Sigriður Sólan Guðlaugsdóttir 1. feb. 2019

Krabbameinsfélagið fagnar samþykkt fyrstu íslensku krabbameinsáætlunarinnar

  • Halla Þorvaldsdóttir
    Halla Þorvaldsdóttir er framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands

Í vikunni urðu stór tímamót þegar Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tilkynnti að fyrsta íslenska krabbameinsáætlunin, sem gildir til ársins 2030, hefði verið samþykkt.

Krabbameinsfélagið fagnar þessum mikilvægu tímamótum, en félagið hefur allt frá árinu 2010 beitt sér fyrir því að gerð yrði íslensk krabbameinsáætlun. Árið 2011 tilkynnti Guðbjartur Hannesson, þáverandi heilbrigðisráðherra, að hafin yrði vinna við áætlunina.

Í framhaldinu var stofnaður ráðgjafarhópur um krabbameinsáætlun sem starfaði á árunum 2013 til 2016 og lagði fram tillögur að krabbameinsáætlun til ársins 2020. Heilbrigðisráðherra hefur nú samþykkt tillögurnar sem krabbameinsáætlun og ákveðið að hún muni gilda til ársins 2030.

„Það er afar gleðilegt að við séum loks komin í hóp þeirra landa sem við viljum bera okkur saman við og hafa unnið eftir krabbameinsáætlunum í nokkurn tíma. Þetta er stór áfangi, bæði fyrir þá sem greinast með krabbamein en ekki síður fyrir heilbrigðisstarfsfólk, því með áætluninni eru stjórnvöld búin að setja sér metnaðarfull markmið í tengslum við krabbamein, allt frá forvörnum til endurhæfingar,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands.

Grunnur að stefnumótun í þjónustu við fólk með krabbamein

Áætlunin er mjög víðfeðm og gert er ráð fyrir að hún verði grunnur að stefnumótun í þjónustu við fólk með krabbamein á öllum stigum. Í áætluninni eru 10 markmið með mörgum undirmarkmiðum, sem snúa að forvörnum gegn krabbameinum, sérhæfðri þjónustu, greiningu og meðferð í hæsta gæðaflokki, reglubundinni gæðaskráningu á greiningu og meðferð, árangursmati, möguleikum á að taka þátt í vísindarannsóknum, valdeflingu og virkni sjúklinga og aðstandenda, samfelldri, samræmdri og heildstæðri þjónustu og meðferð, með markvissu mati á líðan og lífsgæðum,meðal annars mati á endurhæfingarþörf. Er þó ekki allt upptalið hér.

Miðað að því að koma í veg fyrir krabbamein, fækka dauðsföllum og bæta lífsgæði

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lagði til árið 2002 að þjóðir kæmu sér upp krabbameinsáætlunum enda mætti búast við auknum fjölda krabbameinstilvika á næstu árum. Afar miklu skiptir því að hafa áætlun sem miðar að því að koma í veg fyrir krabbamein, fækka dauðsföllum af völdum krabbameina og bæta lífsgæði þeirra sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra. Ísland hefur nú bæst í hóp þeirra fjölmörgu landa sem eru með virka krabbameinsáætlun.

Í tilkynningu ráðherra kemur fram að í flestum tilfellum séu til staðar þeir innviðir í heilbrigðiskerfinu sem nauðsynlegir eru svo markmiðunum megi ná. Þar er hins vegar líka nefnt að skortur sé á samfelldri þjónustu, að möguleikar til endurhæfingar séu takmarkaðir og sjúklingar og aðstandendur hafi ekki nægilegt aðgengi að upplýsingum. Krabbameinsfélagið tekur heilshugar undir að úrbóta er þörf varðandi þessi atriði.

Krabbameinsfélagið ásamt stuðningshópum og aðildarfélögum um land allt er reiðubúið til að vinna að öllum góðum málum til heilla þeim sem greinast með krabbamein og aðstandendum þeirra og til að fækka krabbameinstilvikum.

Félagið er tilbúið til að leggja sitt af mörkum til að markmið áætlunarinnar náist og hlakkar til frekara samstarfs.


Fleiri nýjar fréttir

Arnar Pétursson og Berglind Alda Ástþórsdóttir

22. ágú. 2019 : Hvatningarbönd fyrir hlaupara í Reykjavíkurmaraþoni

Krabbameinsfélagið býður öllum hlaupurum sem taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu ennisband eða fyrirliðaband með slagorðunum „Ég hleyp af því ég get það.“

Lesa meira

15. ágú. 2019 : Aukaskoðun í Vestmannaeyjum 22. og 23. ágúst

Afar dræm þátttaka var í skimun fyrir brjóstakrabbameini í Vestmannaeyjum í vor og kom í ljós að mistök höfðu átt sér stað í póstsendingu boðsbréfa sem ekki bárust öllum konum sem komið var að í skimun.

Lesa meira

15. ágú. 2019 : Opnunartími Krabbameinsfélagsins í vetur

Starfsfólk Krabbameinsfélags Íslands er að mestu komið til starfa eftir sumarleyfi og hefðbundin starfsemi er hafin. 

Lesa meira

12. ágú. 2019 : Opið fyrir umsóknir í vísindasjóð norrænu krabbameinssamtakanna

Vakin er athygli á því að opið er fyrir umsóknir í vísindasjóð NCU (Norrænu krabbameinssamtakanna). Umsóknarfrestur er til og með 2. september næstkomandi.

Lesa meira
Brjóstaskoðun á Leitarstöð

9. ágú. 2019 : Mikil eftirspurn eftir tímum í skimun

Aldrei hafa jafnmargar tímapantanir í skimun beðið starfsfólks Leitarstöðvarinnar að loknum sumarleyfum og nú. Um 800 tölvupóstar biðu afgreiðslu og er nú unnið að því að bæta við tímum til að anna eftirspurn. 

Lesa meira

Var efnið hjálplegt?