Sóley Jónsdóttir 8. maí 2017

Krabbameinsfélagið veitir tugmilljónir í styrki úr Vísindasjóði

Á laugardag var úthlutað í fyrsta sinn úr Vísindasjóði Krabbameinsfélags Íslands. Heildarupphæð styrkja var 42,6 milljónir króna en hæsta styrkinn, 7,5 milljónir króna, hlaut Margrét Helga Ögmundsdóttir.

Vísindasjóður Krabbameinsfélags Íslands var formlega stofnaður í desember 2015 með framlögum frá Krabbameinsfélagi Íslands og aðildarfélögum þess. Auk þess runnu minningarsjóður Ingibjargar Guðjónsdóttur Johnson og sjóður Kristínar Björnsdóttur inn í Vísindasjóðinn.

Auglýst var eftir umsóknum um styrki í byrjun febrúar og bárust 23 umsóknir. Umsóknirnar fóru til umfjöllunar hjá níu manna Vísindaráði Krabbameinsfélagsins sem lagði mat á gæði þeirra. Ráðið lagði til að ellefu umsóknir hlytu styrki að þessu sinni og féllst stjórn Vísindasjóðs Krabbameinsfélags Íslands á þá tillögu. 

Aðalgeir Arason sameindalíffræðingur hlýtur 1.940.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Leit að erfðabreytileikum með fjölgenaáhrif á myndun brjóstakrabbameins.“

Dr. Birna Baldursdóttir lýðheilsufræðingur og aðjúnkt hlýtur 4.360.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Prófun á gagnvirku ákvörðunartæki sem aðstoðar karlmenn, sem greinst hafa með staðbundið blöðruhálskirtilskrabbamein, við ákvarðanatöku um meðferðarleið.“

Dr. Erla Kolbrún Svavarsdóttir hjúkrunarfræðingur og prófessor hlýtur 2.000.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Þróun meðferðarsamræðna við konur með krabbamein og maka og áhrif samræðna á aðlögun tengda kynlífi og nánd.“

Dr. Erna Magnúsdóttir sameindalíffræðingur og dósent hlýtur 5.000.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Sameindaferlar að baki BLIMP1 og EZH2 miðlaðri lifun í Waldenströmsæxlum.“

Dr. Guðrún Valdimarsdóttir sameindalíffræðingur og lektor hlýtur 6.300.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Samspil TGFβ boðleiðarinnar og Thrombospondin-1, áhrif á samskipti æðaþels- og brjóstakrabbameinsfruma.“

Dr. Gunnhildur Ásta Traustadóttir
sameindalíffræðingur hlýtur 2.000.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Hlutverk Delta-like 1 homolog (DLK1) í greinóttri formgerð brjóstkirtils og brjóstakrabbameini.“
Dr. Inga Reynisdóttir sameindalíffræðingur hlýtur 2.145.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Hlutverk microRNA á 8p12-p11 í framvindu brjóstakrabbameins.“

Dr. Margrét Helga Ögmundsdóttir lífefnafræðingur hlýtur 7.500.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Hlutverk sjálfsátsgensins ATG7 í þróun krabbameina.“

Dr. Stefán Sigurðsson sameindalíffræðingur og dósent hlýtur 4.000.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Áhrif stökkbreytinga í BRCA2 á vefjasértækni og þróun krabbameina.“

Dr. Valtýr Stefánsson Thors
barnasmitsjúkdómalæknir hlýtur 2.814.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Miðlægir bláæðaleggir hjá börnum með illkynja sjúkdóma, fyrirbyggjandi aðgerðir og eftirlit með fylgikvillum.“

Dr. Þórarinn Guðjónsson
frumulíffræðingur og prófessor hlýtur 4.560.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Hlutverk non-coding RNAs í greinóttri formgerð og bandvefs¬umbreytingu þekjuvefjar í eðlilegum og illkynja brjóstkirtli.“

Markmið Vísindasjóðs Krabbameinsfélags Íslands er að efla íslenskar rannsóknir á krabbameinum með því að styrkja með fjárframlögum rannsóknir á orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga. Stefnt er að því að úthluta árlega úr sjóðnum. Formaður sjóðsstjórnar er Stefán Eiríksson lögfræðingur og varaformaður Sigríður Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur.

Lýsingar styrkþega á verkefnunum


Aðalgeir Arason:
Leit að erfðabreytileikum með fjölgenaáhrif á myndun brjóstakrabbameins.

„Ættlæg tilhneiging til myndunar brjóstakrabbameins tengist oft genunum BRCA1 og BRCA2 en í mörgum tilvikum eru erfðaorsakir enn óþekktar. Sterk líkindi hafa sést á samspili þriggja óþekktra breytileika í einni ætt. Viðkomandi litningssvæði hafa verið raðgreind og nokkrir álitlegir breytileikar verða rannsakaðir frekar í fjarskyldum ættingjum og íslensku þýði.“ 

Birna Baldursdóttir: 

Prófun á gagnvirku ákvörðunartæki sem aðstoðar karlmenn, sem greinst hafa með staðbundið blöðruhálskirtilskrabbamein, við ákvarðanatöku um meðferðarleið.

„Meðferðarleiðir við staðbundnu blöðruhálskirtilskrabbameini hafa mismunandi aukaverkanir. Engin ein meðferð er talin best og getur val á meðferð því valdið streitu og vanlíðan og leitt til ákvörðunar sem ekki er nægjanlega ígrunduð. Markmið okkar er að prófa gagnvirkt tæki sem veitir upplýsingar og aðstoð við þessa erfiðu ákvörðun.“

Erla Kolbrún Svavarsdóttir: 

Þróun meðferðarsamræðna við konur með krabbamein og maka og áhrif samræðna á aðlögun tengda kynlífi og nánd.

„Greining og meðferð krabbameins er fyrirséður álagsvaldur í sambandi við kynlíf og nánd og skortur er á rannsóknum um þetta efni. Tilgangur doktorsverkefnisins er að þróa og meta árangur meðferðar fyrir pör þar sem konan hefur greinst með krabbamein í því skyni að efla aðlögun tengda kynlífi og nánd.“

Erna Magnúsdóttir: 

Sameindaferlar að baki BLIMPI og EZH2 miðlaðri lifun í Waldenströmsæxlum.

„Um 3 milljónir einstaklinga eru greindir með Waldenströmssjúkdóm á hverju ári í heiminum, en sjúkdómurinn er ólæknandi hægfara krabbamein B-eitilfruma. Í þessu verkefni er ætlunin að kanna genastjórnun og mögulega samverkan stjórnpróteinanna BLIMP1 og EZH2 í Waldenströms-æxlisfrumum, en niðurstöður okkar benda til þess að þættirnir séu nauðsynlegir fyrir lifun frumanna og því möguleg lyfjamörk.“

Guðrún Valdimarsdóttir: 

Samspil TGFβ boðleiðarinnar og Thrombospondin-1, áhrif á samskipti æðaþels- og brjóstakrabbameinsfruma. 

„Þótt batahorfur brjóstakrabbameinssjúklinga séu tiltölulega góðar þá steðjar aðalógnin að mögulegri meinvarpamyndun. Markmið verkefnisins er að skilja í þaula samspil æðaþels og brjóstakrabbameinsfruma á sameindafræðilegum grundvelli m.t.t. hinnar margslungnu TGF-beta boðleiðar. Sú þekking hefur gífurlegt gildi þegar litið er til sértækra meðferðarmöguleika með sértæku sameindalyfi fyrir brjóstakrabbameinssjúklinga til að fyrirbyggja myndun meinvarpa sem er aðaldánarorsök krabbameins.“ 

Gunnhildur Ásta Traustadóttir: 

Hlutverk Delta-like 1 homolog (DLK1) í greinóttri formgerð brjóstkirtils og brjóstakrabbameini.

„Verkefnið miðar að því að rannsaka hlutverk stofnfrumustjórnprótínsins Delta-like 1 homolog (DLK1) í framþróun/meinvörpun krabbameina sem eiga upptök sín í stofnfrumum brjóstkirtilsins. Verkefnið miðar einnig að því að greina hvort DLK1 geti orðið nýtt lífmerki og hugsanlega lyfjamark við brjóstakrabbameini.“ 

Inga Reynisdóttir: 
Hlutverk microRNA á 8p12-p11 í framvindu brjóstakrabbameins.

„Krabbamein í brjóstum er algengasta krabbamein kvenna á Vesturlöndum.  Breytingar í erfðaefni frumna geta leitt til brenglunar í erfðavísum sem ýta undir æxlismyndun.  Rannsóknir okkar eru á æxlisvef úr brjóstum og beinast að því hvort slíkir erfðavísar tengist klínískum eða vefjameinafræðilegum þáttum sem geta sagt fyrir um framgang brjóstakrabbameins.“ 

Margrét Helga Ögmundsdóttir: 
Hlutverk sjálfsátsgensins ATG7 í þróun krabbameina. 

„Verkefnið gengur út á að skilgreina hlutverk frumusjálfsáts í myndun æxla. Við höfum greint erfðabreytileika í frumusjálfsátsgeni, sem hefur áhrif á krabbameinsáhættu. Styrkurinn er gríðarlega mikilvægur og mun gera okkur kleift að skoða virkni þessa erfðabreytileika í krabbameinsfrumum með það að leiðarljósi að bæta meðferðarmöguleika.“

Stefán Sigurðsson:
Áhrif stökkbreytinga í BRCA2 á vefjasértækni og þróun krabbameina.

 

„Markmið verkefnisins er að nota CRISPR-erfðatæknina til að rannsaka tvær þekktar stökkbreytingar í BRCA2 geninu sem valda aukinni áhættu á myndun brjóstakrabbameins annars vegar og lungnakrabbameins hins vegar. Í verkefninu verður leitast við að skilgreina áhrif þessara stökkbreytinga á virkni BRCA2 próteinsins og þar með vefjasértækni þeirra.“

Þórarinn Guðjónsson: 
Hlutverk non-coding RNAs í greinóttri formgerð og bandvefs¬umbreytingu þekjuvefjar í eðlilegum og illkynja brjóstkirtli. 

„RNA-sameindir sem ekki tjá fyrir próteinum (ncRNA) eru mikilvægar fyrir þroskun vefja en jafnframt eru þær taldar gegna mikilvægu hlutverki í tilurð og framþróun æxlisvaxtar. Í verkefninu munum við rannsaka hlutverk ncRNA í tengslum við greinótta formgerð brjóstkirtils og hvernig ncRNA-sameindir taka þátt í bandvefsum¬breytingu þekjufruma en það ferli er talið nauðsynlegt fyrir ífarandi æxlisvöxt og meinvarpamyndun.“ 

Valtýr Stefánsson Thors: 

Miðlægir bláæðaleggir hjá börnum með illkynja sjúkdóma, fyrirbyggjandi aðgerðir og eftirlit með fylgikvillum. 

„Verkefnið lýtur að skráningu fylgikvilla miðlægra bláæðaleggja sem eru nauðsynlegir fyrir börn með illkynja sjúkdóma. Með ítarlegum rauntíma-gagnagrunni og reglulegum úttektum á ísetningum æðaleggjanna og fylgikvillum þeirra  er markmiðið að umönnun miðlægra bláæðaleggja hjá börnum með illkynja sjúkdóma verði sambærileg bestu sjúkrahúsa heims.“


Fleiri nýjar fréttir

1. des. 2023 : Minningarorð um Jón Þorgeir Hallgrímsson

Jón Þorgeir Hallgrímsson, læknir, fyrrverandi formaður Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags Reykjavíkur lést þann 21. nóvember sl., 92 ára að aldri. Jóns Þorgeirs er minnst hjá Krabbameinsfélaginu með mikilli virðingu og þakklæti. Aðstandendum vottar félagið innilega samúð. 

Lesa meira

28. nóv. 2023 : Taktu þátt í skemmtilegum jólaleik

Litríkt, jólalegt og hollt á borðið þitt. Krabbameinsfélagið í samstarfi við Banana og Hagkaup óska eftir jólalegum útfærslum á framsetningu á grænmeti, ávöxtum og berjum til að nýta á jólaborðið eða veislubakkann. Veglegir vinningar í boði.

Lesa meira
Ljósmynd: Thule Photos

28. nóv. 2023 : Dýrmætt að vita að maður stendur ekki einn í þessu

Flestir sem hafa upplifað það að missa einhvern náinn sér eru líklega sammála um að sorgin er erfið og þungbær. Sorg barna er sérstaklega vandmeðfarin og það getur skipt máli fyrir úrvinnslu þeirra að fá réttan stuðning frá nærsamfélaginu. Hannes missti eiginkonu sína úr krabbameini árið 2022, en þau áttu tvær dætur saman. Hann segir hér frá sorgarúrvinnslunni og helstu úrræðum sem þau feðgin hafa nýtt sér, en þar á meðal er stuðningur Krabbameinsfélagsins við börn sem missa foreldri.

Lesa meira

28. nóv. 2023 : „Mig langaði til að taka þessa byrði og bera hana sjálf“

Rakel Ósk Þórhallsdóttir, eigandi vefverslunarinnar Central Iceland, hefur undanfarin þrjú ár stutt dyggilega við Bleiku slaufuna, en í heildina telur framlag hennar 7.385.000 kr. Rakel segir hér frá drifkraftinum á bak við verkefnið, en hún hefur persónulega tengingu við málstaðinn.

Lesa meira

23. nóv. 2023 : Fulltrúar Krabbameinsfélagsins á faraldsfæti

Um þessar mundir stendur Krabbameinsfélagið fyrir átaksverkefni sem miðar að því að fjölga í þeim góða hópi Velunnara sem styðja þétt við bakið á félaginu með mánaðarlegum framlögum. Í nóvember heimsækjum við Selfoss.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?