Guðmundur Pálsson 4. sep. 2018

Ný herferð hvetur konur til þátttöku í skimun

Krabbameinsfélagið hefur hleypt af stokkunum nýrri auglýsingaherferð sem ætlað er að hvetja konur til að nýta sér tækifæri til skimunar fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum. Þátttaka kvenna í leit hefur farið minnkandi á undanförnum árum.

Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir á Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands segir afar mikilvægt að snúa þessari þróun við: „Sérstaklega er mikilvægt að fá ungu konurnar til að mæta og taka þátt í skimun fyrir krabbameinum. Þetta er sem betur fer staða sem við getum breytt en við þurfum að auka meðvitund kvenna um hve mikilvæg skimunin er og í nútímasamfélagi þurfa skilaboðin að vera áhrifarík. Herferðin endurspeglar það.“

Skilaboðin í auglýsingunum eru unnin úr niðurstöðum könnunar sem Gallup gerði fyrir félagið árið 2014 þar sem fram komu ástæður þess að konur mættu ekki í skimun. Meðal þeirra „afsakana“ sem konurnar notuðu voru;

  • Erfiðleikar með að komast frá vinnu
  • Hræðsla við sársauka
  • Kostnaður við skimunina
  • Frestunarárátta
  • Framtaksleysi 

leghals

Ekki vera trassar!

„Tilboð um reglubundna skimun fyrir krabbameinum er ekki sjálfsagt mál. Að mínu mati ætti hins vegar að vera sjálfsagt mál fyrir okkur konur að nýta okkur tilboðið. Við eigum ekki að vera trassar!“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Þess má geta að mörg stéttarfélög og sum fyrirtæki taka þátt í kostnaði vegna skimunar fyrir krabbameinum. Og nú geta konur skoðað upplýsingar um boðun og eigin þátttöku í skipulegum skimunum fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum rafrænt á mínum síðum Ísland.is. Skimunarsagan er afrakstur samstarfs á milli Krabbameinsfélags Íslands og Þjóðskrár Íslands.

„Tækninni fleygir sem betur fer stöðugt fram og auðveldar okkur að nálgast upplýsingar. Við hvetjum allar konur á Íslandi til að kynna sér málið á island.is og mæta reglulega í skimun, því þannig getum við fyrirbyggt krabbamein eða fundið þau á byrjunarstigum sem gerir meðferð mun líklegri til árangurs,“ segir Halla.


Fleiri nýjar fréttir

5. des. 2023 : Takk sjálfboðaliðar!

Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða og Krabbameinsfélagið vill nýta tækifærið og þakka öllum þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem leggja sitt af mörkum í þágu félagsins. Í tilefni dagsins fengum við nokkra sjálfboðaliða til að segja okkur frá því hvers vegna þau velja að leggja baráttunni gegn krabbameinum lið.

Lesa meira

5. des. 2023 : Aðstoð við að velja mat sem eykur heilbrigði og vellíðan

Við þurfum hjálp! Ákall til matvælaframleiðenda og sölu- og markaðsaðila matvæla. Mörg fyrirtæki standa sig vel þegar kemur að markaðssetningu á mat og drykkjarvöru. Sum fyrirtæki sem bjóða upp á heilsueflandi mat en einnig mat- og drykkjarvörur sem geta haft neikvæð áhrif á heilsu hlífa til dæmis börnum við markaðssetningu á slíkum vörum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira

4. des. 2023 : Kírópraktorstöðin styrkir Bleiku slaufuna

Kírópraktorstöðin afhenti á dögunum 500.000 krónur til Krabbameinsfélagsins. Upphæðin er afrakstur af einstaklega vel heppnuðu Konukvöldi sem þau stóðu fyrir í tilefni af Bleikum október. Krabbameinsfélagið þakkar kærlega fyrir stuðninginn, sem kemur að góðum notum.

Lesa meira

4. des. 2023 : Ný rannsókn styður við einstaklingssniðna meðferð

Ný íslensk rannsókn sem birtist í dag í npj Breast Cancer og var unnin í samstarfi Krabbameinsfélagsins við meinafræðideild og krabbameinslækningadeild Landspítala, og við Háskóla Íslands. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?