Björn Teitsson 29. maí 2021

Krabbameinsfélagið veiti allt að 450 milljónum til nýrrar dagdeildar

  • Sigurdur_hannesson

Krabbameinsfélagið samþykkti í dag að veita allt að 450 milljónum króna til uppbyggingar nýrrar dagdeildar fyrir krabbameinssjúklinga við Landspítala. Aðstæður sjúklinga, aðstandenda og starfsfólks er óásættanleg í dag. Úr því vill félagið bæta.

Á aðalfundi Krabbameinsfélags Íslands sem haldinn var á Selfossi fyrr í dag var samþykkt að félagið veitti allt að 450 milljónum til byggingar nýrrar dagdeildar blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala. Samþykktin er háð því að stjórnvöld setji uppbyggingu deildarinnar í forgang, þannig að taka megi nýja deild í notkun árið 2024.

Sigurdur_hannessonSigurður Hannesson, stjórnarmaður, kynnti ályktunina á aðalfundinum. 

Landspítali gegnir lykilhlutverki í þjónustu við fólk sem greinist með krabbamein hér á landi bæði varðandi greiningu og meðferð. Spítalanum er ætlað það hlutverk áfram í krabbameinsáætlun til ársins 2030.

Þeir sem fá lyfjameðferð við krabbameinum fá hana flestir á dagdeildinni. Starfsfólk deildarinnar veitir að auki heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni ráðgjöf varðandi meðferð sem fólki býðst þar.

Deildin er staðsett í elsta hluta Landspítala, í húsnæði sem hentar illa fyrir starfsemina og deildin hefur fyrir löngu sprengt utan af sér.

Markmið hér á landi er að árangur í baráttunni gegn krabbameinum sé á heimsmælikvarða. Til að viðhalda þeim góða árangri af krabbameinsmeðferð sem er hér á landi og gera enn betur þarf aðstaða sjúklinga og aðstandenda að vera fyrsta flokks. Til að laða að sérhæft starfsfólk og gera því kleift að sinna sínu starfi á bestan hátt verður aðstaðan að sama skapi að standast samanburð við það sem best gerist erlendis.

Til þess þarf að byggja nýja deild.

Landspítalinn hefur unnið tillögu að lausn á vanda deildarinnar. Lausn sem er auðvelt að hrinda í framkvæmd og nýtist til framtíðar, líka þegar tillit er tekið til þeirrar 30% fjölgunar krabbameinstilvika sem gert er ráð fyrir á næstu 15 árum.

Aðalfundur Krabbameinsfélags Íslands skorar á stjórnvöld að leggjast á árar með félaginu og setja uppbyggingu fyrsta flokks framtíðaraðstöðu dagdeildar blóð- og krabbameinslækninga í forgang.

Leysum málið – lausnin er til!


Fleiri nýjar fréttir

24. apr. 2024 : Fundarboð: Aðal­fundur Krabba­meins­félagsins

Hér með er boðað til aðalfundar Krabbameinsfélagsins sem fer fram laugardaginn 25. maí kl. 13 í húsnæði félagsins að Skógarhlíð 8, Reykjavík.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Krabba­meins­skráning á Íslandi í 70 ár - Afmælis­málþing

Í tilefni af 70 ára afmæli krabbameinsskráningar á Íslandi býður Krabbameinsfélagið til afmælismálþings.

Lesa meira

16. apr. 2024 : Með þínum stuðningi getum við gert svo ótal margt!

Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim fjölmörgu sem lögðu félaginu lið í Mottumars, árverkni- og fjáröflunarátaki félagsins, í ár. Við erum hrærð yfir þeirri velvild, samkennd og hlýju sem við fundum svo vel fyrir. Öll starfsemi félagsins er rekin fyrir sjálfsaflafé og því er stuðningur almennings og fyrirtækja forsenda fyrir starfinu.

Lesa meira

12. apr. 2024 : Saga Ómars Einarssonar

Ómar fékk krabbamein í háls, árið 2008, á sama tíma og Geir H. Haarde blessaði Ísland. Hann var geislaður í upphafi og síðar skorinn. Í framhaldinu var honum bent á að hitta Ragnar Davíðsson, formann félagsins Ný rödd, sem er eitt af aðildarfélögum Krabbameinsfélagsins. Ragnar hafi hjálpað sér og öðrum mikið.

Lesa meira

8. apr. 2024 : Frábær þátttaka í Skegg­keppni Mottu­mars 2024

Þátttakendur í Skeggkeppni Krabbameinsfélagsins þetta árið voru 360 talsins og alls söfnuðust rétt rúmlega 7,3 milljónir króna. Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem tóku þátt og öllum sem styrktu.

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?