Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 23. jan. 2019

Núvitund fyrir ungmenni sem hafa misst ástvin

Krabbameinsfélagið býður nú upp á námskeið í núvitund fyrir aðstandendur á aldrinum 16-22 ára. 

Rannsóknir sýna að núvitundarþjálfun og meðferð hefur jákvæð áhrif á líðan, getur aukið gæði daglegs lífs, bætt heilsufar og dregið úr streitu, kvíða og depurð. Þetta eru algengir kvillar hjá þeim sem missa nákominn ástvin.

„Það er mikið áfall að missa ástvin og erfitt í þeim aðstæðum að hafa stjórn á tilfinningum, sorgin getur verið djúp og vanlíðan mikil. Það hefur gjarnan mikil áhrif á lífið, meðal annars nám, vinnu og vinskap,“ segir Sigrún Lillie Magnúsdóttir, forstöðumaður Ráðgjafarþjónustunnar. 

Námskeiðið byggir á MBCT (Mindfulness-Based Cognitive Therapy) og var gagngert hannað sem fyrirbyggjandi inngrip fyrir fólk með endurtekið eða þrálátt þunglyndi en hefur síðan verið þróað sem úrræði fyrir margvíslega sálræna erfiðleika. 

Í núvitundarþjálfun er tvinnað saman núvitund, aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar og sálfræði austrænnar visku. Námskeiðið er tvískipt. Á fyrra námskeiðinu, fjögur skipti, er farið í grunnþjálfun á núvitund, núvitundaræfingar, fræðslu og umræður. Á seinna námskeiðinu er iðkunin dýpkuð og tekist á við sorgarferlið og aðra erfiðleika með aðferðum núvitundar.

Leiðbeinandinn er Edda Margrét Guðmundsdóttir sálfræðingur sem hefur sérhæft sig í núvitundarmiðaðri meðferð.

Mæla með námskeiðinu

„Það getur verið gagnlegt við þessar aðstæður að hitta aðra í svipuðum sporum og sjá að maður er ekki einn. Allir þátttakendur á fyrra námskeiðinu hafa valið að taka seinna námskeiðið líka. Þeir hafa talið það hafa góð áhrif og mæla með námskeiðinu fyrir aðra,“ segir Sigrún.

„Þeim fannst námskeiðið hjálpa með einbeitingu, nám og dagleg verkefni eins og að tala við ókunnuga, halda fyrirlestra og koma sér að verki. Þá fannst þeim gagnlegt að læra að takast á við lífið einn dag í einu, ekki síst á þeim dögum sem voru erfiðir.“

Næsta námskeið hefst 7. febrúar og frekari upplýsingar um skráningu er að finna hér .


Fleiri nýjar fréttir

1. des. 2023 : Minningarorð um Jón Þorgeir Hallgrímsson

Jón Þorgeir Hallgrímsson, læknir, fyrrverandi formaður Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags Reykjavíkur lést þann 21. nóvember sl., 92 ára að aldri. Jóns Þorgeirs er minnst hjá Krabbameinsfélaginu með mikilli virðingu og þakklæti. Aðstandendum vottar félagið innilega samúð. 

Lesa meira

28. nóv. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira
Ljósmynd: Thule Photos

28. nóv. 2023 : Dýrmætt að vita að maður stendur ekki einn í þessu

Flestir sem hafa upplifað það að missa einhvern náinn sér eru líklega sammála um að sorgin er erfið og þungbær. Sorg barna er sérstaklega vandmeðfarin og það getur skipt máli fyrir úrvinnslu þeirra að fá réttan stuðning frá nærsamfélaginu. Hannes missti eiginkonu sína úr krabbameini árið 2022, en þau áttu tvær dætur saman. Hann segir hér frá sorgarúrvinnslunni og helstu úrræðum sem þau feðgin hafa nýtt sér, en þar á meðal er stuðningur Krabbameinsfélagsins við börn sem missa foreldri.

Lesa meira

28. nóv. 2023 : „Mig langaði til að taka þessa byrði og bera hana sjálf“

Rakel Ósk Þórhallsdóttir, eigandi vefverslunarinnar Central Iceland, hefur undanfarin þrjú ár stutt dyggilega við Bleiku slaufuna, en í heildina telur framlag hennar 7.385.000 kr. Rakel segir hér frá drifkraftinum á bak við verkefnið, en hún hefur persónulega tengingu við málstaðinn.

Lesa meira

23. nóv. 2023 : Fulltrúar Krabbameinsfélagsins á faraldsfæti

Um þessar mundir stendur Krabbameinsfélagið fyrir átaksverkefni sem miðar að því að fjölga í þeim góða hópi Velunnara sem styðja þétt við bakið á félaginu með mánaðarlegum framlögum. Í nóvember heimsækjum við Selfoss.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?