein spái fyrir um betri horfur en hormónaneikvæð, þá er sambandið öfugt hjá hópunum tveimur og hjá þeim tengjast hormónajákvæðu æxlin verri horfum. Í öðru lagi, að þótt venjulega sé hagstæðara að greinast með mein sem hafa lága æxlisgráðu, þá gildir það ekki fyrir þessa tvo hópa.

Mikilvægt er að nýta þessa vitneskju þegar meðferðin er skipulögð og því er nauðsynlegt að vita áður en meðferð hefst, hvort kona sem greinist með brjóstakrabbamein hafi BRCA2-stökkbreytingu. Ákvörðun um meðferð byggist meðal annars á æxlisgráðu og því hvort æxlið sé hormónajákvætt, en við vitum nú að þessa tvo forspárþætti þarf að túlka á annan hátt hjá þessum tveimur hópum heldur en hjá flestum öðrum konum.

Hið óvenjulega samband milli forspárþátta og lifunar fyrir þessa tvo hópa vekur einnig upp nýjar líffræðilegar spurningar og gætu áframhaldandi rannsóknir á orsökum þess gefið nýja innsýn í eðli brjóstakrabbameins og jafnvel leitt til nýrra meðferðarmöguleika.

Forsagan er sú að fyrir 10 árum gerðum við óvænta uppgötvun, en þær niðurstöður þóttu í fyrstu afar ótrúlegar. Þar kom í ljós að hjá arfberum BRCA2-stökkbreytingar með brjóstakrabbamein var öfugt samband milli framgangs krabbameinsins og þess að æxlin væru hormónajákvæð og með fáar frumuskiptingar, þ.e. öfugt samband miðað við það sem áður var þekkt. Þessir forspárþættir sem almennt spá fyrir um góðar horfur, tengdust verri horfum hjá þessum sérstaka hópi kvenna. Við staðfestum niðurstöðurnar í rannsókn á stærri íslenskum hópi þremur árum síðar, og í kjölfarið hafa birst rannsóknir frá mörgum löndum sem staðfesta að þær gilda einnig fyrir konur af ýmsu þjóðerni, þar á meðal norræn rannsókn sem stýrt var af Krabbameinsfélagi Íslands.

Síðustu ár hafa erlendar rannsóknir sýnt fram á að svipað samband virðist einnig vera til staðar hjá konum sem greinast ungar með brjóstakrabbamein og því vaknaði sú spurning hvort skýringin gæti legið í því að hjá ungum tilfellum væri svo hátt hlutfall BRCA2-arfbera.

Fyrir atbeina hinnar nákvæmu íslensku krabbameinsskrár ásamt umfangsmiklum upplýsingum úr fyrri rannsóknum okkar var hægt að svara þessari spurningu, því af öllum konum sem fengu brjóstakrabbamein árin 1980-2004 höfðu 85% tekið þátt og verið prófaðar fyrir íslensku landnemastökkbreytingunni í BRCA2-geninu. Þar af höfðu 6,7% meðfædda BRCA2 stökkbreytingu og hlutfallið var mun hærra, eða 21%, meðal kvenna sem höfðu greinst 40 ára eða yngri.

En þegar þessi 21% sem höfðu BRCA2 stökkbreytingu voru tekin út úr hópi ungu kvennanna var hið öfuga samband enn til staðar, svo að ljóst er að það skýrist ekki af stökkbreytingunni. Næstu skref eru að kanna hvaða önnur atriði í genamengi ungu kvennanna gætu skýrt þessa hegðun æxlanna og jafnframt að leita að orsökum hinnar sérstöku hegðunar æxla sem tengjast BRCA2-stökkbreytingum.

Höfundur: Laufey Tryggvadóttir, yfirmaður faraldsfræðirannsókna hjá rannsókna- og skráningarsetri Krabbameinsfélagsins.

Grein birtist í Skoðun á Visir.is þann 2. desember 2023.

 


Fleiri nýjar fréttir

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?