Ása Sigríður Þórisdóttir 18. nóv. 2021

Ný rafræn samskiptagátt fyrir sjúklinga með krabbamein

Heilsumeðvera er ný rafræn samskiptagátt sem fer í loftið í nóvember. Þar geta krabbameinssjúklingar nálgast upplýsingar um meðferð, sent inn fyrirspurnir og fengið fræðsluefni sniðið að sínum sjúkdómi og meðferð. Heilbrigðisstarfsmaður vaktar þær fyrirspurnir sem berast, til að tryggja greið svör.

Orðið Heilsumeðvera er samsett úr orðunum Heilsuvera og Meðvera. Heilsuvera vísar til viðmóts sjúklings á Heilsuvera.is, sem tengist Meðveru sem er viðmót meðferðarteymis sjúklings í sjúkraskrákerfi Sögu á Landspítala.

Þetta virkar þannig að sjúklingar í Krabbameinsþjónustu fá aðgang að nýrri einingu í Heilsuveru sem nefnist Meðferð. Þar hafa þeir aðgang að skilaboðagátt við sitt meðferðarteymi, fræðsluefni og spurningalistum um líðan og einkenni sem mikilvægt er að fylgjast með. Meðferðarteymi sjúklings getur haldið utan um hópa sjúklinga í Meðveru, sent þeim fræðsluefni, spurningalista og skilaboð.

Reglulegt mat á líðan og einkennum hjá sjúklingum í heimahúsum er mjög mikilvægur hluti þessarar samskiptagáttar og meðferðarteymið mun vakta gáttina á hverjum degi og bregðast við svörum sjúklinga. Auk þess fá sjúklingar sjálfvirkt sent fræðsluefni um þau einkenni og vandamál sem þeir merkja við á spurningalistunum.

Tækni- og notendaprófanir sem gerðar voru meðal sjúklinga og hjúkrunarfræðinga sýndu almenna ánægju með þennan nýja rafræna samkiptamöguleika milli sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks. Gáttin væri auðveld í notkun og auðveldaði samskipti milli sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks.

Áætlað er að hefja innleiðingu um miðjan nóvember og verður byrjað á á dag- og göngudeild blóð- og krabbameinslækninga. Síðan munu bætast við fleiri deildir í krabbameinsþjónustunni. Innleiðing hefst með þjálfun starfsmanna og upplýsingagjöf til sjúklinga um notkun á heilsuveru. Auk þess verður eftirfylgd og stuðningur við starfsfólk fyrstu mánuðina meðan verið er að innleiða nýtt verklag.

„Krabbameinsfélagið fagnar því að þessi nýja rafræna samskiptagátt Heilsumeðvera sé að komast í gagnið og telur hana vera mjög til hagsbóta fyrir sjúklinga, aðstandendur og heilbrigðisstarfsfólk" segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdarstjóri Krabbameinsfélagins.

Krabbameinsfélagið er fjárhagslegur bakhjarl rafrænu samskiptagáttarinnar og hefur félagið veitt til verkefnisins 20 milljónum auk þess sem Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins styrkti verkefnið um 9 milljónir.

 


Fleiri nýjar fréttir

24. nóv. 2021 : Fræðslu­mynd í tilefni stór­afmælis

Í tilefni af 40 ára afmæli Stómasamtaka Íslands er nú komin út vönduð fræðslumynd. Samtökin eru hagsmunasamtök stómaþega á Íslandi sem leggja áherslu á aukin lífsgæði stómaþega með fræðslu, stuðningi og hvatningu.

Lesa meira
Birna Þórisdóttir

19. nóv. 2021 : Krabbameinsfélagið tekur þátt í verkefni um nýsköpun í heilsueflingu

Í dag kynnir Birna Þórisdóttir sérfræðingur og nýdoktor við Háskóla Íslands og fyrrum sérfræðingur hjá Krabbameinsfélaginu niðurstöður verkefnisins Er það bara ég eða stekkur súkkulaðið sjálft ofan í innkaupakerruna?

Lesa meira

18. nóv. 2021 : Jóla­happ­drætti Krabba­meins­félags­ins: Stuðningur við marg­þætta starf­semi

Nú hafa verið sendir út miðar í jólahappdrætti Krabba­meins­félagsins. Allt frá árinu 1955 hefur Krabba­meins­félagið staðið fyrir happdrætti sem hefur verið ein veigamesta tekjulind félagsins og stuðlað mjög að uppbyggingu þess og þróun. 

Lesa meira

13. nóv. 2021 : Sendu pabba mikilvæg skilboð á Feðradaginn

Í tilefni af Feðradeginum, sunnudaginn 14. nóvember, hvetur Krabbameinsfélagið alla til að senda pabba mikilvæg skilaboð - því við viljum hafa pabbana sem lengst á meðal okkar, við sem besta heilsu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?